10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5631 í B-deild Alþingistíðinda. (4933)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þann 23. sept. s. l. var undirritaður svokallaður bráðabirgðasamningur milli ríkisstjórna Íslands og Swiss Aluminium Ltd. eða Alusuisse „um leiðir til lausnar á yfirstandandi deilum milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. og um ráðstafanir — að hluta tímabundnar — varðandi starfsgrundvöll, þar á meðal orkuverð og framtíðarþróun álbræðslunnar í Straumsvík“. Þetta er heiti þess samkomulags sem gert var milli ríkisstj. og Alusuisse og hæstv. iðnrh. gaf þessu samkomulagi þá einkunn að unnið hefði verið „ótrúlegt afrek“.

Þessi samningur var kynntur hér á hv. Alþingi með framlagningu skýrslu í októbermánuði 1983. Skýrslan kom til umr. hér í hv. Sþ. á fundum 17., 22. og 24. nóv. s. l. og 8. des., en þá var þeirri umr. frestað. Í þessari umr. kom það fram, að nokkurt hik var komið á hæstv. iðnrh. um ágæti þessa bráðabirgðasamnings, a. m. k. í vissum greinum. Hann sagði m. a. við umræðuna 8. des. s. l. með leyfi forseta:

„Því hefur verið margyfirlýst af minni hálfu að við höfum náð mjög skammt og allsendis ófullnægjandi fram í orkuverði í samningunum við auðhringinn.“

Og einnig sagði hæstv. iðnrh. í sömu ræðu:

„Við eigum mestallt verkið eftir í samningunum við þennan harðsnúna auðhring. Og þá kemur til Teits og Siggu og því verður Alþingi látið fylgjast með frá tíma til tíma. Um það þurfið þið ekkert að efast.“

Síðan þetta var mælt eru liðnir fimm mánuðir. Framhald hefur ekki orðið á umræðunni um skýrslu hæstv. ráðh. um þennan bráðabirgðasamning né heldur um framvindu samningaviðræðna á grundvelli hans, þrátt fyrir fyrirheit hæstv. ráðh. um að Alþingi yrði látið fylgjast með framvindu málsins. Þessir samningar á grundvelli bráðabirgðasamkomulagsins áttu að verða til lykta leiddir í aprílmánuði s. l. skv. texta sjálfs samningsins. En ekkert hefur af framvindu mála spurst hér á hv. Alþingi þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðh. sem ég greindi hér frá áðan. Það sem ég hef heyrt frá hæstv. ráðh. um þetta mál á þeim tíma sem liðinn er frá því að málin voru hér rædd síðast í desembermánuði er harla mótsagnakennt og einnig það sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Ég taldi því óhjákvæmilegt nú, þegar nálgast þinglausnir, og nánast skyldu mína að inna hæstv. iðnrh. eftir stöðu samningaviðræðnanna og hvað valdi þeim mikla drætti sem þegar er á orðinn, að þær verði til lykta leiddar með einhverjum hætti. Tímaramminn, sem aðilar settu sér í bráðabirgðasamkomulaginu, er sem kunnugt er þegar sprunginn, 1. apríl liðinn og komið fram í maímánuð og Alþingi hefur engin grein verið gerð fyrir málum.

Hæstv. ráðh. var svo vinsamlegur að fallast á að svara hér fsp. frá mér um þetta efni utan dagskrár og hæstv. forseti féllst vinsamlega á að leyfa þessa umr. Til að þjappa máli mínu saman kýs ég að rifja hér aðeins upp nokkra helstu efnisþætti bráðabirgðasamningsins og bið hæstv. ráðh. að gera okkur grein fyrir því hvernig staðan er í samningaviðræðum aðila varðandi hvern þátt samningaviðræðnanna.

