08.11.1983
Sameinað þing: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

29. mál, stjórn á fiskveiðum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er þá einu sinni tekið til við að ræða sjávarútveg, sem betur fer, og er ekki of mikið að því gert. Ég geri hins vegar ráð fyrir að nú á næstunni átti sig fleiri og fleiri á því í þjóðfélaginu að allir Íslendingar lifa á fiski með einum eða öðrum hætti.

Hitt er svo annað mál að þegar maður les þessa þáltill. frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, fyrrv. hæstv. sjútvrh., er maður ekki miklu nær og raunar erfitt að skilja tillgr. sjálfa. Þarna er í rauninni ekki verið að benda á neinar leiðir heldur einungis verið að óska eftir hugmyndum. Það er það eina sem ég sé út úr þessari till.- grein. Auk þess eru ýmis hugtök í henni hvergi skýrð og alls ekki í grg. Hvað er átt við með veiðileyfastjórn? Er átt við að selja eigi hverjum útgerðarmanni eða útgerðarfyrirtæki veiðileyfi? Ég veit það ekki, það stendur hvergi.

Ég er ansi hræddur um að ef farið verður út í það að selja veiðileyfi, þá eigi einstaklingar afar erfitt um vik að bjóða í slíkt. Það eru þá ekki nema mjög miklar samsteypur eins og Sambandið eða stærstu útgerðarfyrirtækin sem geta leyft sér að kaupa veiðileyfi einhverju verði. Það er afar óæskilegt ef hinn almenni útgerðarmaður á að kaupa veiðileyfi, ég tala nú ekki um ef sjávarútveginum verður boðið upp á þau skilyrði sem honum hefur verið boðið upp á til margra ára, þar sem sjávarútvegsmálunum hefur verið illa stjórnað og þessir atvinnuvegir hafa verið látnir líða mörg undanfarin ár, og undanfarnar ríkisstj. virðast ekkert hafa skilið í þessum hlutum. Það er hin hörmulega staðreynd. Þess vegna er ástandið þannig hjá útgerðinni í landinu.

En hvernig haldið þið að það sé þá með einstaka útgerðarmenn sem eiga að kaupa veiðileyfi? Hvaðan eiga þeir að taka þessa peninga? Það þýðir í rauninni ekkert annað en að þeir fjármunir sem fara í veiðileyfi bætast við útgerðarkostnaðinn. Þá er auðvitað dregið fyrst og fremst af mannskapnum. Þið þurfið ekkert að ímynda ykkur annað, það er auðvitað alveg ljóst, en þar er nóg komið.

Í þessari till. er auðvitað ekki margt bitastætt en ýmislegt af alls konar fullyrðingum og eðlilega nokkrum skömmum um aðra, sem farið hafa með þessa hluti. En ég er sammála núv. hæstv. sjútvrh. um að við eigum ekki að beina kröftum okkar að því að finna sökudólga, eins og hann orðaði það í ræðu sinni á Akureyri um daginn, heldur verðum við að horfast í augu við ákaflega erfið vandamál í sjávarútvegi nú á næstu mánuðum og jafnvel árum. Ég kann hins vegar afar illa við óvandaða fullyrðingasemi eins og kemur fram í grg. þar sem ein mgr. er ósköp einfaldlega fjögur orð, þar sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson og hans félagar segja að „erfiðleikarnir í íslenskum sjávarútvegi séu sjálfskapaðir.“ Þetta er býsna mikil og gróf fullyrðing.

Auðvitað höfum við kallað yfir okkur vandræði með ýmsum hætti, með offjárfestingu í fiskiskipum. En menn skyldu bara ekki halda að offjárfestingin sé eingöngu í fiskiskipum. Hún er auðvitað miklu meiri og verri í atvinnuvegum sem ekkert af sér gefa, svo að þessir herramenn ættu ekki að hafa hátt um þessa hluti og gleyma allri yfirfjárfestingunni í landinu í atvinnugreinum sem lítið gefa af sér og þjóðin lifir ekki á. (JBH: Sjálfskaparvíti — já eða nei?)

