10.05.1984
Efri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5649 í B-deild Alþingistíðinda. (4949)

83. mál, lögræðislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er tvennt í orðum hv. 6. landsk. þm. sem kom mér til þess að segja hér örfá orð.

Í fyrsta lagi ræddi hann um að það væri betra að það væru aðrir en einhver skrifari í rn. sem fjölluðu um þessi mál. Ég tel ástæðulaust að hafa þannig orðalag um það fólk sem skipað er til þess að gera þetta. Ég get fullyrt að það eru ekki aðrir sem hafa meiri reynslu af að standa í slíkum málum en þeir sem svo oft verða að taka ákvörðun í þessum málum.

En svo er það hitt, að hann taldi að með frv. eins og það var lagt fram væri það einn maður sem tæki þarna ákvörðun. Það vil ég leiðrétta. Því fer víðs fjarri. Það verður vitanlega að leggja fram læknisvottorð með þeirri beiðni sem gerð er um sjálfræðissviptinguna þannig að þar er kominn einn aðili. Síðan er það sá starfsmaður rn. sem um þetta fjallar og er lögfræðingur. Þar er kominn annar aðili og lögfræðingur eins og gert er ráð fyrir að sé einn sem skipar umrædda nefnd. Og síðan má reikna með að hann gæti leitað til trúnaðarlæknis rn. og borið undir hann beiðni sérhverju sinni. Þar er kominn þriðji aðilinn. Þarna eru sem sagt þrír aðilar, sem gert er ráð fyrir að skipi nefndina, og þar af eru tveir læknar, annar sérfræðingur. Eftir breytinguna í Nd. er gert ráð fyrir að niður falli trúnaðarlæknirinn sem rn. getur leitað til. Hér var bent á það áðar. í umr. að það er mjög erfitt að kalla saman þriggja manna nefnd alveg á stundinni, eins og oft þyrfti að gera þegar þessar beiðnir berast. Þess vegna yrði þetta fyrst og fremst þannig að nefndin mundi vinna eftir á, þ. e. að kanna hvort þarna hafi verið gert rétt, og þarf hún þá að halda fundi a. m. k. vikulega. En niður er felldur trúnaðarlæknirinn sem hægt á að vera að leita til áður en úrskurður er felldur. Ég tel að það sé miklu betra að hafa það kerfi þar sem raunhæft er að ætla að hægt sé að ná til aðila til að leita ráða hjá áður en úrskurðurinn er felldur heldur en fara að skipa rannsóknarrétt sem athugar málin eftir á.