Fyrsti kafli samningsins frá 23. sept. s. l. er um lausn deilumála varðandi skattgreiðslur. Hann er um skattadeiluna sem snýst um viðbótarskatt sem nemur um 300 millj. kr. vegna vantalins hagnaðar ÍSALs að upphæð 36 millj. Bandaríkjadala eða sem svarar til 1000 millj. ísl. kr. skv. ákvörðun fjmrn. vorið 1983. Um þetta atriði segir í inngangi samningsins frá 23, sept. s. l. með leyfi hæstv. forseta:

„Viðræður um málið milli aðilanna til þessa hafa ekki leitt til sameiginlegrar lausnar og ráðstafanir hafa því nýlega verið gerðar til að leggja deiluna um framleiðslugjaldið í alþjóðlegan gerðardóm á vegum SID-stofnunarinnar í samræmi við mgr. 4701 í aðalsamningnum. Enda þótt hvor aðili um sig sé alls kostar reiðubúinn til að hlíta þeim kosti, ef engin önnur viðunandi leið er tiltæk, kjósa þeir báðir fremur að leysa úr deilunni á vinsamlegri og skjótari hátt og hafa afráðið að gera það með þeim úrræðum sem lýst er hér á eftir.“

Þetta er það sem segir í inngangi um skattadeiluna, og sá farvegur sem Alusuisse hafði sérhannað og gert kröfu um að fallist yrði á, í stað þess farvegs sem aðalsamningurinn gerir ráð fyrir, felur í sér að settar voru á fót þrjár nefndir í stað gerðardóms skv. aðalsamningi. Um tímaramma fyrir störf þessara nefnda segir í grein 1.4 í samningnum á bls. 15 í skýrslu hæstv. ráðh. svofellt:

„Aðilarnir eru sammála um að dómnefndirnar tvær skv. gr. 1.1 og 1.2 skuli fullskipaðar innan fjögurra vikna eftir undirritun samnings þessa og munu mæla svo fyrir við nefndirnar að álitsgerðum þeirra verði skilað ekki síðar en sex mánuðum eftir að þær hafa verið skipaðar.“

Þetta þýðir að nefndir þessar tvær hefðu átt að ljúka störfum ekki síðar en 23. apríl s. l., þannig að ramminn fyrir starfsemi þeirra, þessi skjótvirka leið sem hæstv. ráðh. féllst á að kröfu Alusuisse að upp yrði tekin í sambandi við skattadeiluna, hún hefur ekki skilað þeim árangri sem gert var ráð fyrir í samningnum. Því spyr ég hæstv. ráðh.: Hvað líður störfum þessara nefnda, hvað tefur þennan hraðvirka farveg sem þarna var gert ráð fyrir? Hvenær er úrskurðar að vænta í nefndunum tveimur sem áttu að ljúka störfum í síðasta mánuði?

Ég kem þá að öðrum þætti þessa máls, sem er hin tímabundna raforkuverðshækkun, sem samið var um að gildi í eitt ár og er uppsegjanleg skv. samningnum af aðilum frá 23. júní að telja, þegar níu almanaksmánuðir eru liðnir frá undirritunardegi samningsins. Með þessu tímabundna álagi fékkst hækkun á raforku úr nálægt 6.5 mill í 9.5 mill, sem átti að skila á ársgrundvelli 117 millj. kr. í tekjum til Landsvirkjunar. Þetta er upphæð sem ekki er hærri en það sem Alusuisse hefur sparað sér í launagreiðslum á sama tíma fyrir tilverknað ríkisstj., þannig að hér hefur þeim tekist að ná fram hlutaskiptum eftir þeirri gömlu reglu að skipta á sléttu í viðskiptum við Íslendinga eða gott betur. Þannig hefur íslenskur þjóðarbúskapur ekkert haft upp úr þessu, ef tillit er tekið til þess sem ÍSAL hefur greitt í lægri launum til starfsmanna á þessum tíma.

Það var mikið úr þessu atriði gert og einnig viðbótarhækkun, sem átti að koma innan fárra vikna frá undirritun samningsins á liðnu hausti, hækkun um 0.5 mill sem átti að bæta við um 20 millj. kr. í tekjum til Landsvirkjunar, þegar álverð hefði náð ákveðnu marki. Ég hef ekki orðið var við það að þessi hækkun hafi gengið fram, þrátt fyrir þær gyllingar sem látið var að liggja við samningsgerðina að fælist í þessu atriði. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað líður þessari viðbótarhækkun upp í 10 mill sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu, hvenær er þess að vænta að hún verði að veruleika?

