10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5676 í B-deild Alþingistíðinda. (4985)

269. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Því miður var það þannig að þegar ég flutti framsögu fyrir þessu frv. á sínum tíma voru ekki viðstaddir í þingsalnum nema tveir hv. þm. þannig að það hefur greinilega farið fram hjá mönnum hvaða orð ég lét falla í sambandi við þessa breytingu sem hér er verið að gera á lögum um erfðafjárskatt. Ég lýsti greinilega í framsögu áliti fjárlaga- og hagsýslustofnunar á því hvað frv. hefði í för með sér. Þar kom fram að reikna mætti með að tekjur af erfðafjárskatti rýrnuðu um 10–11 millj. kr. miðað við þær líkur sem þá voru fram settar þó að það þyrfti ekki að vera svo há upphæð.

En ég tók því fram í sambandi við breytingu á þessum lögum að miðað við meðferð þessara mála á undanförnum árum þar sem Erfðafjársjóður hefur fengið sömu meðferð og aðrir opinberir sjóðir í meðferð þingsins — í afgreiðslu fjárlaga hafa þessir sjóðir verið skornir niður og eins og kom fram hér hjá hv. 2. landsk. þm. — var framlag til Erfðafjársjóðs af erfðafjárskatti á þessu yfirstandandi ári skorið niður í 19 millj. úr 40 millj. tekjum sem ætlað er að erfðafjárskattur skili.

En það sem ég tók fram sérstaklega við framsögu um þetta mál, erfðafjárskatt, var það að ég tel alveg ljóst að breyta þurfi lögum um málefni fatlaðra að því er varðar Framkvæmdasjóðinn þar sem stendur að tekjur hans séu tekjur af Erfðafjársjóði. Það þarf að breyta því þannig að það verði ótvírætt tekið fram að tekjur af erfðafjárskatti renni óskiptar í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er hin raunverulega leiðrétting sem þarf að gera. En að setja þetta fram eins og í þessari brtt. sem felld var áðan er algjört vindhögg vegna þess að það hefur ekkert gildi. Ég þarf raunar ekki að endurtaka það sem ég sagði við framsögu málsins. Ég lýsti því yfir hvað ég hefði í huga í sambandi við þetta mál til þess að tryggja auknar tekjur Framkvæmdasjóðs fattaðra. Það er engin ástæða til þess að ætla hv. þm. það að þrátt fyrir þessa lagabreytingu fari þeir sérstaklega að leggjast á framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er algjör útúrsnúningur.