08.11.1983
Sameinað þing: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

29. mál, stjórn á fiskveiðum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að þau vandamál, sem felast í því að stjórna veiðum við landið, séu rædd hér á Alþingi. Þetta eru mál sem er nauðsynlegt að ræða með opnum huga. Þar eru mörg ljón á veginum, það eru margvíslegir hagsmunaárekstrar milli landshluta, milli veiðiskipa, milli tegunda veiðarfæra o.s.frv., o.s.frv.

Það verður að sjálfsögðu alltaf erfitt að koma sér niður á reglur sem allir verða ánægðir með í þessu efni og mun sennilega aldrei takast en á þessum vandamálum verður að sjálfsögðu að taka og hefur verið tekið á undanförnum árum, jafnvel þótt allt hafi ekki verið þar sem skyldi.

Þessi till. til þál. gerir ráð fyrir veiðileyfastjórnun. Eins og kunnugt er þá eru gefin út veiðileyfi fyrir mjög miklu af þeim veiðum sem nú eru stundaðar við landið og í því frv., sem hefur verið unnið á vegum sjútvrn. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og ég gerði að umræðuefni í þeirri ræðu sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson vitnaði hér í, er gert ráð fyrir því að það séu tekin af öll tvímæli um að allar veiðar séu háðar leyfum. En það er að sjálfsögðu ekki nægilegt því að það þarf að skipta þessum leyfum og skipta aflakvóta á milli báta og skipa með einhverjum hætti hvort sem það er sameiginlegur kvóti eða kvóti á hvert skip. Við höfum slíka skipan í mörgum af veiðunum, t.d. nefni ég loðnuveiðarnar; þar hefur verið takmarkaður sá fjöldi skipa sem veiðarnar stunda og einnig takmarkað það aflamagn sem hvert skip má veiða.

Að því er varðar skelveiði og t.d. rækjuveiði innan fjarðar og dragnótaveiði í Faxaflóa þá hafa það fyrst og fremst verið vinnsluaðilarnir sem hafa fengið þessi leyfi og í reynd haft nokkuð um það að segja hvaða veiðiskip hafa notið þess. Þetta hefur oft orðið til þess að erfitt hefur orðið um vik, t.d. má nefna dæmi við Breiðafjörð, þar sem þau skip sem geta stundað skelveiði búa við góðan kost en önnur skip, sem ekki hafa heimild til að taka þátt í skelveiðinni, búa við afar rýran kost.

Að því er varðar t.d. humarveiðina þá er það sameiginlegur aflakvóti sem hætt er að veiða úr þegar hámarksaflamagni er náð.

Spurningin er fyrst og fremst sú hvernig við höldum þessari þróun áfram, að hve miklu leyti við eigum að víkka út þau kerfi — ef það má nota það ljóta orð — sem hafa verið þróuð í þessu sambandi. Við höfum alls staðar í öllum veiðum einhverja aflakvóta. Það er aðeins spurningin um það að i sumum tilfellum er aflakvótanum skipt niður á skip en í öðrum tilfellum er heildarkvóti fyrir öll skipin sem taka þátt í veiðunum. Þetta eru mjög erfið mál sem er búið að setja nefnd eftir nefnd í að fjalla um og verður enn fjallað um á næstunni.

En ég vil aðeins segja það varðandi þá spurningu, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson beindi til mín, um hvernig þessum málum verði háttað á næstunni að einmitt er verið að vinna að undirbúningi fiskveiðistefnunnar fyrir næsta ár. Hún hefur að sjálfsögðu ekki enn verið mörkuð vegna þess að við erum fyrst nú að fá fyrstu upplýsingar um hugsanlegt aflamagn á næsta ári og sú skýrsla, sem kom frá Hafrannsóknastofnun fyrir nokkrum dögum, er aðeins að því er þorskstofninn varðar uppkast að kaflanum um þorskstofninn en eins og hv. þm. vita þá skilar Hafrannsóknastofnunin að hausti til — venjulega í lok nóvember eða í byrjun desember — heildarskýrslu um ástand og horfur að því er varðar fiskistofnana við landið.

