08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

72. mál, gjaldheimta á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin samstarfsvettvang sem nefndur er Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Samtökin hafa náð miklum árangri. Þau hafa beitt sér fyrir margvíslegum verkefnum og komið þeim í höfn. T. d. hafa sveitarfélögin sameinast um byggingu og rekstur sorpeyðingarstöðvar, heilsugæslu. sjúkrahúss, slökkvistöðvar o. fl. Þá er frumkvæði að stofnun Hitaveitu Suðurnesja í höndum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, en hitaveitan er nú sjálfstætt fyrirtæki.

Á þessu svæði er mikill áhugi fyrir enn meira samstarfi og hafa þeir sem lengst vilja ganga viljað sameina öll þessi sex byggðarlög í eitt sveitarfélag. Meðal hugmynda sem upp hafa komið um frekara samstarf er hugmynd um stofnun sameiginlegrar gjaldheimtu fyrir Suðurnes. Alllangt er síðan þessi hugmynd kom upp og um tíma var hún mikið rædd. Að sögn sveitarstjórnarmanna varð ekkert úr framkvæmdum, þar sem ekki var ljóst hvort bæjarfógetaembættið eða fjmrn. fyrir þess hönd yrði aðili að slíkri gjaldheimtu.

Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem haldinn var í Vogum á Vatnsleysuströnd í lok okt. s. l., kom fram í umr. að sveitarstjórnarmenn telja tímabært að stofna til sameiginlegrar gjaldheimtu. Stjórn sambandsins hefur þegar leitað eftir áliti sveitarstjórnanna og hafa þegar borist jákvæðar umsagnir. Í umsögn Keflavíkurbæjar kemur fram að ekki sé hagkvæmt að stofna til slíks samstarfs, ef hugsanleg gjaldheimta innheimti ekki gjöld fyrir ríkissjóð einnig og er það afar eðlilegt sjónarmið. Verði af sameiginlegri gjaldheimtu á Suðurnesjum mundi það hafa í för með sér hagræði og sparnað og einkum fyrir skattgreiðendur, sem nú þurfa að greiða sín gjöld á tveimur stöðum. sem kostar oft og tíðum vinnutap og ómælt óhagræði.

Af þessu tilefni hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. svofelldrar spurninga:

„1. Hver er afstaða fjmrn. til sameiginlegrar gjaldheimtu sveitarfélaganna á Suðurnesjum?

2. Er ráðuneytið reiðubúið að fela slíkri stofnun innheimtu á skatttekjum ríkisins á þessu svæði?"