10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5619 í B-deild Alþingistíðinda. (4921)

270. mál, afnám tekjuskatts á almennum launatekjum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hagar svo til að á dagskrá eru tvær þáltill. samtímis. Það er margt sem bendir til þess að það sé rétt frá skýrt í grg. með þáltill. þeirri sem hv. þm. Gunnar G. Schram er 1. flm. að að ætla megi að það sé meiri hluti á Alþingi fyrir samþykkt þessara tillagna. Allshn. Sþ. hlýtur mjög að taka tillit til slíkra aðstæðna og skoða það hvort ekki sé hægt að hraða málinu í gegnum nefndina og inn í þingið þannig að þm. geti tekið afstöðu til málsins.

Mér sýnist við fyrsta yfirlestur að Alþfl.-menn gangi öllu hreinna til verks í þessum efnum þar sem þeir leggja til að samið verði frv. þar sem ákvörðun verði tekin hvernig að þessu skuli staðið. Ég fyrir mína parta treysti hæstv. fjmrh. fullkomlega til að vinna að þessum málum til hagsbóta fyrir land og þjóð án þess að Alþingi setji neina nefnd honum til höfuðs og veit að hann hefur á að skipa góðu starfsliði og gæti leyst það innan síns rn. að taka á málinu.

En það er allt satt og rétt sem hér hefur verið sagt um það að tekjuskatturinn hefur á margan hátt á undanförnum árum verið að þróast yfir í það að vera að mörgu leyti óréttlátur skattur. Í því efni vil ég minna á það að allshn. Sþ. er þegar búin að leggja til samþykkt á og Alþingi búið að samþykkja tillögur þar sem kveðið er á um athuganir á því hvaða starfsgreinar og hópar þjóðfélagsins hafi e. t. v. átt möguleika á að koma sér undan því að greiða þann tekjuskatt sem sanngjarnt væri og eðlilegt. Ég vil þess vegna ítreka það að í þessari stöðu þegar mál kemur fram, jafnstórt og hér er um að ræða, og jafnmiklar líkur eru á að meiri hl. sé á Alþingi fyrir samþykkt þess, þá hlýtur að sjálfsögðu að vera ábyrgðarhlutur hjá allshn. að reyna ekki að koma því til þingsins til ákvarðanatöku. Eins og ég gat um áðan sýnist mér aftur á móti að sú þál. sem Alþfl. flytur gangi öllu hreinna til þessa verks, en e. t. v. er hugsanlegt að sjóða eina till. upp úr þessum báðum.