Þá vík ég að þriðja þætti þessa máls sem varðar framtíðarstarfsemi ÍSALs og þann ramma sem samningurinn frá 23. sept. s. l. leggur um það atriði, en það varðar fyrst og fremst endurskoðun aðalsamnings varðandi raforkuverð, frambúðarsamning um raforkuverð, um ákvörðun á framleiðslugjaldi ÍSALs, hvernig aðalsamningi yrði breytt til þess að gera þau ákvæði skýrari og í þriðja lagi um stækkun á álbræðslunni í Straumsvík í tveimur áföngum, þar sem fyrri áfangi kæmi í gagnið 1987–1988, eins og það var kynnt af hæstv. ráðh. á s. l. hausti. Í fjórða lagi er þarna um að ræða heimild handa Alusuisse til að selja og framselja hlutabréf í ÍSAL.

Ég vil inna eftir stöðu samninga varðandi þessi atriði og þá fyrst varðandi raforkuverðið. Eins og menn muna þá var sá rammi dreginn um athugun þessa að höfð yrði hliðsjón af orkukostnaði áliðnaðar í Evrópu og Ameríku sem og samkeppnisaðstöðu álframleiðslu á Íslandi. Það vakti þegar athygli, að hér var ekki neitt ákvæði að finna um framleiðslukostnað raforku á Íslandi. En hæstv. ráðh. og samninganefndarmenn gerðu ráð fyrir því að hér fengist mjög veruleg leiðrétting á raforkuverðinu, og sú eðlilega krafa hlýtur að vera í allra huga að þeirri niðurgreiðslu á raforku ljúki sem stunduð hefur verið með orkusölunni til Straumsvíkur á liðnum árum. Ég spyr því hæstv. ráðh.: Hver er staða þessara mála varðandi raforkuverðið? Hver er staðan í samningaviðræðunum — að ná a. m. k. framleiðslukostnaðarverði til núverandi bræðslu, þannig að niðurgreiðslu á raforkunni ljúki? Um þetta hefur lítið fram komið. Þó minni ég á ummæli hæstv. ráðh., sem hann viðhafði á 50. ársþingi Félags ísl. iðnrekanda 20. mars s. l., þar sem hann sagði eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alkunna að bráðabirgðasamkomulag náðist við Swiss Aluminium s. l. haust. Þar sömdu aðilar um að leggja gömlu deilumálin í skjótvirka gerð sem þó leiddi til niðurstöðu sem hefði dómsígildi. Samningar um framtíð fyrirtækisins standa yfir, þar sem stækkun þess og orkuverð eru aðalþættir. Ég geri ráð fyrir að samningar muni fljótlega takast um 50% stækkun fyrirtækisins, sem tæki til starfa 1988. Þetta segi ég vitaskuld með fyrirvara um orkuverð, en menn eru teknir að tæpa á þeim tölum sem stefna á álitlega niðurstöðu.“

Hvaða tölur eru það sem hér er um að ræða, hæstv. ráðh. ? Hver er þessi álitlega niðurstaða sem er að vænta innan skamms skv. ummælum hinn 20. mars s. 1.?

Það er mjög knýjandi að upplýsingar fáist um þessi efni og þess hlýtur að verða beðið með óþreyju að leiðrétting fáist á því óviðunandi orkuverði sem um er að ræða í orkusölunni til álversins í Straumsvík. Þetta á ekki síst við um þá aðila sem búa við hið háa orkuverð hérlendis, jafnt heimili sem atvinnurekstur. Við erum hér á Alþingi nú að fjalla um húshitunarkostnaðinn vegna frv. til l. sem hæstv. ráðh. hefur lagt hér fyrir, frv. sem ekki færir notendum nema úrbót nema á lengri tíma í sambandi við orkusparnað, enga úrbót frá því sem nú er. Það er því eðlilegt að menn horfi til þess sjálfsagða úrræðis að tryggja auknar tekjur af orkusölunni til Straumsvíkur.

