11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5705 í B-deild Alþingistíðinda. (5022)

221. mál, jarðalög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég skrifaði undir þetta nál. og brtt. þær sem þarna er um fjallað og stend þar fyllilega við. En menn verða að átta sig á því að hér er um talsvert mikla breytingu að ræða varðandi mörg þau verkefni sem Landnám ríkisins hefur annast með yfirfærslu þeirra yfir í landbrn. Út af fyrir sig er ég sammála því að þarna geti vissulega verið um hagræðingu að ræða og hef ekki við það að athuga að því leyti til. Ég er einnig sammála því að mörg verkefni Landnámsins hafa breyst á þann veg að vægi þeirra hefur vissulega minnkað. En við skulum gera okkur grein fyrir því að þau verkefni sem Landnámið annast m. a. varðandi fóðurversmiðjur og annað því um líkt, hafa verið undir ákveðinni stjórn, sem Alþingi hefur haft íhlutunarrétt um, landnámsstjórn sem Alþingi hefur kosið.

Eftir að þessar breytingar ganga allar í gegn, varðandi fóðurverksmiðjurnar einnig, færist þetta vald alfarið til ráðuneytisins. Það verður landbrn. sem verður algerlega með þetta. Og án þess að ég ætli að vantreysta þeim góðu mönnum sem þar vinna á nokkurn hátt get ég ekki stillt mig um að benda á það, að Alþingi hefur hingað til haft meiri íhlutunarrétt um þessi mál með því að þingkjörin stjórn hefur verið yfir Landnáminu. M. a. hefur stjórnarandstaða á hverjum tíma haft betri tök á að fylgjast með málum sem þar hafa verið afgreidd heldur en verður nú eftir að öll verkefni þess færast inn í landbrn. og landnámsstjórn verður þar með aflögð. Þetta vildi ég aðeins að fram kæmi, vegna þess að ég hygg að í mörgum tilfellum hafi þessi skipan, með möguleika stjórnarandstöðu á hverjum tíma til að hafa ákveðin afskipti af þessum verkefnum, hafi verið til góðs. En ég hygg að hitt vegi nú þyngra, að verkefnin hafa verið að færast æ meira frá Landnáminu yfir til annarra aðila. Er því ekki orðið um svo ýkja veigamikla starfsemi að ræða og þessi breyting á þannig í grundvallaratriðum fyllsta rétt á sér. Gerum okkur hins vegar grein fyrir því um leið að Alþingi er þarna að afsala sér ákveðnu valdi yfir til landbrn. varðandi talsvert þýðingarmikil verkefni.