11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5765 í B-deild Alþingistíðinda. (5082)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hygg að það sé ekki ofmælt að hv. 5. þm. Vestf. hafi hér haldið eina af sínum merkari ræðum, þar sem hann skilgreindi það valdatafl sem á sér stað milli Seðlabanka og hæstv. ríkisstj. Greinilegt er að hann hefur lagt nokkra hugsun í það mál undanfarið og ég fagna afstöðu hans til þeirrar greinar sem hann fjallaði hér um áðan.

Það var einhvern tíma sagt að allir vegir lægju til Rómarborgar. Ég hygg að það megi heimfæra þetta máltæki upp á íslenskar aðstæður í dag og segja með nokkrum rétti að allir vegir liggi nú til Seðlabankans. Þangað á að streyma inn aukið fjármagn á sama tíma og sá banki hefur inni umsóknir um að lækka hlutfall afurðalána. Þetta skyldi maður þó halda að hefði verið óþarfi þar sem forráðamenn þeirrar stofnunar hafa lýst yfir í fjölmiðlum að þar verði nú til peningar í stórum stíl, inni í þessari sömu stofnun. Maður hefði því haldið að það væri óþarft að bæta þar á. En Seðlabankanum er þó nokkur vorkunn því að hann hefur fleiri ómaga á sínu framfæri en byggingu þá sem hann er að reisa. Hann er með hæstv. fjmrh. þjóðarinnar á framfæri sínu, sem safnar þar skuldum í gríð og erg, og til viðbótar við gabbróhöllina gæti ég trúað að eitthvað af þeim fjármunum sem þannig á að ná inn í Seðlabankann eigi að ganga til þess að fjármagna hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs hjá viðkomandi stofnun.

Herra forseti. Mál það sem hér er annars til umr. hefur manna á meðal þessa dagana gengið undir nafninu „bandormurinn“. Reyndar var það orðhagur maður á fundi í Þingeyjarsýslum sem taldi sönnu nær að kalla þetta hringorm með tilvísan til þess gats sem þessum frumburði er hér ætlað að fylla upp í. Mér hefur þó dottið í hug að erfðafræðilega sé þetta barn skyldara lyngorminum sem fjallað er um í fornum sögum. Hann hafði þá náttúru að ef hann var lagður á gull þá óx hann og dafnaði og varð að feikilegri ófreskju á stuttum tíma. Þessi lyngormur er þó að því leyti ólíkur hinum sögufræga að hann er ekki jafnvandur að undirstöðu. Honum nægir það glópagull sem þessi ríkisstj. á nóg af til að dafna vel.

Það má einnig segja, herra forseti, að þessi bandormur sé einhvers konar dóttursonur raunhæfustu fjárlaga aldarinnar sem fjallað var um hér á hv. Alþingi fyrir jól. Hann er eins konar sonur raunhæfustu lánsfjáráætlunar aldarinnar sem hér var til umr. nokkru síðar. Það má segja að tímgunin á þessum krógum hæstv. ríkisstj. sé ör. Þessi bandormur er annars eitthvert alvarlegasta mál sem rekið hefur á fjörur hæstv. ríkisstj. nú á síðustu mánuðum, fyrir utan e. t. v. mangó-, jógó-, kókómálið sem enn er óuppgert. En kannske kemur botn í það þegar bandormurinn verður orðinn að lögum.

Ég ætla að víkja, herra forseti, að einum þremur greinum sérstaklega og bæta þar nokkru við sem aðrir hv. þm. úr minni hl. hafa hér um fjallað. Í fyrsta lagi vil ég fjalla um þá lækkun á niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum, sem hér er boðuð, upp á einar 180 millj. kr. Það er mín skoðun að þar sé ákaflega rangt að hlutunum farið. Hæstv. forsrh., sem hér er reyndar ekki lengur til að hlýða á okkur, lýsti því hér við hvaða vandamál væri að glíma í sambandi við útflutning á landbúnaðarafurðum. Þó er það alveg ljóst að þrátt fyrir þessa vitneskju sína er hæstv. forsrh. með þessum ráðstöfunum, sem hann hefur mælt fyrir, að vísa á aukinn útflutning á landbúnaðarafurðum, þó síðar verði, því að lækkaðar niðurgreiðslur munu óhjákvæmilega leiða til minni neyslu innanlands. Með þessu er sem sagt verið að færa fjármagn frá niðurgreiðslum, sem koma íslenskum neytendum til góða, yfir í útflutningsbætur þótt síðar verði. Með tilliti til stöðu landbúnaðarins um þessar mundir tel ég þetta ákaflega óskynsamlega ráðstöfun og skal láta lokið umfjöllun minni um það.

