10.05.1984
Neðri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5652 í B-deild Alþingistíðinda. (4969)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason hóf hér 3. umr. með því að beina fsp. til mín og formanns sjútvn., hv. 5. þm. Norðurl. v., um það hvernig stæði á mótsögnum okkar eða gagnstæðum yfirlýsingum. Ég lýsti því hins vegar yfir að samþykki þessa frv. hefði aukinn kostnað í för með sér, en hins vegar hefði komið hér fram, mig minnir frá Stefáni Guðmundssyni hv. þm., í umsögn hagsýslu að það mundi sparast eitt stöðugildi. Nú er ekki mitt að svara. Eitthvað má það nú vera meira þokukennt hvað mundi sparast en það lá a. m. k. hreint fyrir að það væri eitt stöðugildi. Ekki er mitt að útskýra nákvæmlega í hverju þessi umsögn hagsýslunnar er fólgin en mér skildist að þarna væru lagðar niður tvær deildir. Önnur þeirra er hreinlætis- og búnaðardeild. Starf deildarstjóra hennar fellur þá niður. Það er örlítið dæmi um það sem ég minntist á í fyrri umr. og skal ekki fara ítarlega út í.

Hagsýslan, sem vinnur þetta fjármálalega eins og henni ber að gera, sér að þarna fellur niður stöðugildi deildarstjóra og ekki við hana að amast. En eins og ég tók fram í fyrri umr. er það meginreglan við alla matvælaframleiðslu í heiminum að lögð er áhersla nr. eitt, tvö og þrjú á aukið hreinlæti, bætta hollustuhætti við framleiðsluna.

Ég skýrði frá því við 3. umr. að þessi deild væri kannski deild númer eitt við þessa stofnun, hvað svo sem hún væri skírð og hvaða nafn hæstv. sjútvrh. vildi gefa henni. Að maður sem hefir yfirumsjón með hreinlæti og hollustuháttum við þessa þýðingarmestu matvælaframleiðslu Íslendinga væri afgerandi yfirmaður á þessu sviði, það væri um hreina afturför að ræða.

Sparnaðurinn er fólginn í því að leggja niður þessa deild með sérmenntuðum deildarstjóra og sérmenntuðu starfsliði sem hefur haft gífurleg áhrif, jafnvel aukið allt hreinlæti og alla hollustuhætti í sambandi við fiskverkun á landinu. Þótt deilt sé og verði alltaf deilt um fiskmat fram og aftur held ég að enginn deili um það að í þessari deild og á þessu sviði hafi verið unnið gífurlega mikið og farsælt starf. Það er alveg eftir mönnum í sambandi við þetta frv. að þarna sé verið að leggja niður deild sem hefur með að gera þennan gífurlega og þýðingarmikla póst.

Ekki er verið að ásaka hagsýsluna þó að hún telji að þarna sparist. Það má vel vera að ríkissjóðslega sparist þarna eitthvað en framleiðslulega og gjaldeyrislega held ég að þetta verði dýr sparnaður og afturför vegna þess að á þennan þátt er alls staðar lögð gífurleg áhersla. Skal það eitt nægja, en það er svo til að merkja þetta frv. að leggja þessa deild niður.

Ég byggði hins vegar kostnaðarauka t. d. hér í frv. á 11. gr., þ. e. ferskfiskdeild. Það ákvæði hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ferskfiskdeild annast gæða- og stærðarmat á öllum ferskum, nýjum eða ísuðum fiski við löndun hans. Hún skal enn fremur fylgjast með geymslu og ástandi landaðs afla allt til þess að vinnsla hans hefst.“

