10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5612 í B-deild Alþingistíðinda. (4915)

Um þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt í sambandi við fsp. hv. þm. Karvels Pálmasonar um hverjir hafi kosið nefndarformenn. Við bandalagsmenn kusum ekki þá nefndarformenn sem eru starfandi hér í vetur. En ég var að tala almennt um þingstörfin og stöðu þm. gagnvart nefndum sem fyrirsjáanlega munu ekki koma frá sér málum þm. Það var í því sambandi sem ég notaði fyrstu persónu.

Varðandi ummæli hv. þm. Ólafs Þórðarsonar um valdsvið nefndarformanna, þá er náttúrulega augljóst að með því að halda ekki fundi í nefndum, t. d. um miðbik vetrar, aukast augljóslega líkurnar á tímaþröng og máladauða, sem þráfaldlega gerir víst vart við sig á vorin, að því er þingreyndir menn segja mér. Það er náttúrlega þannig sem vald nefndarformanna kemur fram, að þeir geta á vissan hátt valið og hafnað í sláturtíðinni. Það þarf nefnilega að halda fundi til þess að meiri hl. geti afgreitt mál úr nefndunum.