Annað atriði í þessu frv., till. sem snertir landbúnaðinn sérstaklega, er sú sérkennilega ráðstöfun sem hv. 3. þm. Reykv. fjallaði hér nokkuð ítarlega um, að færa 600 millj. kr. eða þar um bil yfir í ríkissjóð úr kjarnfóðursjóði. Þetta er gert með því að skýra þetta gjald upp á nýtt, leggja það á sömu tollskrárnúmer og kjarnfóðurgjaldið hefur áður verið lagt á. Síðan koma loðnar yfirlýsingar um að kjarnfóðurgjaldið verði lækkað sem þessu svarar. Þessi sérkennilega lagakreppa virðist eingöngu framin í þeim tilgangi að losna við þau ákvæði í lögum og reglugerð sem gilda um kjarnfóðursjóð. Þar segir nefnilega skýrt og skorinort að fjármuni úr kjarnfóðursjóði megi þá og því aðeins nota til útflutningsbóta, að þær komi til viðbótar þeim 10% sem lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins gera ráð fyrir. Með því að taka þetta fjármagn og skíra það öðru nafni og láta það renna beint í ríkissjóð hliðrar ríkisstj. sér hjá þessu ákvæði og þar með er henni þetta fjármagn laust til ráðstöfunar á þennan hátt. Síðan hefur hæstv. landbrh., sem hér er ekki heldur til að hlusta á umr., um þetta mál látið það frá sér fara í fjölmiðlum, að hann hafi uppi í ríkisstj. tillögugerð um að taka mikla fjármuni úr þessum sama kjarnfóðursjóði til að greiða niður áburðarverð, eða allt að 80 millj. kr. til að lækka það um 23%. Þar með er nokkurn veginn upp urinn sá sjóður, sem bændur hafa myndað með því að greiða álögur á fóðurblöndur og hráefni í fóðurblöndur, til annarra verkefna en þeim sjóði var í upphafi ætlað að standa fyrir, sem var að draga úr hinni hefðbundnu landbúnaðarvöruframleiðslu. Það stefnir m. ö. o. í það að hæstv. ríkisstj. noti sjóðinn allan á þessu ári til annarra verkefna en hann var upphaflega settur á stofn fyrir. Og þegar þannig verður komið, að í honum verður ekkert fjármagn til að standa fyrir þeim verkefnum, þá leyfi ég mér að spyrja: Er það alveg víst að staðið verði við fyrirheitin um að fella niður kjarnfóðurgjald sem svarar þeim skatti sem hér er lagður á undir öðru nafni? Það væri ákaflega æskilegt að hæstv. ríkisstj. fengist til að svara því hér við þessa umr.

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur hér verið spurður spurninga sem hann hefur ekki enn svarað. Er það miður því að ég ætla að fjalla hér nokkuð um eina gr. enn í þessu frv., þá er lýtur að lækkun námslána. Eins og þetta stendur í 2. gr. frv. virðist ætlun hæstv. ríkisstj. að skerða námslán á næsta hausti fram að áramótum um a. m. k. 35% miðað við það þó að einungis hefðu verið greidd 95% á þessu ári. Það er dálítið sérkennilegt að í sömu umr. og um þetta frv. er fjallað skuli hæstv. forsrh. koma hér í þennan virðulega ræðustól kokhraustur mjög og setja á fjálgar ræðu um það að nú eigi að virkja hugvit og menntun þjóðarinnar í æðri iðnaði, háþróuðum tækniiðnaði, lífefnaiðnaði og rafeindaiðnaði og öðru slíku. Ekki er ég að lasta þau ágætu fyrirtæki sem þegar eru til í landinu. En hverjar heldur t. d. hæstv. forsrh. að séu taldar af þeim sem til þekkja forsendur þess að við náum að sækja eitthvað fram í þessum efnum? Það eru allir sammála um það, sem til þekkja, að forsendur þess að lífefnaiðnaður t. d. verði sá vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi, sem hann sennilega getur orðið, séu rannsóknir, séu hámenntað fólk til að leiða þær rannsóknir og þróa þar framleiðsluaðferðir. Er þetta aðferð hæstv. ríkisstj. til þess að fá það fólk, þessi atlaga að Lánasjóði ísl. námsmanna og að menntakerfi þjóðarinnar almennt? Það er reyndar farið alla leið ofan í grunnskóla þessa dagana. Með hnúum og hnjám er þjarmað að menntakerfi þjóðarinnar á sama tíma og menn setja á fjálgar ræður norður á Akureyri eða hér í þessum virðulega ræðustól um það að nú skuli virkja hugvit og menntun þjóðarinnar.

Það er ekki mikið samræmi, herra forseti, að mínu mati í þessum ræðuhöldum. Og vísa svo til þess aðspurður að komin séu upp fyrirtæki í landinu, eitt á Ísafirði sem heitir víst Póllinn, annað er norður á Akureyri og heitir Áróra. Ég er ekki að lasta það ágæta fólk sem þar hefur drifið upp fyrirtæki og er að reyna að byrja í þessum efnum. En það dregur skammt og við förum í þveröfuga átt með þessum aðgerðum miðað við allar aðrar þjóðir, sem leggja um þessar mundir mikla áherslu á að mennta sitt fólk í þessum tæknigreinum, til þess að verða í framtíðinni samkeppnisfærar við aðra aðila í þessum efnum.