Ég skýrði frá því í fyrri ræðu að einn veikasti hlekkurinn að mínu mati hjá Framleiðslueftirlitinu væru geymslurnar og geymsla á fiski áður en hann væri unninn. Nú annast þetta starf matsmenn sem eru í þjónustu frystihúsa, hafa réttindi sem fiskmatsmenn og eru löggiltir sem slíkir en taka laun hjá viðkomandi frystihúsi eða fiskvinnslu. Yfirmatsmenn fóru í yfirreið og litu eftir þessu hjá matsmönnum í þjónustu frystihúsa. Vitanlega var þetta misjafnt eins og gengur, stundum kom það fyrir og hefur komið fyrir í gegnum tíðina að mokað hafi verið út úr húsum, geymslum. Annars staðar hefur þetta aldrei komið fyrir. En þessir menn eru á launum hjá viðkomandi atvinnurekanda og einhver hluti þeirra, kannske minni hl., liggur undir ákveðnum þrýstingi hjá þeim sem greiðir honum laun. Það þarf satt að segja ansi mikið sjálfstæði til.

Tökum sem dæmi Suðurnes þar sem eru ein 11 frystihús. Þar eru tveir menn í ferskfiskmati. Þeir geta ekki annast eftirlit með 11 húsum öðruvísi en líta þangað af og til. Þessi maður verður að vera á staðnum til þess að fylgjast með aflanum, bæði eftir hvaða röð þetta er tekið og úrskurða um fisk, hann á ekkert að lita þarna inn. Þetta er fært frá verkstjórum eða fiskmatsmönnum sem vinna í frystihúsunum yfir á ferskfiskdeild og þar með yfir á ríkismatið.

Ég skal viðurkenna að ég held að á þessu hafi verið töluverð þörf. Ég held að það sé með öllu vonlaust að yfirfæra þetta í jafnríkum mæli og þarna er gert ráð fyrir yfir á þessa deild. Ég sagði að þetta mundi kosta 30 til 60 nýja starfsmenn. Ég benti á að það væri athugandi að bæta við eins og 2, 3 mönnum í þetta. Eftirlit þarna þarf að herða. Það eru einstaka staðir sem þurfa að liggja undir verulegu eftirliti og það eru dæmi þess að 50 til 100 tonnum í einu hafi verið mokað út úr geymslum af yfirmatsmönnum eða eftir kröfum þeirra. Þá væri komið þarna ákveðið millistig vegna þess að Framleiðslueftirlitið hefur alltaf átt undir högg að sækja með fé.

Það er afturför að leggja hreinlætis- og búnaðardeild niður. Þarna er um að ræða eftirlit með hráefnageymslu sem verður að þýða dvöl. Það er eftirlit með þessu núna. Að mínu mati má herða það mjög. En ef þeir eiga að annast þetta mundi verða að fjölga ferskfiskmatsmönnum því þeir geta ekki, meðan þeir eru að meta fisk úr húsi og úr skipi, haft þetta eftirlit á geymslustað eða með vinnslu. Svo ef á að fylgja lögunum hlýtur þetta að þýða stóraukinn mannafla.

Ég held að ég hafi svarað með þessu og það hafi verið þetta sem hv. þm. Karvel Pálmason var að gera athugasemdir við. Ef eitthvað annað liggur í þessari grein en orðanna hljóðan gefur til kynna þá væri ansi fróðlegt að fá skýringar á því. Svo er ekki.

Síðan kemur þessi dæmalausa 16. gr. sem er nú satt að segja svo furðuleg að mann rekur í rogastans.

Í brtt. sjútvn. á þskj. 735 segir á bls. 2, 9. liður sem er brtt. við 16. gr.:

„Rn. setur nánari reglur um skilyrði fyrir sviptingu og veitingu vinnsluleyfis.“

Í 14. gr. segir hins vegar:

„Afurðadeild gefur út útflutningsvottorð, sé þess krafist í reglugerð. Deildin skal gæta þess að ekki verði fluttar út sjávarafurðir, sem ekki standast þær kröfur, sem lög þessi og reglugerðir settar skv. þeim setja.