Ég sagði, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sem virðist ekki heyra neitt nema í sjálfum sér, að hluti af þessu væri auðvitað sjálfskaparvíti, og ég var byrjaður að telja það upp og ég nenni ekki að halda því áfram. En þessi vandamál eru ekki öll sjálfskaparvíti. Það er ekki nema að hluta til því að þetta eru auðvitað lifandi dýr sem verið er að veiða og ástand þeirra stofna, sem við sækjum í, hefur versnað, ekki einungis vegna ofveiði heldur vegna ástandsins í sjónum, vegna ætisskorts, vegna lægra hitastigs o.s.frv., o.s.frv. Þetta er auðvitað ekki sjálfskaparvíti og þýðir ekki að nudda þessari ríkisstj. sem nú er nýsest að völdum, upp úr þessu. Hún á auðvitað enga sök á því. Og vonandi tekst henni að leysa þessi mál, og vonandi betur heldur en fyrrv. ríkisstjórnum því þar var hugsað um allt aðra hluti.

Herra forseti. Mér finnst líka afar slæmt ef menn fullyrða að gæðum framleiðstu okkar í sjávarútvegi hafi hrakað. Sumt hefur farið miður og hægt að benda á ýmsa galla. En ég tel að á mörgum mjög mikilvægum sviðum okkar framleiðslu hafi hún batnað og m.a.s. stórkostlega, sem betur fer. Ég veit ekki hvar við værum staddir annars. Við höfum átt í mjög miklum erfiðleikum í sjávarútvegi, það hefur verið erfitt að selja afurðir okkar, greiðslur komið seint þó allur peningurinn sé borgaður strax út, og mánuðum og árum saman legið með birgðir í landinu með allt of háum afurðalánavöxtum. Við höfum átt í erfiðleikum með að selja altan þann karfa sem við veiðum nú allt of grimmt. Karfastofninn hefur verið ofveiddur talsvert á annan áratug. Og það er mjög hættulegt mál, þó menn hafi skýrsluna um þorskstofninn nú skulu menn huga að karfanum. Það er ekki hægt að sækja í hann endalaust. Og hann er að því leytinu til öðruvísi en þorskurinn að hann fæðir lifandi unga og eignast þar með auðvitað miklu færri afkvæmi í raun. Og hann verður ekki kynþroska 6–7 ára eins og þorskurinn, ekki fyrr en 14–15 ára. Og ef við göngum of nálægt svo hægvöxnum fiski, þá getur það kostað það að við getum ekki veitt hér karfa kannske áratugum saman. Þetta er mjög vandmeðfarið í þessari stöðu, og ég veit satt að segja ekki hvernig á að leysa öll þessi hrikalegu mál. Ég vona hins vegar að hæstv. sjútvrh. takist með annarra manna aðstoð, að reyna að finna þær lausnir sem hægt er að brúka. En þar er ekki um auðugan garð að gresja, það er ljóst.

Ég hef verið talsmaður þess í mörg ár að við ættum að taka upp kvóta á skip. Á það hefur ekki verið hlustað. Við höfum haft hér hvern ráðh. á fætur öðrum í sjávarútvegsmálum sem er kominn að vestan þar sem eru hörðustu andstæðingar kvótaskiptingar á skip sem fyrirfinnast í þessu landi. Hins vegar eru það mjög margir aflamenn allt í kringum landið sem sjá auðvitað skynsemina í því að skipta aflanum á skip. Það má auðvitað gera með ýmsum hætti, og það er síður en svo auðvelt. Það er ákaflega erfitt eins og hæstv. ráðh. sagði. Það er ekkert auðhlaupið að því. En það er bara nauðsynlegt, og menn verða að horfast í augu við það. Og jafnvel þó að skammta þurfi þessum þetta og annar fái ekki neitt þá eru bara engir aðrir kostir til. Til þess eru stjórnmálamenn að taka ákvarðanir þó óþægilegar séu. Ekki væri ég mikið hræddur við það.

