10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5627 í B-deild Alþingistíðinda. (4929)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það væri nú vonandi að talsmönnum ríkisstj. í komandi eldhúsdagsumr. nægði sá tími sem þeir þar fá til umráða til að samræma þau ólíku sjónarmið sem uppi eru þessa dagana innan ríkisstj. og við verðum vitni að á hverjum degi á hinu háa Alþingi og almenningur verður vitni að í fréttaflutningi fjölmiðla. Það er sama hvort er verið að ræða þar um bindiskyldu og það sem Sjálfstfl. segir um það og Framsfl. um það, hvort verið er að ræða um sparnað á sviði skólamála, það sem Framsfl. segir um það og það sem Sjálfstfl. segir um það, hvort er verið að ræða skattlagningu á kókómjólk, það sem Sjálfstfl. segir um það og það sem Framsfl. segir um það. Það er vonandi að þeim nægi tíminn sem þeir fá þar til umráða til að samræma þau sjónarmið og raunar það marga sem virðist nú í vaxandi mæli skilja þá tvo íhaldsflokka að sem nú stjórna landinu. Þeir gætu kannske varið einhverjum tíma til að samræma sjónarmið sín í kartöflumálinu sem hér hefur borið á góma fyrr í dag.

En herra forseti. Auðvitað er freistandi að fara hér allmörgum orðum um ýmislegt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 5. þm. Norðurl. e., um fjölmiðlana og þeirra hlutverk, blöðin. Einkanlega minntist hann þar á Morgunblaðið og DV. Það er í rauninni afskaplega hlálegt og furðulegt, þó að það bendi nú til þess að menn lesi ekki blöðin ýkja grannt, þegar því er haldið fram hér að þetta séu einhvers konar hlutlausir fjölmiðlar og það séu hlutlausar frásagnir af því sem gerist á Alþingi sem birtast í Morgunblaðinu og DV. Þar er auðvitað haldið fram málum þeirra flokka sem að þessum blöðum standa, þótt með óbeinum hætti sé, bæði leynt og ljóst. Og þegar slíkt er gert leynt, undir yfirskini hlutleysis, þá er það hættulegt. Það er ekkert við því að segja þegar blöð eru málgögn flokka og koma fram sem slík, koma til dyranna eins og þau eru klædd, en færa sig ekki í eitthvert dulargervi hlutleysisins til að blekkja lesendur. Það er það hættulega og það vill því miður á stundum við brenna hér. Um þetta mætti tala lengi í tilefni ummæla hv. 5. þm. Norðurl. e., en ég ætla ekki að hafa þau orð fleiri.

Hér er til umr., herra forseti, till. til þál. um beint útvarp frá Alþingi. Vel má það vera að á henni séu einhverjir formgallar, en ég held hins vegar að það réttlæti ekki að hún hljóti þá afgreiðslu sem hér hefur komið fram till. um. Ég held að það sé miklu eðlilegra að vísa þessu máli, eins og hér hefur verið á bent, til þeirrar n. sem nú fjallar um endurskoðun þingskapalaga undir ágætri forustu forseta Sþ. og hefur þegar unnið töluvert starf og á eftir að vinna meira. Það er nefnilega býsna margt í þessu sambandi sem þarf að athuga. Ég held f. d., án þess að ég ætti að gerast nokkur úrtölumaður, að það sé tæknilega örðugt að hefja í ársbyrjun 1985 beina útsendingu frá daglegum fundum Alþingis. Það mundi væntanlega hafa það í för með sér að það yrði, ef það ætti að fara eftir orðanna hljóðan, að senda samtímis út á sitt hvorri bylgjulengdinni frá fundi sem stendur yfir í Nd. og fundi sem stendur yfir í Ed. Þetta er auðvitað tæknilega hægt, en fjárhagslega er þetta mjög dýrt ef við ætlum að láta þessa útsendingu ná til alls landsins.

Ég er hins vegar hiklaust þeirrar skoðunar að það eigi að taka upp með einhverjum hætti beint útvarp frá Alþingi og bendi á að til þess skapast vissulega möguleikar þegar sendikerfi Rásar 2, sem svo hefur verið nefnd, nær til alls landsins, sem væntanlega gerist seint á þessu ári eða í byrjun næsta árs. En það verður samt ekki hægt að útvarpa hér frá öllum fundum og raunar held ég að hóf sé nú best á hverjum hlut og um þetta beri að setja reglur. Það mætti hugsa sér að þann tíma sem þing situr yrði útvarpað í 2–3 klst. frá fundum Sþ. og til skiptis frá fundum efri og neðri deildar og það yrði gert um sendikerfi Rásar 2 og útsendingartími hennar þá lengdur á venjulegu dagskrárefni fram á kvöldið til jafntengdar. Raunar eru þau mál öll í endurskoðun hjá Ríkisútvarpinu. Ég held að það sé af hinu góða að stuðla að því að þjóðin fái ítarlegar fréttir og fyllri mynd af því sem gerist í umr. á Alþingi.

Mér er mætavel ljóst að í stuttum fréttatímum, þótt vel sé unnið og samviskusamlega af hálfu fréttamanna og reynt að gera engum rangt til, verður sú mynd sem fram kemur í örstuttum fréttafrásögnum mjög gisin og getur aldrei orðið annað. Auðvitað má endalaust della um hvernig þetta er gert, en ég hygg þó t. d. að nú að undanförnu hafi þetta tekist tiltölulega vel til og betur en oft áður. En eins og þessu er nú háttað verður þetta alltaf mjög óglögg mynd. Og fréttamat er misjafnt. Það er erfitt t. d. fyrir fréttamenn ríkisfjölmiðla, sem hér eru, að fylgjast með umr. í báðum deildum samtímis. Það er erfitt ef ekki ógjörningur að ætlast til að menn geti fylgst með ræðuflutningi á tvennum vígstöðvum og gert því skil svo vel sé. Þarna verður auðvitað að velja og hafna og það val verður ævinlega umdeilt. Þess vegna held ég að þrátt fyrir að það megi benda á galla á þessari till. sé hún efnislega mikillar athugunar og umhugsunar virði fyrir Alþingi.

Ég get raunar tekið undir ákaflega margt af því sem hv. þm. Svavar Gestsson, 3. þm. Reykv., sagði í þessum umr. áðan. En ég hvet eindregið til þess að þetta mál verði athugað rækilega, bæði með tilliti til kostnaðar og með tilliti til þess hvað er mögulegt að gera og hvenær er mögulegt að gera það. Það er, held ég, rétt í þessari stöðu að sú n. sem nú fjallar um breytingar á þingskapalögum fái þetta mál með einhverjum hætti til meðferðar en að þessari till. verði ekki vísað frá með þeim snubbótta hætti sem mér finnst afgreiðsla með rökstuddri dagskrá vera. Mér finnst þetta í rauninni vera betra mál en svo að það eigi slíka afgreiðslu skilið.