10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5612 í B-deild Alþingistíðinda. (4916)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram út af því sem hv. 8. þm. Reykv. sagði í upphafi þessarar umr. að forseti hefur oftar en einu sinni gert ráðstafanir til að stuðla að því að sem eðlilegust vinnubrögð verði viðhöfð í nefndum. Allir formenn nefnda voru kvaddir á fund forseta í febrúarmánuði og úr forsetastóli var lögð áhersla á þetta í marsmánuði. Það var sérstaklega vakin athygli á því að starfshættir nefnda þyrftu að vera með þeim hætti, að ekki kæmu nál. um of síðustu daga þingsins heldur væri afgreiðslu mála dreift á lengri tíma. Þá var tekið fram og það skal nú tekið fram, að það er ekki í valdi forseta að kveða á um það hvaða mál nefndir skuli afgreiða né hvernig nefndir afgreiða mál. En það er í verkahring forseta að gera það sem í hans valdi stendur til þess að starfshættir þingsins verði með sem eðlilegustum hætti.

Það skal tekið fram, eins og augljóst er, að það eru mörg mikil verkefni fyrir höndum hjá okkur í þinginu í dag. Gert er ráð fyrir þingdeildarfundum að loknum fundi í Sþ. Það er líka gert ráð fyrir að utandagskrárumr. verði á tímanum kl. 4–5. Það er leyft á þeirri forsendu að okkur takist að hafa þær umr. innan vissra tímamarka.