10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5678 í B-deild Alþingistíðinda. (4989)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Svo lengi má brýna deigt járn að bíti. Ég hafði ekki hugsað mér að leggja orð í belg um þetta frv. til stjórnarskipunarlaga vegna þess að ég veit að það hefði litlu breytt. Þar er allt njörvað niður eftir samkomulagi fjögurra formanna fjögurra flokka. Þess vegna má segja að það skiptir engu máli hvað ég segi um þetta mál og allt mitt tal verður eins og að stökkva vatni á gæs.

Hins vegar verð ég að segja það að ég kemst ekki hjá því að mótmæla málflutningi og röksemdum tveggja þm. Vestfirðinga, sem hér hafa talað áður í þessu máli, þó að ég viti að þeim verður ekki haggað. Þeir eru eins og sjávardrangar sem úthafið dugar ekki til þess að hola. En ég vil vegna sjálfs mín, til þess að hella örlítið úr skálum reiði minnar, segja hér örfá orð.

Það er öllum ljóst að hér er verið að standa að breytingu á stjórnarskipunarlögum, eins og það heitir, og hér er eingöngu um tvær breytingar að ræða, annars vegar að færa kosningarréttinn niður í 18 ár og hins vegar að taka upp nýja úthlutun þingsæta eftir kjördæmum. Ekki er þarna myndarlega að staðið hjá hinu háa Alþingi. Það hafa setið stjórnarskrárnefndir svo lengi sem elstu menn muna og eftir allt þetta japl, jaml og fuður standa menn uppi nánast tómhentir og meira en það. Þegar loks kemur fram þetta frv. til stjórnarskipunarlaga, sem á að heita til aukins jafnréttis, er það fyrst og fremst staðfesting á misréttinu. Svo merkilegt er að.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hvað þjóðin er búin að bíða lengi eftir lagfæringu á ýmsum vanköntum í stjórnarskránni, eins og meðferð á brbl., sem hafa löngum verið hneisa á hinu háa Alþingi, deildaskiptingunni o. s. frv., sem ég ætla ekki að fara nánar út í, en ég ætla að tala örlítið um þá breytingu á úthlutun þingsæta eftir kjördæmum sem á að vera réttlætis- og jafnaðarmál.

Lausnin er sú að fjölga þm. þó að allir viti að þjóðin er á móti fjölgun þm. Það skiptir ekki svo ýkjamiklu máli í þessari samkundu. Það er samið um það sem þjóðin er á móti. Hitt er þó kannske merkilegra, að enn er staðið þannig að málum að tryggt er að 40% af þjóðinni eiga að ráða yfir 60% af þjóðinni á þessari samkundu. Það er m. ö. o. blandað málum. Enn blasir við þröngsýni manna sem jafna má við myrkur miðalda. Við þekkjum það í sögu mannkynsins að ákveðnar stéttir fóru með atkvæðisrétt, klerkavald og aðall. Það kostaði stjórnarbyltingu að færa kosningarréttinn til almúgans. Við þekkjum að hér á landi var það bundið við þingfararkaupsbændur hverjir fengu að kjósa hér á síðustu öld og það tók langan tíma að koma því áleiðis að allir fengju að kjósa. Við þekkjum hvernig þetta er víða í öðrum löndum. Mönnum er mismunað eftir kynjum. Konur eru sums staðar án þessara réttinda. Litarháttur bannar mönnum réttindi og trúarbrögð. En hér er það búseta sem á að gera aðra menn réttindameiri öðrum. M. ö. o.: þessir búsetumenn, sem boða þá túlkun, gera ráð fyrir að manngildi og mannréttindi fari eftir því hvort menn búa á Raufarhöfn, á Ísafirði eða í Reykjavík. Þar er þetta dæmalausa miðaldamyrkur.

