10.05.1984
Neðri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5657 í B-deild Alþingistíðinda. (4971)

253. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971 með síðari breytingum, en frv. flyt ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Þetta frv. á sér nokkra forsögu en á síðasta þingi var flutt stjfrv. um skylt efni. 1. gr. frv. hljóðar svo:

„Á eftir 3. mgr. 12. gr. komi nýjar mgr. sem orðist svo:

Úrskurður tryggingayfirlæknis tekur gildi strax og hann liggur fyrir og frá þeim tíma er örorkan skapaðist. Nú er viðkomandi öryrki óánægður með úrskurð tryggingayfirlæknis og getur þá óskað eftir skriflegri grg. læknisins um forsendur matsins. Þeirri grg. ásamt aths. skal öryrkinn síðan vísa skriflega til úrskurðar örorkumatsnefndar.

Í örorkumatsnefnd eiga sæti þrír menn, en auk þeirra skulu tilnefndir þrír varamenn. Þessir skipa fulltrúa í örorkumatsnefnd:

1) Samtök öryrkja tilnefna einn mann.

2) Hæstiréttur tilnefnir einn mann. Hann skal vera læknir og vera formaður matsnefndarinnar.

3) Heilbr.- og trmrh. tilnefnir einn mann.

Allir þessir aðilar tilnefna og varamenn auk aðalmanna.

Nefndin skal í störfum sínum taka tillit til sömu þátta og tryggingayfirlæknir við úrskurð örorkumats. Þá skal nefndin einnig taka tillit til félagslegra sjónarmiða við úrskurði sína. Ráðh. setur nánari ákvæði um starfssvið nefndarinnar í reglugerð.“

Ástæðan til þess að þetta frv. er flutt er sú að meðal fatlaðra og öryrkja í þessu landi er mjög víðtæk óánægja með það fyrirkomulag sem verið hefur á örorkumati. Skv. lögum um almannatryggingar er það hins vegar svo að það er tryggingayfirlæknir einn sem framkvæmir örorkumatið og hans úrskurður er óáfrýjanlegur. Tilgangurinn með því að skipa matsnefnd eins og gert er ráð fyrir í þessari grein er sá að skapa öryrkjum og fötluðum, sem verða að sæta úrskurði tryggingayfirlæknis, möguleika á því að áfrýja úrskurði hans til annars aðila. Hér er um að ræða geysilega stórt mál sem snertir mjög náið þær þúsundir Íslendinga sem af einhverjum ástæðum hafa orðið og verða að leita til Tryggingastofnunar ríkisins vegna fötlunar af margvíslegum toga.

Ég minni á að á síðasta löggjafarþingi, var flutt stjfrv. sem gerði ráð fyrir að breyting yrði gerð á ákvæðum almannatryggingalaga um örorkumat. Í þessu stjfrv., sem var flutt af þáv. ríkisstj., var miðað við að örorkumat væri alltaf framkvæmt af örorkumatsnefnd þriggja starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins. Við umr. um málið á síðasta hv. Alþingi kom fram að þm. töldu óeðlilegt að láta nefnd annast þetta verk í öllum tilvikum, eðlilegra væri að setja á laggirnar áfrýjunarnefnd, en úrskurður væri áfram í höndum tryggingayfirlæknis. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 466, tekur tillit til þessara sjónarmiða sem komu fram við umr. á síðasta Alþingi.

Í núgildandi lögum er tryggingayfirlæknir einvaldur um úrskurði örorkumats. Mér er til efs að nokkur embættismaður á Íslandi hafi jafnmikið vald yfir örlögum einstaklinga og tryggingayfirlæknir hefur skv. lögum. Það verður að teljast óeðlilegt fyrirkomulag, annars vegar frá sjónarmiði viðskiptamanna trygginganna, þ. e. þeirra fötluðu og öryrkjanna, og hins vegar frá því sjónarmiði að enginn einn maður getur sem skyldi borið ábyrgð á svo þýðingarmiklum þætti í tryggingakerfinu. Því er hér lagt til að skipuð verði úrskurðarnefnd þriggja manna sem hinir fötluðu geta vísað sínum málum til ef þeir eru ósáttir við niðurstöðu tryggingayfirlæknis.

