10.05.1984
Efri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5649 í B-deild Alþingistíðinda. (4950)

83. mál, lögræðislög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Svo að ekkert fari á milli mála þá á þessi trúnaðarnefnd skv. þessu frv. að „fjalla um alla úrskurði ... sem fallið hafa á ákveðnum grundvelli . . . laga þessara. Skal sú umfjöllun fara fyrst fram sex mánuðum eftir uppkvaðningu úrskurðar og síðan á eins árs fresti eftir það.“ Og í öðru lagi segir: „Dómsmrn. leitar umsagnar hjá trúnaðarnefndinni ef þörf krefur áður en það veitir heimild til vistunar.“ Það er annað atriðið. Hins vegar er þriðja atriðið, að trúnaðarnefndin „skal veita þeim, sem vistaðir eru á sjúkrahúsi gegn vilja sínum, nauðsynlegar upplýsingar um réttarstöðu sína og hvernig leita má úrskurðar dómstóla um ákvörðun rn. til vistunar hans.“ Mér er með öllu óskiljanlegt hvers vegna menn eru að tala um einhvern tímaskort í sambandi við þetta því að trúnaðarnefndin starfar alls ekki á þann hátt.