11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5717 í B-deild Alþingistíðinda. (5036)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn., en n. klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls sem er hliðstætt því máli sem var hér til umr. næst á undan og hefur einnig í för mér sér verulega lækkaðar greiðslur banka og annarra lánastofnana í ríkissjóð. Það er athyglisvert að till. meiri hl. n. ganga þó enn lengra í sömu átt og frv. gerði og láta mun nærri að tekjuskerðing ríkissjóðs vegna samþykktar þessa frv. með þeim breytingum sem meiri hl. gerir till. um, nemi um 18 millj. kr. á þessu ári.

Hitt er þó miklu verra að tekjuskerðing ríkissjóðs verður enn stórfelldari á árunum 1985 og 1986 ef frv. verður samþykkt því að þá eiga greiðslur í ríkissjóð frá innlánsstofnunum að lækka um helming eða um 65 millj. kr. til viðbótar núverandi verðlagi hvort árið um sig vegna breyttrar tilhögunar við álagningu. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að ekki verður horfið frá staðgreiðslufyrirkomulagi til eftirágreiðslukerfis á sköttum nema með því að niður falli skattgreiðslur eins árs.“

Þetta er skýringin á hinu mikla tekjutapi ríkissjóðs á árunum 1985 og 1986 að felldar eru niður skattgreiðslur eins árs. Niðurfellingin dreifist á þessi tvö ár. En skyldi þetta vera rétt, að ekki sé hægt að breyta úr staðgreiðslufyrirkomulagi til eftirágreiðslukerfis nema að fella atgjörlega niður skattgreiðslur sem svarar til skatts á einu ári? Auðvitað er það alrangt. Þessi fullyrðing er alröng og hefur ekki við nein rök að styðjast. Þetta er blekking sem meiri hlutinn setur hér í nál. sitt til þess að reyna að rökstyðja þá fullyrðingu sína að ekki sé hægt að breyta álagningarkerfi án þess að fara að með þeim hætti sem hér er lýst. Þetta er sem sagt alrangt. Hægt er að finna ótal leiðir til að ná þessum peningum inn í ríkissjóð, aðrar en þær sem hér eru valdar, að fella skattinn algjörlega niður í eitt ár.

T. d. er hægt að skattleggja árið sem verið er að gera breytinguna á þeim tekjuskattsgrunni sem seinast var notaður og setja í lög ákvæði þess efnis. Þannig mundu þessar 130 millj. kr. ekki tapast sem ríkissjóður verður af af þessari ástæðu. Einnig væri hægt að ákveða að á árinu sem verið er að breyta um kerfi sé lagður á veltuskattur eins og gert var á árinu 1982, og skattgreiðslan það árið miðist við veltu hvers banka fyrir sig, t. d. innlánsaukningu. En hæstv. fjmrh. velur auðvitað ekki þá leiðina, nei, nei. Hann velur alltaf þá leiðina sem hefur minnstar tekjur í för með sér fyrir ríkissjóð því að hann hefur nóg af peningum í ríkissjóði og munar ekki um hvort út fara 1.00 millj. þarna eða 100 millj. einhvers staðar annars staðar. Hér er verið að framkvæma tæknilega breytingu og það þarf endilega að gera það með þeim hætti að ríkissjóður tapi á því 130 millj. kr.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Þetta er ekki aðeins ábyrgðarleysi af hæstv. fjmrh., það er glórulaust með öllu að fara svona með atmannafé. Ég spyr hæstv. ráðh. enn: Gerði hann sér grein fyrir því þegar ákveðið var að afgreiða þetta frv. að tekjutap ríkissjóðs væri svo stórfellt sem raun ber vitni? Gerði hann sér grein fyrir því? Hvers vegna taldi hann ekki koma til greina að velja einhverja aðra leið sem gæti komið í veg fyrir þetta tekjutap ríkissjóðs? Hann getur þó ekki fullyrt í alvöru að það sé sanngjarnt eða eðlilegt að fella algjörlega niður skattlagningu í heilt ár eða, eins og hér er gert, að hálfu leyti í tvö ár. Það eru varla sanngirnisrök sem mæla með þessu, enn síður að það sé nein nauðsyn. Hvers vegna er þá þessi leið valin? Hvers vegna í ósköpunum hugsar hæstv. ráðh. ekki meira um stöðu ríkissjóðs og hag hans en svo að hann spili þannig út stórum fjárhæðum í algjöru ábyrgðarleysi?

