11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5705 í B-deild Alþingistíðinda. (5021)

221. mál, jarðalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Eins og fram kom í máli frsm. hefur nefndin lagt mikla vinnu í frv. og athugað það rækilega. En eitt af því sem er tilgangur með þessu frv. er hagræðing í skipulagi á stofnunum ríkisins og viðleitni til að færa saman svipuð verkefni.

Í h-lið 10. gr. frv. er rætt um jarðaskrá. Ég vildi við þetta tækifæri lýsa því yfir að ég hef hug á því að nýta þá heimild sem þar er veitt: „Þá er ráðh. heimilt með reglugerð að fela öðrum aðila að annast gerð jarðaskrár í umboði rn.“

Þar sem jarðaskrá er þegar haldin hjá Búnaðarfélagi Íslands tel ég hagræðingu í því að reyna að nýta þessa heimild og leita eftir samstarfi við Búnaðarfélagið um það atriði eins og reyndar fleira sem minnst er á í þessu frv.