11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5724 í B-deild Alþingistíðinda. (5070)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar er frv. til laga um húsnæðismál, Húsnæðisstofnun ríkisins, frv. [123. mál, Nd.] (þskj. 765, 691, 6, 12, 13, 16, 761). — 3. umr. Þetta er ekki nýlunda á dagskrá hv. deildar. Það er búið að vera hér á fjórum fundum. Þetta er fimmti fundurinn, sem málið er á dagskrá.

Fyrir nokkrum dögum, allmörgum reyndar, óskaði stjórnarliðið mjög ákveðið eftir því að þetta mál fengi rækilega meðferð og hraða umr. við 2. umr. málsins, svo að það kæmist hið skjótasta til Ed. Atkvgr. lauk svo eins og kunnugt er frá 2. umr. En síðan hefur málið verið fast, járn í járn, vegna þess að stjórnarliðið hefur ekki komið sér saman.

Í þessu frv. eru ýmis ákvæði sem við erum andvígir, Alþb.-menn. Og það hefur komið fram að fleiri stjórnarandstöðuflokkar hafa ýmislegt við frv. að athuga. Þó eru í frv. ýmis ákvæði sem eru til bóta í húsnæðismálum og því ástæða til þess auðvitað að leggja áherslu á að frv. fái hér þinglega meðferð, ekki aðeins hér í hv. Nd. heldur einnig í hv. Ed.

Deilumál stjórnarflokkanna er það, eins og alþjóð veit, að þeir eru ekki sammála um hvort húsnæðissamvinnufélög eiga rétt til lána úr Byggingarsjóði verkamanna. Sjálfstfl. og fulltrúar hans hafa haldið því fram að húsnæðissamvinnufélög eigi ekki þennan rétt. Aðrir hafa haldið því fram að húsnæðissamvinnufélög geti átt þennan rétt, enda uppfylli húsnæðissamvinnufélögin önnur skilyrði kaflans um félagslegar íbúðabyggingar í húsnæðislánafrv.

Ég tel það algjöra óhæfu að ósamkomulag stjórnarliðsins verði til að stöðva afgreiðslu máls af þessu tagi eins og hér hefur gerst núna sólarhringum saman. Það er útilokað fyrir stjórnarliðið að gera kröfur til þess að þingið afgreiði hér mál svo að segja á færibandi á meðan þetta mál er óuppgert. Það verður að fást botn í það hvaða afstöðu menn hafa í þessu efni.

Nú er það svo, herra forseti, að það frv. sem hér liggur fyrir er með brtt. við c-lið 33. gr. sem er sama brtt. og flutt var af fráfarandi ríkisstj. á síðasta þingi. Þar var við það miðað og kom fram í ummælum ýmissa þm., m. a. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að hér væri um að ræða jákvætt ákvæði í frv. og eðlilegt að stuðla að framgangi þess.

Í tilefni af því að hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur lýst því yfir á opinberum vettvangi að nauðsynlegt sé að fresta þinginu til að ríkisstj. geti fengið tíma til að sleikja sárin, vegna þess að stjórnarflokkarnir koma sér yfirleitt ekki saman um neitt þessa dagana og það sem flutt er einn daginn í nefnd að morgni af stjórnarliðinu er fellt í hinum stjórnarflokknum að kvöldi, í tilefni af þessu ósamkomutagi stjórnarflokkanna og þeirra tafa sem húsnæðismálin hafa orðið fyrir vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvenær má vænta þess að stjórnarliðið treysti sér til að taka á dagskrá frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, 123. mál Nd.?