11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5714 í B-deild Alþingistíðinda. (5033)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Orðin sem hæstv. fjmrh. vitnaði til úr grg. staðfestu í einu og öllu það sem ég hafði áður sagt um þetta mál. Þessi orð segja nákvæmlega það sem ég sagði áðan að til stóð að slaka lítillega á í innheimtu þessa gjalds, en það var ekki orð um það í þessari setningu að staðið hefði til að fella gjöldin alveg niður.

Ég vil bara leyfa mér að lesa þessa setningu aftur svo að hv. þm. sem hér eru viðstaddir geti sannreynt að ég fer með rétt mál. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að koma svo á eftir og segja að í þessum lesnu orðum sínum hafi falist áform um að fella gjaldið niður. Það sem stendur hér í grg. er — (Gripið fram í.) Já, við skulum bara fara yfir hvað stendur hérna. Það stendur í grg., með leyfi forseta:

„Skv. ákvæði í lögum um skattskyldu innlánsstofnana var gjald þetta ákveðið 50% frá gildistöku laganna til ársloka 1982. Í frv. til þeirra laga var gert ráð fyrir að hlutfall þetta lækkaði á árinu 1983 í 40%. Þá var einnig gert ráð fyrir heildarendurskoðun laganna fyrir árslok 1983 í ljósi þeirrar reynslu sem þá væri fengin af framkvæmd þeirra. Ákvæði frv. um þetta efni náðu ekki fram að ganga umfram lækkun úr 60% í 50% á árinu 1982.“ Ekki orð um það að staðið hafi til að fella gjaldið niður. (Fjmrh.: Þú sveikst það.) Ég sveik ekki neitt. Ég gerði nákvæmlega það sem til stóð, að slaka til um álagningu þessa skatts en ætlaði mér aldrei að leggja skattinn niður. (Forseti: Má ég benda hv 3. þm. Norðurl. v. á að hann er frsm. og hefur því leyfi til að tala lengur ef hann . . . ) Þá ætlar hann að nota sér það.

Það er eftirtektarvert að bankamálanefndin lagði tvö frv. fyrir hæstv. fjmrh. Í öðru frv. var gert ráð fyrir því að þessi skattur stæði áfram og yrði 50% eins og hann var á árinu 1982. Í hinu frv. var gert ráð fyrir því að skatturinn yrði alveg lagður niður. Ráðh. átti sem sagt um tvo kosti að velja. Hann gat valið annað af þessum tveimur frv. því að nefndin skilaði þeim báðum frá sér. En auðvitað valdi ráðh. það frv. sem skilaði ríkissjóði minnstum tekjum. Auðvitað valdi hann það frv. sem svipti ríkissjóð tekjum í stórum stíl. Það sagði sig sjálft því að það er í fullu samræmi við svo margt annað sem hann hefur aðhafst í þessum efnum.

Við hlýddum áðan á harmagrát hæstv. ráðh. yfir bágum fjárhag bankanna. Það var eiginlega við þá ræðu sem maður loksins fór að skilja hver væri litli maðurinn í þjóðfélaginu. Það var greinilega Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og aðrir bankastjórar viðskiptabankanna sem stjórna þessum ömurlegu stofnunum sem eru alveg að fara á hausinn og ekki mega við nokkurri skattlagningu. Þarna voru þeir komnir, litlu mennirnir, sem ekki mátti hreyfa við.

Ég er ansi hræddur um að það verði auðvelt að útskýra eftir á hvers vegna fjárhagur ríkissjóðs varð svo bágur á árinu 1983, 1984 og 1985 og hvers vegna komu svo mörg göt á ríkissjóð. Þau urðu til með þeim hætti sem hér er verið að gera till. um fyrir hv. deild, skattar felldir niður og það í mörgum tilvikum eins og þessu gersamlega að ástæðulausu, án þess að nokkur rök séu færð fyrir því að þeir aðilar, sem hér eiga að borga minna en áður geti ekki borgað þá skatta sem fram að þessu hafa verið lagður á þá.