10.05.1984
Efri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5648 í B-deild Alþingistíðinda. (4948)

83. mál, lögræðislög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. Nd. skuli hafa vandað svo litt til breytinga á þessu frv. sem raun ber vitni. Auðvitað er það óhæft orðalag þegar talað er um í 17. gr. að trúnaðarnefnd skuli skipa einn fulltrúa hins almenna borgara, án þess að gerð sé grein fyrir því hvernig á að velja þennan almenna borgara. Ég er hins vegar sammála þeirri hugsun, sem fram kemur í þessari breytingu, að það séu fleiri en einn aðili sem felli þennan úrskurð. Ástæðan fyrir því að ég er sammála því að til sé svokölluð trúnaðarnefnd er sú, að hér er um mjög viðkvæm mál að ræða, erfið mál að ræða, mál sem snerta einstaklinginn afskaplega mikið og það má ekki vera á færi eins manns að hafa úrskurð í þessu máli. Það eru fleiri sjónarmið sem þurfa til að koma í svona viðkvæmum málum og hver einstaklingur á rétt á því að öll sjónarmið séu tínd til þegar svipta á hann mikilsverðum réttindum.

Ég tek líka mikið mark á fulltrúum Geðhjálpar sem þekkja gerst hvernig þessum málum er komið, betur en einhverjir skrifarar í ráðuneytum. Þess vegna á að taka mark á tillögum Geðhjálpar. Þess vegna á að breyta þessu í þá veru að lagatextinn sé heldur og það liggi fyrir að það verði fleiri en einn maður sem úrskurða um þessi viðkvæmu mál. Við höfum nefnilega reynslu af því annars staðar í heilbrigðiskerfinu að einum manni eða fáum er falið það að úrskurða um viðkvæm mál er snerta aðra fötlun og tel ég að fenginni reynslu af því að slíkt sé óhæf skipan.

Ég legg á það þunga áherslu að þegar allshn. fjallar um þetta frv. á ný verði texti þess lagaður, en ákvæðinu um trúnaðarnefnd í stað eins manns verði haldið inni.