11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5713 í B-deild Alþingistíðinda. (5032)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. afneitar sínum fyrri áformum og segir mig rangminna aðdragandann að þeim skattalögum sem eru hér á þskj. 594, vill ekki tengja þá skatta við þá gjaldeyrisskatta sem teknir hafa verið af bönkunum, ég vona að ég fari þar rétt með. Ég vil þá leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér úr grg. frv. til l. um gjald af umboðsþóknun o. s. frv. á þskj. 593. Þar stendur neðst í athugasemdum svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Skv. ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 65/1982“ — lög sem fyrrv. hæstv. fjmrh. vitnaði til — „um skattskyldu innlánsstofnana var gjald þetta ákveðið 50% frá gildistöku laganna til ársloka 1982, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 40/1969. Í frv. til þeirra laga var gert ráð fyrir að hlutfall þetta lækkaði á árinu 1983 í 40%. Þá er einnig gert ráð fyrir heildarendurskoðun laganna fyrir árslok 1983 í ljósi þeirrar reynslu sem þá væri fengin af framkvæmd þeirra. Ákvæði frv. um þetta efni náði ekki fram að ganga umfram lækkun úr 60% í 50% á árinu 1982. Í bráðabirgðaákvæði V í lögunum var hins vegar ákveðið að starfandi bankamálanefnd skyldi endurskoða lög nr. 40/1969 fyrir þingbyrjun haustið 1982. Skilaði bankamálanefnd áliti til fjmrh. með bréfi dags. 24. nóv. 1982. Fylgdu bréfi nefndarinnar tvenn drög að frv. til l. um umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna. Var í öðru þeirra gert ráð fyrir að skatturinn yrði 50% til frambúðar en í hinu að hann félli niður í áföngum á árunum 1983–1985. Ekki varð af því fyrir árslok 1982 að fyrir Alþingi væri lagt frv. um þetta efni. Hækkaði gjaldið því aftur úr 50% í 60% hinn 1. jan. 1983.“

Sem sagt, þegar frv. til l. um nýja skattheimtu á innlánsstofnanir almennt er lagt fram leggur fyrrv. hæstv. fjmrh. fram frv. sem á að lækka gjaldeyrisskattinn í áföngum og síðan á hann að falla niður og falla út. Þá held ég að við ættum að fletta upp í þingtíðindum vegna þess að hæstv. fyrrv. fjmrh. gat þess sérstaklega í þingræðu skv. samkomulagi okkar á milli að svo skyldi með málið fara og gegn því að ég drægi til baka frv. það sem ég hafði komið fram með til leiðréttingar á þessum gjaldeyrisskatti á bönkunum. Þannig kemur hér fram í athugasemdum með frv. hvert var stefnt. Þessi niðurfelling var þegar hafin með því að fella gjaldið úr 60 í 50%. Síðan átti að breyta því aftur, eins og kemur hér fram, úr 50 í 40% og halda áfram þangað til gjaldið félli niður. Þessar fullyrðingar fyrrv. hæstv. ráðh. eru þar með hraktar.

En ég hélt að ég hefði tekið það fram í upphafi minnar ræðu, virðulegi forseti, að ég teldi ekki rétt að svara oftar hv. 3. þm. Norðurl. v. um það gat sem er til umræðu og hefur verið til umræðu í fjármáladæminu vegna þess að ég hafði gert það svo oft hér í þessari deild. Þannig að það er óþarfi fyrir núv. forseta þessarar deildar að taka hér inn fullyrðingar í þveröfuga átt. Við gerðum það alls ekkert að umræðuefni, virðulegur þm., 3. þm. Norðurl. v., og ég taldi ekki rétt að fara að taka upp þær umræður og þess vegna svaraði ég honum ekki um það. En það held ég að enginn hafi misskilið í mínu tali að í því fólst svar við þeim spurningum sem hv. 3. þm. Norðurl. v. beindi til mín um það hvort ég mundi vera reiðubúinn til að endurskoða afstöðu mína til þessa frv. um skattskyldu innlánsstofnana á þskj. 594. Það er kannske rétt að koma bara upp í ræðustólinn og segja beint út: Nei, ég er ekki reiðubúinn til þess að endurskoða það, ef það skilst ekki á þann hátt sem ég sagði það og svaraði honum. Síst hefði ég talið að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefði þurft annan þm. til þess að ýta á eftir svari þegar menn fengju þau beint. g er alveg sannfærður um að hann skildi svarið þó forseti hafi ekki skilið það.

En ég vil nú svara virðulegum forseta, 8. þm. Reykv., að það er svo sannarlega að berjast fyrir hagsmunum einstaklinga og hagsmunum fólksins þegar peningastofnanir eru styrktar með aðgerðum. Því að hvar væri fólkið og hvar væru fyrirtækin og hvar væri atvinnuástandið ef þessi vinnutæki þjóðarinnar, sem eru peningarnir, væru ekki á réttum stöðum á réttum tíma? Þannig að hagsmunir fólksins og hagsmunir einkareksturs fara saman í þessum málum þegar unnið er að því að þurrausa ekki bankana heldur að gefa þeim þó líf. Þeirra ástand er sannarlega ekki nógu gott til þess að standa undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar af þjóðfélaginu, bæði einstaklingum og fyrirtækjum.

Ég get verið sammála hv. 8. þm. Reykv. um það að ríkisbankarnir hafa á sínum herðum skyldur sem eru kannske meiri en einkabankar mundu hafa á sínum herðum. Það er alveg augljóst. Ég hef tekið undir það og nú síðast fyrir ekki löngu við hv. 8. þm. Reykv. að það eigi að gera þessa banka að hlutafélagabönkum og ríkið eigi að selja þá. Það voru ekki margir sem tóku undir þá till. hv. 8. þm. Reykv. en það eru þó tveir úr þessari deild sem voru sama sinnis og var ég annar þeirra. Hinn — til þess að það fari ekki á milli mála þannig að virðulegur forseti viti hver hann var — var hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, 4. þm. Norðurl. v. Þá þarf hann ekki að koma í ræðustól til að spyrja hver það skyldi nú hafa verið.

En ég vil undirstrika það að það er líka mín skoðun og það er enginn ágreiningur á milli mín og 8. þm. Reykv. um það að ég álít að fyrirtæki í ríkiseign gangi verr af mörgum ástæðum en fyrirtæki rekin af einstaklingum. En það er heldur ekki mál sem ég ætla að gera að umræðuefni hérna vegna þess að það tilheyrir ekki þessum dagskrárlið að ræða það. Ég vona að ég fari úr ræðustól að þessu sinni hafandi svarað þeim spurningum sem virðulegur 8. þm. Reykv. ítrekaði fyrir hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég er ekki reiðubúinn til þess að standa að breytingum frá því sem nú er hér fram komið um þessa skattheimtu á innlánsstofnanir.