Ég inni einnig hæstv. ráðh. eftir því hvað líður samningum varðandi endurskoðun á reglum um skattgreiðslur ÍSALs og hvað líður samningum um stækkun álversins í tveimur áföngum, sem dreginn er rammi um í þessu samkomulagi, atriði sem ég hef sterklega gagnrýnt og minni á, að í því felast fjárfestingaráform sem svara til 13 000 millj. ísl. kr. eða 450 millj. Bandaríkjadala, sem er drjúgt hlutfall af þeim bagga sem íslenska þjóðarbúið nú þegar ber í erlendum skuldum.

Þá minni ég að lokum á varðandi þetta bráðabirgðasamkomulag frá haustinu 1983, að þar er að finna sérstakt ákvæði um heimild til Alusuisse til að selja og framsetja hlutabréf í ÍSAL. Um það segir í gr. 4.2 undir heitinu „Málaleitan til Alþingis“:

„Ríkisstjórnin mun undirbúa lagafrv. í sambandi við ákvæði gr. 3.3 í samningi þessum, þar sem farið verður fram á samþykki Alþingis við breytingu á aðalsamningnum til að gefa þeim ákvæðum gildi. Frv. þetta verður lagt fram þegar Alþingi kemur saman til reglulegs þinghalds í októbermánuði 1983, þannig að unnt verði að leita samþykkis á Alþingi meðan viðræður standa yfir um hið endanlega samkomulag skv. gr. 2.3 hér að framan. Er samþykki er fengið munu ákvæði gr. 3.3 hér að framan (í formi breytingar á aðalsamningnum) standa sem varanlegur hluti af aðalsamningnum nema um annað verði samið.“

Ég innti eftir því við umræðu um skýrslu hæstv. ráðh. fyrr á þessu þingi hvað liði þessu samningsákvæði. Svo óglæsilegt sem það er, þá er það hér samningsbundið, og hæstv. ráðh. svaraði því þá til, ég hygg þann 8. des. eða 24. nóv. s. l., annan hvorn daginn var það, að þessa frv. væri að vænta einhvern næstu daga. En dagarnir hafa liðið og ekki hefur bólað á framhaldi eða aðgerðum á grundvelli þessa samningsákvæðis frekar en uppfyllingu annarra þátta þessa samkomulags, það vitað er.

Ég minni á það, að með þeim samningi sem þarna var gerður var af hálfu ríkisstj. talið að unnist hefði stórfelldur ávinningur. Hér var að finna tímasetningar varðandi samningsgerðina, tímasetningar sem sumir ræðumenn í umr. á Alþingi, þ. á m. talsmenn annarra flokka en Alþb., töldu að væru of rúmar, óeðlilega rúmar. En það er þannig orðað í samkomulaginu: „Aðilarnir munu stefna að því að leiða þessar samningaviðræður til lykta fyrir 1. apríl 1984, eins og ráðgert er í grein 2.3 í samningi þessum.“

Menn hljóta að undrast það hversu hljótt hefur verið um þetta mál af hálfu hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh., ekki síst í ljósi þess sem áður var sagt í máli þessu og þeirrar gagnrýni sem fram kom í tíð fyrrv. ríkisstj. á þessi mál svo og þá fyrirstöðu sem þá var talin vera í sambandi við þessar samningaumleitanir. Við hljótum að vera undrandi á því að komið er fram yfir tímamörk þessa samnings og það hefur ekki verið talin ástæða til að greina neitt frá stöðu mála hér á hæstv. Alþingi. Við skulum vænta þess að í svörum hæstv. ráðh. skýrist málið þegar hann veitir upplýsingar um einstaka þætti í stöðu samningamálanna. Það er óhæft að Alþingi fari heim, þessu þingi ljúki án þess að vitneskja liggi fyrir hvert stefnir í þessu stóra máli, máli sem varðar helminginn af sölu þeirrar orku sem framleidd er í landinu og varðar fjárfestingaráform af hálfu hæstv. ríkisstj. sem svarar til allt að 13 000 millj. ísl. kr.