En í stuttu máli þá hef ég varpað fram mínum hugmyndum um það hvernig hugsanlegt væri að koma málum fyrir, m.a. til þess að gefa mönnum nokkra vísbendingu um það hvernig ég lít á þessi mál, en ég tek það skýrt fram að ég er á engan hátt að koma með neinar endanlegar till. af minni hálfu.

Ég tel það t.d. vera alveg skýrt að það er ekki hugsanlegt að heimila loðnubátunum að taka þátt í netaveiðinni á næstu vertíð. Það verður að athuga það betur hvort og að hvaða leyti þeir gætu tekið þátt í þorskveiðinni. Þar er eins og allir vita í reynd ekkert svigrúm og mikilvægt að það væri hægt að útiloka þá algjörlega frá þorskveiðinni. Þess ber hins vegar að geta að það liggur ekki fyrir hver gæti orðið loðnuafli á n. k. hausti og enn þá hafa ekki farið fram fullnægjandi rannsóknir sem geta gefið vísbendingu um það.

Að því er netaveiðina varðar þá er mjög mikilvægt að stytta það úthald og almennt að stytta úthöldin. Við ákváðum það t.d. að síldveiðin hæfist mun seinna heldur en áður hefur verið. Að sjálfsögðu kom fram margvísleg gagnrýni vegna þeirrar ákvörðunar frá aðilum sem töldu að sér vegið í því sambandi. Síldveiðin gekk mjög illa framan af þannig að það kom í ljós að það var rétt ákvörðun að byrja síðar.

Á sama hátt hefur netaveiðin venjulega verið mjög rýr framan af vertíð og sá fiskur. sem einkum veiðist, er ufsi sem mjög slæmar markaðshorfur eru fyrir. Það liggja miklar birgðir af ufsa í frystigeymslum frá síðustu vertíð og einnig liggja miklar birgðir af ufsa í salthúsum víðs vegar um landið og það er að sjálfsögðu ekki skynsamlegt við núverandi aðstæður að safna miklu af birgðum í frystigeymslur og salthús. Það er betra að hafa fiskinn í sjónum og lofa honum að vaxa í stað þess að geyma hann á dýru fjármagni í geymslum hvort sem það er innanlands eða utan.

Af þessu tilefni sýnist mér að það sé ekki ástæða til að netaveiðin hefjist fyrr en í fyrsta lagi 15. febr. og mætti e.t.v. byrja síðar t.d. 1. mars.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að jafnhliða geti dragnótaveiði aukist og heimildir orðið rýmri að því er dragnótaveiðina varðar til þess m.a. að veiða meira af kola og ná fiskinum á land í betra ásigkomulagi. Kolastofninn hefur verið vannýttur. Fiskifræðingar hafa mælt með því að veiða 10 þús. tonn á hverju ári og það hefur svona um það bil helmingurinn af því verið nýttur. Þó hefur það farið vaxandi í ár. Mér finnst ekkert vera því til fyrirstöðu að auka þessa veiði verulega vegna þess að þessi tillaga um kolaveiði er ekki byggð á nákvæmum upplýsingum. Kolinn er mjög víða við landið og á mörgum svæðum hefur hann ekkert verið nýttur og það er spurning hvort ekki væri réttlætanlegt við núverandi aðstæður að auka þessa veiði í 20–25 þús. tonn svo að eitthvað sé nefnt. Þessi stofn er tiltölulega sterkur, verð á kola er gott og markaðsaðstæður ágætar og vinnsla á honum skapar mikla vinnu. T. d. var mér sagt að vinnsla og veiðar á þeim 1500 tonnum. sem veidd eru hér í Faxaflóa, skapi 240 manns atvinnu meðan á veiðunum stendur þannig að það er ekki lítið mál að auka þessa veiði ef stofninn er talinn þola það.

Það vandamál sem er langerfiðast að leysa, er varðandi skipulag veiða togaranna; það verður mjög vandasamt að finna skipulag á þeim veiðum fyrir næsta ár. Ég tel fyrir mitt leyti mjög mikilvægt að það væri hægt að koma á kvótakerfi. Hins vegar er mjög erfitt að finna grundvöll til að ákveða þennan kvóta eftir. Það er t.d. spurning við hvað skuli miða. Á að miða við veiði undanfarinna ára? Hvað skal gera við skip sem nýlega hafa hafið veiði? o.s.frv., o.s.frv.

