11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5753 í B-deild Alþingistíðinda. (5078)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég stend að nál. minni hl. fjh.- og viðskn. sem fulltrúi Kvennalista í fjh.- og viðskn. og vísa til þess nál. og fskj. sem því fylgja og sömuleiðis til þeirra orða sem hér hafa farið á undan mér frá þm. stjórnarandstöðunnar. Ég ætla að hafa hér um nokkur orð og stikla á stóru.

Það má segja að sá tónn og sá taktur sem þessi ríkisstj. sló strax í upphafi lífdaga sinna hafi reynst sjálfum sér samkvæmur. Sú leið félagslegra skerðinga til að leiðrétta hagsýsludæmið sem valin var í byrjun er dyggilega fetuð enn af karlmannlegri festu, enda undir hljómfalli hinna hörðu gilda. Og hugmyndaauðgin um leiðir út úr vanda er lítil, nánast engin. Úrræðin eru gamaldags og úrelt, en það sem verra er: stórhættuleg fyrir framtíð þessa lands.

Við höfum hlustað hér í þinginu undanfarna daga á það þegar smábitar af landinu hafa verið seldir í formi ríkisjarða, en þessi veðsetning Íslands í útlöndum sem fram er haldið af þessari ríkisstj. með stórfelldum erlendum lántökum virðist mönnum næstum ósjálfráð ef litið er til þess hve mjög þeir hafa gagnrýnt slíkt athæfi annarra á umliðnum árum. Við Íslendingar erum sátt við það líta á okkur sem merkilega þjóð með óskoraðan tilverurétt á alþjóðavettvangi. En hve lengi ætla menn að útlendingar nenni að halda okkur uppi eins og ómögum? Ætlum við aldrei að vaxa upp og verða fullorðin og sjá fyrir okkur sjálf. Getum við ekki axlað þá ábyrgð að vera brauðvinnungar í eigin landi? Þurfum við enn að halda uppi þessu hömlulausa gjálífi hinna nýríku sem sultu á síðustu öld og slá og slá og slá fyrir því í útlöndum? Þetta þætti óráðsía ef um einstakling væri að ræða en ekki þjóð.

Nú opnast dyr til nýrra áður óþekktra atvinnutækifæra sem byggjast fyrst og fremst á þekkingu og hugviti og við viljum auðvitað vera með og tölum t. d. mikið um líftækni og lífefnatækni upp á síðkastið. Öld handaflsins er að baki. En hvað er verið að hugsa þegar á sama tíma er byrjað á því að skera miskunnarlaust niður í menntakerfinu, vaxtarbroddur framtíðarkosta okkar stýfður, námsmenn þegar settir í svelti með fjárhagslegan stuðning? Áfram er kennarastéttin láglaunastétt, enda að mestu skipuð konum. Áfram er óviðunandi misrétti til menntunar milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hvernig er hægt að una slíku meðan lánsfé er sólundað í prjálhýsi og munað? Hver velur eiginlega þessa forgangsröðun?

Síðan er annar vinsæll knérunnur sem líka á að höggva í, heilbrigðisþjónustan. Og ég vísa til sértækra dæma sem tekin voru fyrir af öðrum ræðumönnum á undan mér. Auk niðurskurðar á framlögum til tannviðgerða og sjúkradagpeninga eru fyrirhugaðar stórfelldar hækkanir lyfja- og sérfræðiþjónustugjalda, göngudeildaþjónustu og rannsóknaþjónustu. Þetta er fyrirhugað án nokkurra fyrirliggjandi niðurstaðna eða kannana á því hverjir nota þessa þjónustu mest. Þrátt fyrir endurteknar spurningar veit enginn hver þessa þjónustu nýtir mest. T. d. í sambandi við lyfjanotkun: Hve margir eru þeir sem nota lyf að staðaldri vegna langvinnra sjúkdóma, en eru ekki gjaldgengir til að njóta þess að fá lyfjakort? Þetta veit enginn. En þeir sem ráðunum beita vita ekki á hverjum þau bitna. Þeim er beint í blindni. Þetta eru óráð og þeir sem beita þeim eru skammsýnir og glámskyggnir.

Þessi óráð benda til alvarlegrar brenglunar á verðmætamati og forgangsröð. Börnin og unglingarnir og sjúklingarnir eiga að borga til að fylla upp í tímabundið gjálífi foreldranna menntunarsnauð á láglaunasvæði með skuldir foreldranna að arfi er þeim gert að mæta framtíð þar sem hugvitið verður veðhæft og fólksfjölgun ekki fyrirsjáanleg til að dreifa byrðunum. Haldið þið, sem nú eruð foreldrar og stjórnið þessum ákvörðunum, að börn þessa lands muni hugsa hlýlega til ykkar og vel um ykkur fyrir þessa klípu sem þið eruð að sníða þeim til íbúðar bara til þess að bjarga sjálfum ykkur fyrir næsta horn? Nei, það þarf mannúð og hugrekki til að velja og standa við framtíðarstefnu sem dugir þessari þjóð til að komast á kjöl og til lands úr þessu skuldafeni — stefnu sem tekur mið af velferð fólksins en ekki hagsýslunnar fyrst og fremst.

Þessi ríkisstj. hefur ekki reynst þeim vanda vaxin, en slíka stefnu á þjóðin skilið. Velferð þjóðarinnar byggist m. a. á því að hin mjúku gildi eigi aðgang að því að ákveða forgangsröðina. Þess vegna þurfa þau að komast að í ríkara mæli. Ég vísa í því sambandi til þeirra hugmynda sem Kvennalistinn bar fram til uppfyllingar á hinu margumrædda gati. Við getum komist út úr þeim efnahagsvanda sem við eigum við að stríða, en ekki með þeim ráðum sem í boði eru. Þau ráð eru einungis um stundarsakir og ala af sér enn meiri vanda. Þess vegna þurfum við nú ný ráð og nýja stefnu.