Fyrir svo utan hitt að þessi breyting er engin nauðsyn. Alþingi ákvað árið 1982 að skattleggja bankana með þessum ákveðna hætti, þ. e. að þeir skyldu greiða skatt fyrir sama ár og tekjurnar verða til, þ. e. staðgreiðslukerfi á bankana. Það hefði verið miklu nær að koma svipuðu kerfi á í öllum atvinnurekstri og gagnvart öllum launamönnum. Fyrir einhverjar tiktúrur hv. þm. Þorsteins Pálssonar, form. Sjálfstfl., sem hefur haft forustu fyrir bankamálanefndinni, þarf endilega að snúa þessu öllu til baka og taka upp eftirágreiðslukerfi þó að auðvitað skipti engu máli hvort kerfið er notað.

Afleiðingin verður þessi að ríkissjóði blæðir. Ríkissjóður á að tapa þarna á einu ári af þessari ástæðu 130 millj. kr. gersamlega að ástæðulausu. Það fer ekki milli mála að þeir sem sömdu þetta frv. og báru það fram voru ekki að hugsa um hag ríkissjóðs eða hvernig hann kæmi út úr þessum breytingum. Þeim var skítsama um það.

Ég vil láta þess getið af því að mér láðist að geta þess þegar ég mælti fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. þegar seinasta mál deildarinnar var hér til umr. að við í stjórnarandstöðu stöndum öll að þessu nál. sem er undirritað af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, Eiði Guðnasyni og þeim sem hér stendur. Auk þess sat hv. þm. Stefán Benediktsson fundi n. og lýsti sig samþykkan áliti minni hl.

Minni hl. telur bæði ástæðulaust og óþarft að lækka skattgreiðslu banka, bendir á að ef nauðsynlegt er talið að samræma álagningu tekjuskatts á bankastofnanir almennri álagningu skatta — sem út af fyrir sig má gera þó að það sé ekki endilega brýnt eða bráðnauðsynlegt — má gera það án þess að því fylgi tekjutap fyrir ríkissjóð á þessu eða næstu tveimur árum. Við getum fallist á að gagnlegt sé að endurskoða ýmis atriði laga um skattskyldu innlánsstofnana, eins og gert var ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði þeirra laga, en það verður að gera að betur athuguðu máli. Þau frumvörp, sem hér hafa verið lögð fram, eru bæði vanhugsuð og illa undirbúin. Við leggjum því til að frv. verði afgreitt á svipaðan hátt og við gerum till. um um mál sem var seinast á dagskrá, þ. e. að það verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess að ríkisstj. láti endurskoða gildandi lög um skattskyldu innlánsstofnana og þar sem frv. þetta er að ýmsu leyti vanhugsað og illa undirbúið og hefur í för með sér stórfellt tekjutap fyrir ríkissjóð ályktar deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil sem sagt ítreka spurningu mína til hæstv. ráðh., en hún var: Gerði hann sér grein fyrir því þegar hann lagði frv. sitt fram, eða nú þegar ákvörðun var tekin um að afgreiða það, hversu mikið tekjutap samþykkt þess hefði í för með sér fyrir ríkissjóð? Og í öðru lagi: Hvers vegna í ósköpunum gat ekki komið til greina einhver önnur leið en sú sem hér er valin sem ekki hefði það í för með sér að þessar bankastofnanir yrðu skattlausar í eitt ár eða, eins og er það sama, borgi aðeins hálfan skatt í tvö ár.