10.05.1984
Efri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5647 í B-deild Alþingistíðinda. (4947)

83. mál, lögræðislög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég held að við getum verið sammála um að það sé ekki ævinlega til bóta sem Nd. gerir. En út í þann meting skal ég ekki fara frekar.

Ég efa það ekki heldur að hv. allshn. Ed. hafi verið sannfærð um að hún væri að gera rétt með þessum hætti. Ég vildi ekki fara út í það áðan í ræðu, en skal segja að gefnu tilefni að ég veit að það komu fleiri viðræðuaðilar á fund n. og gáfu þar umsagnir um þetta. Þeir aðilar töldu að sú skipan sem í upphaflegu gerðinni var væri heilladrýgri. Nefndin tók mark á því. Um það má vitanlega alltaf deila á hverjum á að taka mark í þessu tilfelli. Fulltrúar rn. hafa án efa og fulltrúar geðlækna alveg án efa einnig, vegna þess að þeir reikna með því að þeir séu með trúnaðarlækni inni í þessari mynd, verið býsna mikið á þeirri skoðun.

Ég er ekki að álasa nefndinni fyrir að taka mark á þeim umsagnaraðilum sem á fund n. hafa komið samanborið við það sem Geðhjálp lagði til og sem vissulega var ekki nógu sannfærandi og ekki nógu skýrt, enda tók ég fram þegar ég flutti mál samtakanna hér að ég bæði nefndina sérstaklega um að athuga hvernig mætti breyta tillögum þeirra á þann hátt að til verulegra bóta gæti orðið. En ég hygg að það sem olli breytingunni í Nd. hafi fyrst og fremst verið það að á fund þeirrar nefndar kom sú endurskoðunarnefnd um geðheilbrigðismál sem einmitt er að fjalla um öll þau mál nú og við nokkrir þm. hér áttum hlut að á sínum tíma að var komið á fót úr öllum flokkum. Sú endurskoðunarnefnd studdi mál Geðhjálpar í mjög verulegum atriðum og þá hafði Geðhjálp náð vopnum sínum, þeim sem hún hafði ekki náð á fundi með Ed. nefndinni að ég tel, að því leyti til að hún hafði þá fengið ágætan lögfræðing og mætan til að forma fyrir sig betur þá hugsun sem lá að baki tillögunum. Það var hins vegar hvorki orðalag Geðhjálpar og enn síður mitt orðalag, sem hv. þm. vitnaði sérstaklega til og ég gerði reyndar aths. við og hefði getað gert strax í máli mínu áðan, að þarna væri einn fulltrúi hins almenna borgara. Það er mjög óljóst. Ég set verulega út á það atriði að það skuli svo óljóst sem raun ber vitni. Þó hygg ég nú að mönnum verði ekki skotaskuld úr því. — Hæstv. fjmrh. skaut því nú að mér að það hlyti hreinlega að vera vinur litla mannsins sem væri þarna sjálfsagður. Ég tók ekki beint undir það mál hans þó að ég geri ekkert lítið úr því að sá vinur mundi reynast vinur í raun í þessu máli.

Ég held því að trúnaðarnefndin, sem kemur auðvitað til greina fyrst og fremst varðandi varanlega vistun eða þannig að menn geti þar skotið sínu máli til úrskurðar þegar um slík vandamál er að ræða því að það hef ég talið að væri aðalatriðið í þessu, sé miklu meira sannfærandi en trúnaðarlæknir, og af því að ég veit það að fleiri komu til ráðslags við Nd.-nefndina en við Ed. nefndina bið ég menn að samræma mál sitt þarna á milli nefnda. Ég sé að það er kannske ekki svo langt á milli núna. Ég fagna því að sjá formann allshn. Nd. einmitt kominn hér í sal og gefandi hv. 5. landsk. þm. heilræði í þessum efnum, enda sannarlega ástæða fyrir þessar nefndir að bera sig saman. En svo er það nú einmitt með fleiri svona mál, að misvísanir í ýmsum greinum verða til af því að nefndirnar eiga ekki fundi saman, ekki alltaf því að það er óraunhæft, en a. m. k. þó í einni umfjöllun hvers máls, sem skiptir verulega miklu máli.

Ég kem nú að því seinna í umr. hvað þetta getur verið meingallað í framkvæmd í stórmálum. Það hefur sýnt sig í þessu máli að á því eru stórir gallar þegar nefndir vinna ekkert saman, hafa ekkert samráð, ekki á neinu stigi málsins. Ég held mig við það að trúnaðarnefndin sé betri. Ég byggi það fyrst og fremst á því sem endurskoðunarnefndin um geðheilbrigðismál hefur til þessara mála að leggja, sem leggur eindregið til eftir skoðun sína á lögræðissviptingunni sérstaklega að svo verði með farið.