Og hver skyldi nú vera röksemdin fyrir svona skoðunum? Þær sýna hvað mönnum er röksemda vant. Þeir segja sem svo: Af því að það er svo dýrt að kynda hús á Vestfjörðum er eðlilegt að Vestfirðingar hafi meira atkvæðavægi en þeir sem búa hér í þéttbýlinu. Af því að lífskjörin eru lakari á Vestfjörðum eða Austfjörðum er rétt að hafa af Reykvíkingum og Reyknesingum sjálfsögðustu mannréttindi. Af því að stjórnsýslustofnanir eru hér í Reykjavík á að bæta mönnum úti á landi með því að auka vægi atkvæða þeirra. Nú er það svo að engin stjórnsýslustofnun vill fara úr Reykjavík. Ég minni á að Skógrækt ríkisins átti einu sinni að flytja til Austfjarða, en úr því varð ekki þegar til kastanna kom og er hún enn hérna og hefur skrifstofur sínar á Ránargötu, ef ég man rétt. Sannleikurinn er sá að það mundi heyrast hljóð í Ísfirðingum ef við ætluðum að flytja samgrn. til Hafnar í Hornafirði og það mundi heyrast hljóð í Héraðsbúum fyrir austan ef við ætluðum að flytja landbrn. til Ísafjarðar. M. ö. o.: Reykvíkingar geta engu ráðið um það og það er ekkert samkomulag um það hjá dreifbýlismönnum hvað á að flytja og hvert á að flytja. Allt tal um flutninga á stjórnsýslustofnunum héðan er bara orðagjálfur af því að það er óframkvæmanlegt. En þar fyrir geta menn ályktað sem svo: Af því að þið hafið stjórnsýslustofnanir hér, Reykvíkingar góðir, er rétt að þrír Reykvíkingar eða fjórir séu jafngildir einum Vestfirðingi. Þetta eru röksemdirnar sem boðið er upp á. — Ég heyrði meira að segja að einangrunin í hinum dreifðu byggðum ætti að valda því að menn hefðu meira atkvæðavægi úti á landsbyggðinni.

Af því að Sverrir Hermannsson er að fara héðan úr þingsalnum með töskuna sína ætta ég að segja eitt orð við hann áður til að sýna honum fram á hvernig lýðræðið er í framkvæmd í kosningalögum og hefur verið. Hann skilaði sér inn á þing á Austfjörðum með þingmann á frakkalafinu á álíka mörgum atkvæðum og þriðji maður Alþfl. hlaut hér í Reykjavík og er sá utan þings. Þannig er framkvæmdin í þessum málum og þetta er réttlætið sem hér er haldið uppi og boðað í þingsölum.

Nú er það allt annað mál, að það undrast enginn að það fólk sem býr í dreifbýlinu vilji reyna að tryggja hag sinn og reyna að verða ekki undir hinu svokallaða Reykjavíkurvaldi, eins og margir tala um. En hvernig á að fara að því? Að sjálfsögðu með því að auka sjálfstjórn sveitarfélaganna, reyna að mynda fylki og færa fjármagn og sjálfstjórn út til byggðarlaganna. Það er hin réttá leið og sjálfsögð leið að gefa hinum dreifðu byggðum sem mesta möguleika til sjálfstjórnar. En skyldi nú ekki vera að margir dreifbýlismanna vilji hafa þetta allt í einum stað í Framkvæmdastofnuninni? Hvernig væri nú að dreifa þessari Framkvæmdastofnun út um byggðirnar og leyfa henni að starfa þar? Ónei, í Reykjavík skal hún vera.

Ég held að það sé alveg augljóst mál að röksemdir af þessu tagi duga ekki til þess að jafna atkvæðisrétt milli einstaklinga og kjördæma. Það mál verður ekki stutt með slíkum málflutningi. Mér er líka alveg ljóst að íslensk stjórnmál snúast allt of mikið um deilur á milli þéttbýlis og dreifbýlis, sem er til mikils ófagnaðar. Ég er sannfærður um að allir þm. eru sammála um og eru fúsir til að styðja framfarir þjóðarinnar hvar sem menn búa á landinu. Það hlýtur auðvitað að vera meginatriðið. Hinu, að haga sér þannig að rýra mannréttindi á alröngum röksemdum, get ég ekki látið ómótmælt. Og hitt er svo átakanlegt, hversu íslensku flokkarnir hafa sameinast um þetta mál til að tryggja áframhaldandi óréttlæti í þessum málum og ójöfnuð.

Eins og ég sagði í upphafi er hér um að ræða tryggingu ójafnaðar með röksemdum sem sóttar eru í miðaldamyrkur og þröngsýni og eru engum til sóma. Mér er líka ljóst að það sem ég segi í þessum stól skiptir engu máli nema til þess að hella úr skálum reiði minnar. (GJG: Og efla geðshræringu hjá Vestfirðingum.)