11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5701 í B-deild Alþingistíðinda. (5016)

269. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í sambandi við þær spurningar sem hér komu fram vil ég aðeins geta þess í sambandi við erfðafjárskattinn að eins og hv. þm. minntist á réttilega var gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti fyrir árið 1983 yrðu rúmlega 16 millj. kr. til sjóðsins. En þær urðu í reynd 23 millj., þannig að það hefur alltaf verið fullur vilji fyrir því í fjmrn. á undanförnum árum að taka tillit til þessa atriðis að hækka framlagið í takt við innheimtu á hverjum tíma. En eins og mönnum býður sjálfsagt í grun eru tekjur af erfðafjárskatti ákaflega óvissar, ef það má orða það svo, þær geta verið mismunandi eftir árum og ekki fyllilega hægt að gera sér grein fyrir því í upphafi hvernig það kemur út hverju sinni. Hins vegar telja kunnugir menn sem nálægt þessu frv. hafa komið, m. a. skiptaráðendur í Reykjavík, Ragnar Hall, sem aðallega samdi frv. og Markús Sigurbjörnsson, að frv. í þessari mynd afnemi í fyrsta lagi vafaatriði sem hafa verið á meðferð þessara mála á undanförnum árum og festi það í form. Fyrir utan þær meginbreytingar sem ég lýsti hér fyrr eigi þetta að hafa í för með sér miklu fljótvirkara uppgjör á dánarbúum og þessari skattheimtu þannig að miklu eðlilegra og raunhæfara verði að gera áætlanir um þessi mál í framtíðinni.

Ég held að ég fari ekki nánar út í þetta. Ég endurtek að ég tel að vissulega þurfi að athuga um breytingar á lögum um málefni fatlaðra. Það urðu smámistök í sambandi við uppsetningu í frv. á tekjum Framkvæmdasjóðsins. Það er miklu eðlilegra að miða þetta við skattheimtuna sjálfa en að vera sífellt að vitna í sjóði sem eru raunverulega ekkert nema nafnið tómt. En það sem ég gleymdi áðan og vil leggja áherslu á er það, að það er ákaflega mikilvægt að þetta frv. verði að lögum nú á þessu þingi. Hv. þm. í Nd. tóku tillit til þess, vegna þess að það liggja upplýsingar frammi um það frá skiptaráðendum og ýmsum lögmönnum, sem annast um þessi mál, að það bíða allir eftir þessu frv. og halda að sér höndum í sambandi við uppgjör á dánarbúum og öðru slíku. Það gæti því haft áhrif á tekjuhlið þessara mála og þá um leið tekjur Framkvæmdasjóðs ef frv. yrði ekki að lögum á þessu þingi. (HS: Skil ég félmrh. rétt að 7 millj. hafi verið greiddar á árinu 1984 til Framkvæmdasjóðs fatlaðra umfram þessar 16 millj.?) Umfram þessar 16 millj., já.