11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5763 í B-deild Alþingistíðinda. (5081)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef ákveðið að segja hér örfá orð um það frv. sem liggur fyrir deildinni. Mér er vissulega ljóst að ýmsar greinar þessa frv. grípa inn á félagslega þætti og við vildum gjarnan vera í þeirri stöðu með ríkissjóð að þurfa ekki að framkvæma slíka hluti. Engu að síður er þar um ærna nauðsyn að ræða. Aftur á móti vil ég gera hér að umræðuefni 25. gr. þessa frv. Það væri hollt fyrir þdm. að gera sér grein fyrir hverjar væru afleiðingarnar ef hún yrði framkvæmd.

Þessi grein er heimildargrein á þann veg að Seðlabanki Íslands eigi að fá heimild að fengnu samþykki ríkisstj. til að ákveða allt að 10% sveigjanlega bindiskyldu innlánsstofnana til viðbótar þeirri bindiskyldu sem heimiluð er í 31. gr. laga nr. 13/1979. Í grg. með frv. kemur það skýrt fram að hér er ekki átt við 10% af þeirri bindiskyldu sem fyrir er, heldur 10% bindiskyldu af öllum inniánum, þ. e. það er aukning upp á mikið meira en 10%. Okkur er tjáð að haft verði samráð við þingflokka áður en ríkisstj. heimili Seðlabankanum þetta. Verði slíkt samráð með eðlilegum hætti hlýtur að þurfa að kalla þingflokkana saman. Og komi til þess ástands sem ríkisstj. talar hér um þá er engum vandkvæðum bundið að gefa út brbl. til að framkvæma þetta ef þörf krefði. Aftur á móti eru engar líkur til þess að það sé skynsamlegt að fara í aðgerð sem þessa. Og ég hef tjáð forsrh. að ég muni greiða atkv. gegn þessari grein í frv.

Í fyrsta lagi er hér um mjög grófa aukningu á miðstýringu í íslensku þjóðfélagi að ræða. Það er verið að hampa Seðlabankanum til aukinna afskipta af íslenskum fjármálum. Ég vil minna á það að Seðlabankinn er fremur ung stofnun í þeirri mynd sem hann er í íslensku þjóðlífi og þann tíma sem hann hefur verið við lýði hefur aðalverðbólgan verið á Íslandi. Ég er ekki að segja að hún sé jafngömul Seðlabankanum. Hún er eldri. En hún var hreinir smámunir áður en hann kom til sögunnar. Ég vil halda því fram að ef þetta yrði framkvæmt væri það vísasti vegurinn til að skapa kreppu í íslensku þjóðfélagi. Það gæti orðið til að gera peningastofnanir gjaldþrota. En örugglega færi svo, ef þetta yrði framkvæmt, að mörgum einstaklingum og hinum smærri fyrirtækjum yrði veitt allharkaleg aðför, því vissulega mundi bankakerfið bregðast við á þann hátt að innkalla með jafnmiklum hraða og það gæti það fjármagn sem væri í útlánum. Og í ljósi þess að í grg. kemur fram að í marslok er staða innlánsstofnana við Seðlabankann neikvæð um 1029 millj., þá má hverjum manni ljóst vera að það fyrsta sem gerðist með beitingu ákvæða sem þessara væri stórgróði hjá Seðlabankanum í refsivöxtum af öllum innlánsstofnunum í landinu, stórgróði. Ég fæ ekki séð að það sé nein nauðsyn að veita honum aðstöðu til slíks stórgróða.

Ég er sannfærður um það að beiting þessa mundi skapa öngþveiti. Og mér er spurn í því sambandi: Telja menn ekki að það hefði verið skynsamlegra að taka á kreditkortamálinu með lagasetningu, setja þar reglur um hvaða vörur væri heimilt að kaupa með kreditkortum og draga þannig úr fjárstreymi í umferð, í stað þess að fara þá leið að ætla Seðlabankanum að grípa þarna inn í?

Ég vil vekja á því athygli að vissulega kemur fram í þessum orðum mínum dálítið sérstætt mat á styrkleika milli ríkisstj. og Seðlabanka. Fljótt á litið hvarflar sjálfsagt ekki að nokkrum manni annað en að ríkisstj. hafi Seðlabankann algerlega í hendi sér. Svo er þó ekki ef nánar er að gáð. Með lögum frá Alþingi er Seðlabankanum ættað meira sjálfstæði en nokkurri annarri stofnun sem þó er í eigu íslenska ríkisins. Og ég hef orðið vitni að því í gegnum tíðina að ráðherrar hafa ekki komið fram þeirri stefnu sem þeir hafa viljað halda á lofti í samskiptum síns atvinnuvegar, sem þeim var trúað fyrir, við Seðlabankann. Mér þykir einsýnt að ríkisstj. þurfi mjög oft að leita eftir góðu veðri við þessa stofnun. Þess vegna er ég algerlega andvígur því að ríkisstj. fái þá heimild sem hér er beðið um. Ég óttast það mjög að niðurstaðan verði sú, að einhvern tíma á tímabilinu gerist það að ríkisstj. þurfi á Seðlabankanum að halda og Seðlabankinn óski eftir því að þessi heimild verði afgreidd til hans til þess að geta tryggt það m. a. að nægilegt gull liggi fyrir til byggingaframkvæmdanna sem nú eru að rísa við Arnarhól.

Eitt er víst, að mér er ekki kunnugt um einn einasta bankastjóra ekki einn einasta bankastjóra í viðskiptabönkunum sem hefur mælt með því að þetta yrði gert. Mér er ekki kunnugt um einn einasta sparisjóðsstjóra sem hefur mælt með því. Ég vildi vekja athygli þd. á þessu og einnig með mínum ræðuflutningi nú auðvelda það við nafnakall um þessa grein að geta vísað til þess sem ég hafði sagt hér í umr. um málið.