Sú aðför að Lánasjóði ísl. námsmanna sem hér er fyrirætluð er að mínu mati mjög alvarleg. Það er í fyrsta lagi um alvarlega stefnubreytingu að ræða, stefnubreytingu frá því að reyna að afla fjár til að standa við ákveðið hlutfall af framfærsluþörf námsmanna heima og erlendis á hverju ári. Nú á hins vegar að hafa þetta þannig, að það fjármagn sem ríkisstj. þóknast í það og það sinn að skaffa skuli duga námsmönnum. Það verður oftar að mínu mati, því miður, hart í ári hjá Íslendingum en nú og það eiga sennilega, því miður, eftir að sitja jafnkaldrifjaðar ríkisstjórnir og þessi oftar á Íslandi. Þá er það ekki vænleg leið að hafa þessa skipan á.

Það er óþolandi öryggisleysi fyrir það fólk sem þegar er komið í nám, á grundvelli ákveðinnar löggjafar um þá stofnun sem það ættar að eiga sína framfærslu undir, að fá síðan allt í einu og óforvarandis yfir sig slíka lagabreytingu sem kippir grundveltinum undan framtíð þess. Ég sé fyrir mér hvernig ástandið verður í haust hjá mörgum fjölskyldum námsmanna á Norðurlöndum, fjölskyldufólki sem ekki á þess kost að koma hingað heim til að vinna fyrir sér í sumar og ekki fær, vegna atvinnuástandsins á Norðurtöndum, vinnu á Norðurlöndum. Engu að síður liggur það fyrir skv. upplýsingum Lánasjóðsins að þetta fólk muni ekki eiga kost á sumarlánum til sinnar framfærslu eins og verið hefur þó undanfarin ár. Þetta liggur fyrir, þannig að þegar íhaldsframsóknardúsan kemur í haust, hvort sem hún verður 59%, 62% eða hvað sem það nú verður, þá verður þetta fólk margt hvert búið að vera tekjulaust í 11/2–21/2 mánuð, vegna þess að Lánasjóður ísl. námsmanna hefur lýst því yfir að hann muni ekki veita þeim sumarlán sem ekki stunda reglubundið nám og skila inn einingum í sumar. Staðan er hins vegar þannig hjá því fólki sem hefur stutt sumarleyfi, og ekki gengur þá að mjög vel launuðum störfum hér heima, að því er einfaldlega ekki fært að koma hingað heim. Þess bíður því í flestum tilfellum ekkert annað en atvinnuleysisskráin erlendis.

Miðað við það ástand sem var hjá námsmönnum víða úti í löndum í haust, þegar dráttur varð á veitingu námslána sem nam nokkrum vikum, óttast é að ástandið verði mjög alvarlegt í haust sem kemur. Ég sé það alveg fyrir mér að fjöldinn allur af námsfólki hlýtur að hugsa sig um tvisvar áður en hann heldur út fyrir landsteinana, áður en hann hleypir heimdraganum, ef hann má eiga von á því í framtíðinni að svona verði að málunum búið og á jafn gerræðislegan hátt verði vegið að samkomulagi námsmanna og ríkisvalds eins og hér á að gera.

Ég ætla að minna hér á það, herra forseti, einu sinni enn, sem ég hef oft gert í umfjöllun um Lánasjóð ísl. námsmanna, að það náðist ákveðið samkomulag milli fulltrúa námsmanna, allra námsmannahreyfinga í landinu, sambands ísl. námsmanna erlendis, Sambands sérskólanema og Stúdentaráðs Háskóla Íslands, það náðist samkomulag milli þessara aðila og ríkisvaldsins um ákveðna tilhögun og ákveðna lagasetningu um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta samkomulag hefur fram á síðasta ár verið haldið. Það fólst í því að endurgreiðslureglur lánanna voru mikið hertar, umreikningur á tekjum var aukinn og fleira í þeim dúr gegn því að lánin yrðu hækkuð í áföngum upp í 100% umframfjárþarfar námsmanna. Þetta samkomulag hefur þessi ríkisstj, enn þá einu sinni með þessum ráðstöfunum rofið og mjög harkalega. Ef þetta er ekki stríðsyfirlýsing við námsmenn í landinu, þá veit ég ekki hvað er það. Reyndar er það mín skoðun að með þessum bandormi veifi hæstv. ríkisstj. enn þá einu sinni rauðri dulu framan í fjölmenna hópa í þjóðfélaginu, framan í bændur, framan í launamenn, framan í námsmenn, framan í sjómenn og framan í marga fleiri sem eftir að þessar ráðstafanir verða að lögum munu eiga um sárt að binda. En það er þó alveg morgunljóst eftir lestur þessa frv., eins og ónefndur ríkisstarfsmaður gæti orðað það, að þessi ríkisstj. er enn við sama heygarðshornið. Hún stendur enn við sama heygarðshornið og hún var að norpa við í maí s. l. eins og útigangstryppi í roki. Munurinn er bara sá, að nú hafa hæstv. ráðherrar tvístrast það mikið að þeir hafa ekki lengur skjól né yl hver af öðrum.