Afurðadeild annast útgáfu vinnsluleyfa til vinnslustöðva en þau staðfesta að viðkomandi vinnslustöð fullnægi settum reglum um hreinlæti og búnað. Óheimilt er að verka eða vinna sjávarafurðir til útflutnings án slíks vinnsluleyfis.“

Af hverju tvö leyfi? Af hverju annars vegar leyfi frá þessari matsstofnun, hvað sem hún heitir, og svo hins vegar leyfi frá ráðh.? Ég held að þetta sé nákvæmlega eins og ég tók fram, það er gengið aftur undir dulnefni að framleiðsla á sjávarafurðum til útflutnings sé óheimil án sérstaks leyfis sjútvrn. Þarna fær rn. eða hefði fengið með þessum ákvæðum mesta vald sem nokkur sjútvrh. hefur haft fyrr eða síðar. Að vísu er skipt um nafn og sagt að í stað framleiðsluleyfis komi vinnsluleyfi. Hvaða vinnsluleyfi? Áður er búið að tala um vinnsluleyfi í 14. gr. Það er afgerandi og skýrt, að vísu ekkert meira afgerandi en er í lögunum, síður en svo. En það er sótt í að ráðh. geti sett nánari reglur.

Hæstv. ráðh. talaði um hér í fyrri umr. að þetta gæti verið í sambandi við gáma, þetta gæti verið í sambandi við rækjufrystingu ef þar væri einhver hætta á ferðinni. Hann hefur skv. 2. gr. núgildandi laga heimild til reglugerða um miklu stífari ákvæði, nýjungar eða nýja framleiðsluhætti sem upp koma. Af hverju vill ráðh. fá heimild til þess að setja reglugerð án nokkurrar skilgreiningar? Hann krefst þess að geta gefið út reglugerð um vinnsluleyfi án nokkurrar skilgreiningar. Annaðhvort treystir hann ekki þeirri stofnun eða hann vill ráðskast sjálfur með þetta leyfi.

Eins og ég var að taka fram á ég ekki til orð yfir það að flokkur einstaklingsframtaksins með frjálsan atvinnurekstur á stefnuskrá skuli negla það í lög að allir þeir sem ætli að verka fisk á Íslandi eða starfrækja einhverja fiskverkun þurfi leyfi ráðh. varðandi annað en þær kröfur sem almennt hreinlæti og búnaður gefa tilefni til. Þarna eru hrossakaup á ferðinni og gaman væri að vita hver hefði verið skiptimyntin í þessu.

Þessi liður er óskiljanlegur, óþarfur, því að heimild er í reglugerð að gefa út reglugerð um gáma eða frystingu rækju eða annað þess háttar sem ráðh. tipplaði hér á í fyrri ræðu sinni. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson, fyrrv. sjútvrh., óskaði eftir nafnakalli um þessa grein. Fyrrv. sjútvrh. og sá sem gaf út gildandi lög, hinn mætasti maður, tók það fram að í trausti þess að ráðh. beitti ekki þessari grein mundi hann samþykkja hana.

Það er fjörugt viðskiptalífið í ríkisstj., ég segi það bara. Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningnum í sambandi við þetta. Það er vægast sagt vítavert þegar um jafn stór mál er að ræða og hér, lög um mat og eftirlit á þýðingarmesta útflutningi okkar, og þegar ýmis helstu stefnumálin, sem eiga að framkalla þessi lög, eru farin í burt, þá á ekki að vinna þannig að lagasmíð að hróflað sé upp til samkomulags á stuttum nefndarfundum. Full ástæða var til að fresta lögunum og vinna þau betur, enda illa unnin frá upphafi. Þegar ýmis stefnumarkandi ákvæði eru farin í burtu þyrfti að vinna þetta betur. Þó að hinir mætustu menn hafi verið í n. eru þetta ekki rétt vinnubrögð. Þarna þarf bæði menn með mjög yfirgripsmikla þekkingu á fiskmati og meðferð sjávarafla og mjög hæfa og góða lögfræðinga sem þurfa síðan að semja viðkomandi greinar.

