11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5725 í B-deild Alþingistíðinda. (5072)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hið stutta og fáorða svar hæstv. forsrh. staðfestir þann ágreining sem er innan ríkisstj. í þessu máli og þann mikla vanda sem hún á við að glíma við að ljúka þinghaldinu. Það er greinilegt að till. hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, um að fresta þinghaldinu svo að stjórnarflokkarnir geti komið sér saman, hefur verið á rökum reist.

Ég hvet stjórnarliðið til að halda þannig á málum að hér verði hægt að afgreiða þetta mál. Sjálfstfl. hefur í rauninni lýst því yfir að hann hafi sérstöðu í þessu máli. Ef hann vill útiloka húsnæðissamvinnufélagið Búseta og önnur húsnæðissamvinnufélög frá lánum skv. kaflanum um félagslegar íbúðabyggingar, þá verður hann að fella c-lið 33. gr. Takist Sjálfstfl. það ekki, þá er ljóst að þingið hafnar skilningi Sjálfstfl. á þessu máli.