Um þetta hafa komið fram margvíslegar hugmyndir en ég kastaði því fram í mínu máli að ég teldi mikilvægt að menn gætu haft val, þ.e. þeir sem teldu sér í hag að veiða samkv. kvóta sem ákveðinn yrði gætu gert það og skipulagt þá sína veiði samkvæmt því. Þeir, sem vildu ekki una þeirri niðurstöðu og teldu sig vera órétti beitta, gætu þá áfram veitt úr sameiginlegum aflakvóta með svipuðum hætti og gert hefur verið og allir eru óánægðir með.

Síðan gæti e.t.v. einn möguleikinn verið sá ef menn treysta sé ekki til að veiða samkvæmt því skipulagi að þeir mundu einfaldlega leggja sínum skipum og reynt yrði að aðstoða þá til að slíkt yrði kleift. Hitt er svo annað mál að það er ekkert einfalt mál að leggja fiskiskipum. Þar stendur að baki atvinna fólksins í landi og rekstur frystihúsa, síðan allt okkar markaðskerfi og í reynd allt þjóðfélagið — þannig að hér er að sjálfsögðu við mjög erfið mál að etja.

Það er þegar hafin vinna til að undirbúa fiskveiðistefnuna fyrir næsta ár og að sjálfsögðu þarf að hafa þar náið samráð við hagsmunaaðila. Ég skal ekki á nokkurn hátt fullyrða hvernig því starfi lýkur en það eru ekki aðeins vandamál á þessu sviði heldur eru ekkert síður vandamál þar sem veiðileyfastjórnun fer fram, t.d. nefni ég skelina og ég nefni rækjuna. Það eru miklu fleiri sem vilja — og ég nefni einnig dragnótaveiðarnar hér á Faxaflóa — fá þessi leyfi heldur en komast að og það er ekkert heppilegt og ekkert skemmtilegt fyrir ráðuneyti og ráðh. að vera að skera úr um það að þessi skuli fá leyfi en ekki hinn. Það er mjög vandasamt að skera úr um það og finna þar hlutlægar reglur þannig að allt þetta hefur sína galla. (Gripið fram í.) Það er mikil óánægja í kringum þessa stjórnun og það verður vandasamt að halda á því í framtíðinni.

Það er sjálfsagt, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hugsanlegt að selja leyfi. Þá kemur nú upp vandamálið með verðlagningu og hvernig fjármagn skuli nýtt. Mér sýnist nú að fiskiskipaflotinn í heild sinni hafi ekki þá afkomu í dag að hann geri undir því staðið að bæta við einum nýjum kostnaðarlið sem er kaup á veiðileyfum þannig að það yrði nú að koma inn í heildartekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Þegar þessari hugmynd hefur verið kastað fram þá hefur henni verið kastað fram með þeim hætti, að þetta varði eingöngu útgerðina og fiskvinnsluna en það er langt því frá. Slík skipan varðar alla tekjuskiptingu í landinu og verður að koma við alla jafnt — ekkert síður opinbera starfsmenn og ýmsa aðra — og síðan náttúrlega kemur spurningin hvernig þessir peningar skuli nýttir.

Ég hef aldrei haft mikla trú á því að selja veiðileyfi. Hitt er svo annað mál að ég sé það einnig í hendi mér að það er erfitt að úthluta verðmætum leyfum til nokkurra aðila og síðan eru aðrir sem engin leyfi fá. Það kemur því oft upp í hugann hvort þá væri ekki mun einfaldara að selja þessi leyfi en þá gæti nú verið að mun fleiri vildu kaupa heldur en fengju keypt þannig að ég er nú ekki farinn að sjá að það leysi heldur vandann algjörlega. Það færi að vísu eftir verðlagningunni. Það er eins og með...(Gripið fram í: Í sambandi við kaup.) Já, það er nú eins og með ýmislegt sem selt er og menn hafa nú reynt að selja, t.d. brennivín, mismunandi dýrt í gegnum tíðina en alltaf eru nú einhverjir kaupendur jafnvel þótt að verðið verði afskaplega hátt og illviðráðanlegt.