08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

396. mál, lækkun tolla af tækjabúnaði til sjúkrahúsa

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi spyr, eins og kom fram, hvort fjmrh. muni beita sér fyrir því að lækka eða afnema tolla, vörugjald og sölugjald af: a) tækjabúnaði til sjúkrahúsa og dvalarheimila, þar með talið sjúkrarúma, b) nauðsynlegum rekstrarvörum til lækningar- og hjúkrunarstarfa.

Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt og fram kom í framsöguræðu minni þegar frv. til fjárl. var tekið til 1. umr. er nú unnið að heildarendurskoðun tollskrárlaga, svo og annarra laga er varða tekjuöflun ríkissjóðs af innfluttum vörum. Ég hef lagt áherslu á að heildarendurskoðuninni verði hraðað og hún miði að því að koma skattlagningu á hinum ýmsu vörum í það horf að gjaldbyrðin verði sem jöfnust og einstakir vöruflokkar séu ekki óhóflega skattlagðir, eins og nú má víða finna dæmi um í tollskránni. Hins vegar er ekki svigrúm umfram það sem ríkisstj. hefur þegar ákveðið að taka einstöku vöruflokka út úr og lækka gjöld af þeim. Gildir það jafnt um þær vörur sem fsp. tekur til sem aðrar vörur sem aðflutningsgjöld eru lögð á. Verður skattlagning þessara vara því tekin til athugunar með heildarendurskoðun tollskrárlaganna.