Ég býst við að fjöldi nm. hafi viljað þau vinnubrögð úr því að svona var komið að fresta þessu og vinna þetta betur. Það á ekki að taka af þar sem fyrir eru góð lög, skýr og afdráttarlaus og vel samin. Það á ekki að flaustra hér í gegnum þn. lögum sem þn. breyta í verulegum atriðum. Ég held að enga nauðsyn hafi borið til þess að vinna þetta ekki betur.

Um 21. gr. segir í brtt. n.: „Hverjum þeim, sem annast sölu og útflutning sjávarafurða sem lög þessi ná til, ber, sé þess óskað, að láta fiskmatsráði“ — Fiskmatsráði? Af hverju ekki fiskmatsstjóra? Þetta eru bara leifar af gamla frv. — „í té upplýsingar um kvartanir sem berast frá erlendum kaupendum vegna gallaðrar vöru eða vegna þess að umbúnaði hennar er áfatt. Þá ber þeim og, sé þess óskað, að veita Ríkismati sjávarafurða upplýsingar um greiddar skaðabótakröfur.“

Hvað er nú bætt? Athugum 15. gr. núgildandi laga: „Hverjum þeim sem veiðir, verkar eða verslar með fisk eða sjávarafurðir, sem lög þessi ná til, er skylt“ — ekki „sé þess óskað“ — „að gefa starfsmönnum Framleiðslueftirlits sjávarafurða allar þær upplýsingar og veita þeim þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og mats. Gildir þetta jafnt um upplýsingar um verkun, geymslu og flutning fisks og sjávarafurða sem um upplýsingar um greiðslu skaðabóta eða kvartanir vegna þess að vara var gölluð eða umbúnaði hennar áfátt. Starfsmönnum Framleiðslueftirlits sjávarafurða er heimill aðgangur að hverjum þeim stað þar sem fiskur eða sjávarafurðir, sem lög þessi taka til, eru unnar eða geymdar. Þeim er einnig heimilt að taka án endurgjalds hæfilegt magn sýnishorna fisks og sjávarafurða til rannsókna enda verði eigendum fisks eða afurðanna skilað skriflegri skýrslu um niðurstöðu rannsóknar.“

Fer nú nokkuð milli mála? Getur nokkur haldið því fram að þetta sé til að efla mat? „Sé þess óskað“ er sett í lögin, sé vara gölluð eða skaðabætur. Og síðan „afdráttarlaus skýr fyrirmæli“ en í lögunum er skylt — afdráttarlaus, bindandi, hrein, bein ákvæði. Það er heilt haf á milli lagasetningar Matthíasar Bjarnasonar og hæstv. sjútvrh. Að vísu skal ég sýkna hæstv. sjútvrh. af lagasmíð þessari því að ég held að hún hafi verið tilbúin í rn. áður en hann tók við.

Svona mætti lengi tína til dæmi um það að beinlínis sé slakað á. Ein helsta skrautfjöðrin er 18. gr. frv. og þar segir:

„Framleiðendur skulu hafa í sinni þjónustu til matsstarfa löggilta matsmenn sem samþykktir eru af afurðadeild eða fá til þess matsmenn sem Ríkismatið samþykkir. "`

Þetta er nokkuð einkennileg setning. Ef þetta eru matsmenn, af hverju ekki að segja þá: „. . . skulu hafa í sinni þjónustu til matsstarfa löggilta matsmenn“ eða „fá til þess löggilta matsmenn“? Þarna er undanþáguheimild. Af hverju er þetta óljósa orðalag um matsmenn? Hvaða matsmenn? Það eru til aðrir matsmenn en löggiltir matsmenn. Hvað er verið að opna þarna? Af hverju þessi óljósu ákvæði?

Og síðan segir í grg. með frv.: „Skv. gildandi reglugerð er skylt að hafa fiskmatsmenn í hverju hraðfrystihúsi. Hér er gert ráð fyrir að ákvæði þetta verði lögbundið, matsmenn verði löggiltir og jafnframt að öllum framleiðendum sjávarafurða til útflutnings verði skylt að hafa löggilta matsmenn í þjónustu sinni, enda órökrétt að mismuna vinnslugreinum á þennan hátt.