Við höfum nefnilega reynslu af því að veiða ýmsar fisktegundir með þessari aðferð, að skipta kvóta á skip. Við gerðum það á nótaveiðinni á síld. Það hefur tekist vel og allir eru ánægðir. Menn vita fyrirfram hvað þeir fá. Þeir geta farið á sjó þegar veðrið er sæmilegt og þurfa ekkert að hreyfa sín skip fyrr en göngurnar eru komnar á æskilega staði. Ef menn nota skynsemina geta þeir sparað gífurlega í útgerðarkostnaði og ekki þurft að láta mannskapinn hanga yfir því að veiða þessi 500 tonn á einum eða tveimur mánuðum, heldur bara taka það þegar það er best. Varla er hægt að telja upp allt það hagræði sem er fólgið í því að hafa kvóta á skip: Sparnaður í veiðartærum, sparnaður í olíu o.s.frv., o.s.frv. Það má telja mjög marga þætti. Þetta gerum við líka í loðnunni. Þar völdu menn þann kostinn að skipta takmörkuðum heildarafla með kvóta á skip. Og það var mjög sanngjarnt og sanngjarnlega að því staðið að því leyti til að stærstu skipin fengu leyfi til þess að veiða meira en hin með hliðsjón af rekstrarkostnaði þeirra og útgerðarkostnaði. Loðnukvótanum var skipt þannig að helmingurinn af loðnuaflanum skiptist jafnt á hvert einasta skip smátt og stórt, 50 skip. Hinum helmingnum var skipt eftir burðargetu, og fór þar nokkurn veginn saman að þeir fengu heldur meira sem þurftu að fá heldur meira. Þetta var einnig gert nú, að vísu er mismunurinn minnkaður, og ég get ekki lagt neinn dóm á það, en hefur auðvitað heyrst býsna mikið í mönnum sem hafa orðið að láta sér nægja heldur minna. Þetta er réttmæt tilraun. Ég segi fyrir mig að ég tel rétt að gera það svona, a.m.k. nú og sjá hvernig það kemur út.

Við höfum haft heildarkvóta á humarveiðum og rækjuveiðum. Og menn hafa þurft að sækja um veiðileyfi, til þess að fá að stunda loðnuveiðar, og leyfi til þess að fá að veiða síld og leyfi til þess að fá að veiða humar og rækju og skel. Menn hafa líka þurft að sækja um leyfi til þess að stunda þorskanetaveiðar sem var mjög skynsamlegt. Eins og við vitum þá hefur verið mikið rætt um að setja leyfi á togveiðar. Það hefur ekki fengist fram. Menn voru að tala um að einhverjir og einhverjir sjútvrh. mundu misnota það. Ég er ekkert hræddur um það. En ég tel nauðsynlegt að menn þurfi einnig að sækja um leyfi til þess að veiða með botnvörpu, þó ekki væri nema til þess að í veiðileyfin verði sett ákveðin skilyrði, sem menn þurfa að fara eftir. Í sambandi við þorskanetaveiðarnar þá mega menn ekki vera með nema svo og svo mörg net og haga sér á þennan veginn eða hinn. Ef menn brjóta það má hirða af þeim veiðileyfin, sem hefði átt að gera fyrir löngu við marga báta og láta þá bara hafa það. (Gripið fram í: Og af hverju er það ekki gert?) Það veit ég ekki. Linkindin er mikil.

Það verður nefnilega að stjórna hlutunum. Það þýðir ekkert að vera að láta einhvern kunningsskap eða einhver allt önnur sjónarmið ráða í þeim efnum. Það á bara að setja þarna reglur og fara eftir þeim og ganga eftir því, svo ég noti orðbragð Jóns Baldvins. hv. þm., að þessi skilyrði séu haldin.

Á sama hátt held ég að það væri mjög heppilegt að setja inn í veiðileyfi togveiðiskipa ýmislegt sem varðar ýmiss konar svindlaðferðir í sambandi við togveiðar. (JBH: Hvað er það helst?) Það er nú ýmislegt. Menn leyfa sér að vera með kannske heldur smáa möskva sums staðar, sem gengið er frá með ýmsum hætti, og slíkt ætti auðvitað algjörlega að útiloka með stífu eftirliti. Ef við hefðum einhverja stofnun sem hefði einhvern mannsbrag á sér til þess að sinna þessu verkefni hefði það ekki komið fyrir að menn væru með klædda poka o.s.frv.

Því þorskurinn sem veiðist er meir en nægilega smár. Það hefur komið fyrir hér á vertíðum að togararnir hafa komið með þorsk í land heilu mánuðina og heilu vertíðarnar þar sem meðalþyngdin á hverju þorskkvikindi var 1200 grömm. Þetta er auðvitað alveg ofboðsleg rányrkja. Hvað þyngist þessi fiskur ef hann fær að lifa eitt ár í viðbót? Hann meira en tvöfaldar sína þyngd, 100% vextir eða hvað á að kalla það — í raunverulegum gjaldmiðli, því að eins og menn vita þá eru peningaseðlar auðvitað einskis virði. Þeir eru aðeins þess virði hversu mörg grömm af fiski standa á móti hverri krónu.