Þegar málið var til meðferðar á síðasta löggjafarþingi fylgdi stjfrv. stutt grg. Ég les hana hér vegna þess að auðvitað var grg. hluti af því máli sem ríkisstj. í heild lagði þá fram og þar með þeir aðilar sem í ríkisstj. áttu sæti:

„Vaxandi óánægju hefur gætt á undanförnum árum“, segir hér, „með fyrirkomulag og ákvörðun örorkumats hjá Tryggingastofnun ríkisins. Bent hefur verið á ýmsar leiðir til úrbóta, m. a. þá sem hér er lagt til að reynd verði.

Endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar kannaði fyrir nokkrum árum afstöðu yfirmanna stofnunarinnar,“— þ. e. Tryggingastofnunarríkisins — „þar á meðal flestra deildarstjóra og tryggingayfirlæknis, til þessa atriðis. Meðal þeirra, sem tjáðu sig um þetta, var tryggingayfirlæknir. Taldi hann, eins og allir sem tjáðu sig um fyrirkomufag örorkumats, að eðlilegt væri að taka tillit til fleiri atriða en læknisfræðilegra þegar örorkustig væri ákveðið. Menn virtust almennt séð sammála um að við slíkt mat yrði að taka mið af a. m. k. þremur ákvarðandi atriðum, þ. e. 1) líkamlegri eða andlegri heilbrigði, 2) tekjuöflunarfærni við óbreytt ástand skv. 1) og loks af 3) félagslegum aðstæðum einstaklinga, þar á meðal fjárhagslegri þörf miðað við fjölskyldubyrði, heimilisástæður o. fl. o. fl.“

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í rauninni aðeins ein efnisgrein og hún er mjög ítarleg og skýrir sig að fullu sjálf. Ég tel að það sé mjög brýnt að hv. Alþingi fjalli um þetta mál. Ég tel í rauninni að það sé með öllu óþolandi að fyrirkomulag þessara mála sé eins og það hefur verið um árabil. Mér er engin launung á því að það hefur verið erfitt að ná samkomulagi á milli flokka og manna um þessi mál. Og ég er reiðubúinn til þess að taka þátt í því að breyta þessu frv. ef menn teldu ástæðu til og auðveldara að nálgast málið með þeim hætti.

Nú veit ég, herra forseti, að skammt lifir þings ef að líkum lætur og ef ekki verður af því að farið verði að till. formanns þingflokks Sjálfstfl. um að fresta þinginu vegna ósamkomulags stjórnarflokkanna, þannig að þeir geti sleikt sárin í nokkrar vikur og svo byrjað þingstörfin aftur þegar líður á sumarið og heyannir, fari svo að skammt lifi þings og stuttur tími sé hér eftir, þá er hætt við því að mál af þessu tagi nái ekki afgreiðslu. Ég vildi hins vegar fara þess á leit við hv. formann heilbr.- og trn. Nd. að hann sjái til þess að þetta mál verði sent til umsagnar. Ég hef það ekki hér hjá mér hver gegnir formennsku í n. Ég veit að hv. þm. Pétur Sigurðsson er formaður n., en hann er nú utan þings. Fyrir hann er inni á Alþingi hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem hefur sjálfur átt sæti í tryggingaráði. Mér þætti vænt um ef hann og aðrir nm. í heilbr.- og trn. beittu sér fyrir því að mál þetta verði sent til umsagnar, m. a. til samtaka fatlaðra, Tryggingastofnunar ríkisins og annarra aðila sem um mál þessi eiga að fjalla, þannig að við gætum þá á haustdögum tekið á nýjan leik á þessu máli og kannað hvaða leiðir eru þarna færar. Ég er alveg sannfærður um að það er vafalaust hægt að finna einhverja aðra leið í þessum efnum, en ég er jafnsannfærður um að núverandi fyrirkomulag með einveldi tryggingayfirlæknis er með öllu óþolandi.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.