Með þessu ákvæði“ — og skilji nú hver sem betur getur — „er stigið stórt skref til aukningar verkaskiptingar milli fiskverkenda og Ríkismatsins og ábyrgð framleiðenda aukin.“

Í hverju? Hvar kemur þetta fram í 18. gr.? Hvergi. Það er undanþáguákvæði, að því er helst er að skilja, að þessir matsmenn þurfi ekki að vera löggiltir. Þó eru í öðrum greinum frv. ákvæði um að löggiltir matsmenn skuli annast allt yfirmat o. s. frv. Hvað er verið að fara þarna? Er nægilegt að setja fram fróma ósk í grg. og telja það hafa lagagildi? Það má vel vera að það sé skoðun einhverra en ég held að ef ekki er hægt að finna ákvæði í lögum hafi grg. ákaflega lítið að segja. En grg. sem væri útfærsla á lögum, hún er afgerandi.

Þarna virðist mér í öllum málflutningi gæta nokkurs misskilnings og veit ég þó ekki hvort þessar perlur eru misskiljanlegar, ég held að það sé eitthvað allt annað á ferðinni. Mat er alls staðar. Við ferskfiskmat verða menn að vera á staðnum þegar fiskur kemur upp úr skipi. Það er ekki hægt að meta hann eftir það nema í fiskgeymslunum eins og ég vitnaði til áðan. Í frystingu verður að meta fisk eftir því hvort hann er hæfur til frystingar. Þegar búið er að frysta fisk er ekki hægt að fara að meta hann. Það er ekki hægt að breyta honum þá í annan gæðaflokk, það er ekki hægt að þíða hann upp og frysta hann aftur, skera úr honum skemmdir.

Matið við saltfisk og skreið fer fram á öðru stigi. Það fer fram á því stigi þegar pökkun á sér stað. Hins vegar gildir það sama að mestu með síldina og frystan fisk að við verkun síldarinnar og niðurlagningu fer fram matið á síldinni. Síðan er saltfiskurinn metinn við pökkun, ekki endilega hráefnið þegar það kemur á staðinn, nema ferskfiskmenn úrskurði það í gúanó. Mat á saltfiski fer ekki fram fyrr en við pökkun. Mat á skreið fer ekki fram. Mat á freðfiski fer fram áður en hann fer í frystinguna. Við pökkun á síld fer matið fram. Þarna stendur því bókstaflega ekki steinn yfir steini.

Það vill svo spaugilega til að þegar ég var að ljúka máli mínu hér í fyrra skiptið kom hér inn í þessa hv. deild varaformaður Sjálfstfl., Friðrik Sophusson. Og nú er mættur hér hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn pálsson. Allir þeir sem ætla sér að vinna við að koma upp fiskverkun á sjávarafla eða verkun á sjávarafla þurfa að sjálfsögðu að uppfylla þessar kröfur hreinlætismatsins um hreinlæti og búnað. En Sjálfstfl. ætlar líka að samþykkja það að það þurfi að leita til pólitísks ráðh. til þess að fá þetta leyfi. Þetta á að vera í þágu hins frjálsa atvinnurekstrar á Íslandi. Þarna er verið að opna allar gáttir fyrir pólitískri misnotkun ráðh. Þó að uppfylltar séu gæðakröfur sem viðkomandi stofnanir gera þá getur ráðh. einhliða sett geðþóttareglugerð og sækja verður um leyfi til hans.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu en færa formanni Sjálfstfl., 1. þm. Suðurl., innilegar hamingjuóskir með hið frjálsa framtak, að nú má engan fisk verka á Íslandi öðruvísi en að sækja um leyfi og fá skriflegt svar frá ráðh. að það sé heimilt. (KP: Engar veiðar.) Það var komið áður.