Ég er auðvitað alveg sammála hæstv. sjútvrh. í fleiri atriðum og óþarfi að tína það til út af fyrir sig. En ég hef einnig í mörg ár talað um það hér úr þessum ræðustóli og annars staðar að við þyrftum að nýta kolastofnana. Það eru ýmsar tegundir af kola, sem eru vel ætar, hér í kringum landið. Og það er m.a.s. ein tegund af kola sem hreint fæst ekki í neitt veiðarfæri sem leyfilegt er að brúka, því að þannig er nú með þykkvalúruna okkar að hún hefur þá hæfileika að geta lagt sig saman og smeygt sér í gegnum 155 mm möskvana sem leyft er að nota til veiða á togveiðum. Ég tel að einnig ætti að leyfa að veiða sólkolann eða þykkvalúruna, í troll. Troll er besta veiðarfærið sem til er. Og þegar menn hafa leyfi til þess að veiða þar sem nóg er af kola á þeim tíma sem hann er í bestu ástandi og verðmestu, þá er hægt að gefa mönnum leyfi til þess undir beinu eftirliti. Og þá á ég hreinlega við að maður sé um borð í þessum skipum, og þá á launum hjá útgerðinni að sjálfsögðu, ekki ríkinu. Það mundu flestir þiggja það því að þetta er geysilega verðmætt hráefni, en er nú verðlagt einkennilega lágt hér á Íslandi þegar það kemur hér á land. Og því miður hefur það verið svo að mismunandi verð hefur verið á kola, ekki eftir því hvort hann hefur verið góður eða vondur, heldur eftir því í hvaða veiðarfæri hann fékkst. Það er margt skrýtið í þessum efnum og rétt að benda hæstv. sjútvrh. á þetta ef hann veit það ekki. Auðvitað á að kaupa kolann við því verði, sem hann er réttilega metinn á, eftir gæðum, en ekki eftir því hvort hann er drepinn með einum sérstökum hætti fremur en öðrum. Það er mikið af þessum kola til og öðrum kola við landið. Og hingað til hefur því miður ekki verið nægilega mikil áhugi á að stunda dragnótaveiðar.

En þegar að þrengir þarf að leggja sig eftir fleiri tegundum sem geta gefið einhverja peninga, því ekki veitir okkur af. Við vitum það að fáum við ekki að veiða nema 200 þús. tonn af þorski, þá er það auðvitað skelfilegt ástand. Þorskafli minnkar um 50% frá því á síðasta ári. Á árinu 1981 veiddum við 470 þús. tonn, en 200 þús. á næsta ári. Það þýðir það að 60 fiskar af hverjum 100 eru horfnir. Það munar um minna. Og ekki bætum við það upp með landbúnaðarframleiðslunni sem er þeim mun dýrari sem framleitt er meira af henni. Því miður. (EgJ: Þú skalt nú ekki rugla þessu saman.) Það þarf að greiða með henni, búfræðingur góður, hv. þm. Egill Jónsson. (Gripið fram í.) Ég ræði þetta ekki hérna, ég nefni ekki þessa hluti í sama orðinu, það er ekki hægt að líkja því neitt saman.

Undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, sem hún lifir öll á, er nú illa á sig kominn og ekki von til þess að mínum dómi að það sé hægt að bæta kjör landsmanna mikið meðan þannig stendur á. Menn geta haldið um það miklar ræður, en þær eru einskis virði.

Herra forseti. Auðvitað væri það gott að fá tækifæri til þess að ræða þessa hluti og þá ekki einungis hér úr ræðustóli, það hefur yfirleitt lítið áunnist fyrir það að menn hafi haldið hér ræðu úr stólnum. Þetta eru verkefni, sem margir menn þurfa að leggjast á eitt um að leysa og þá ekki í þessum rifrildistóni eða skamma eða með óhæfitegri fullyrðingasemi. heldur einungis til þess að eiga kost á því að geta leyst þessi mál á sem bestan hátt. Ég vil, herra forseti, með leyfi lesa hér og gera þau orð að mínum, úr ræðu hæstv. sjútvrh. sem hann flutti á Akureyri, þar sem hann segir:

„Eitt er þó víst, að það eina rétta í þeim sporum sem við nú stöndum, er að leita allra leiða til að veiða þann fisk sem við teljum skynsamlegt að veiða með sem minnstum tilkostnaði og meðhöndla hann þannig að hæsta mögulegt verð fáist fyrir á markaði.“