11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5777 í B-deild Alþingistíðinda. (5087)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hún gaf hér áðan. Ég skildi hana svo að hugsanlegt væri að halda sig jafnvel við það hlutfall umframfjárþarfar sem er um að ræða á fyrri hluta þessa árs eftir að gerðar hefðu verið breytingar á lánareglum Lánasjóðs ísl. námsmanna og eftir að tekið hefði verið tillit til breytinga á fjölda námsmanna og verðlagsbreytinga. Allavega skildi ég hæstv. ráðh. svo að hún geri ekki ráð fyrir því að lánshlutfall fari niður í 60%. Fyrr mætti nú kannske vera. En engu að síður er ástæða til að þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör vegna þess að þau hafa örlítið skýrt það mál sem hér er um að ræða.

Vafalaust verða hins vegar málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna hér á dagskrá síðar og ætla ég ekki að fara frekar út í þau hér að sinni. Hæstv. ráðh. gaf hins vegar ekki yfirlýsingu um það, eins og ég fór fram á við hana, að heimildin um sameiningu bekkjardeilda í 7., 8. og 9. bekk yrði því aðeins notuð að samþykki viðkomandi skólayfirvalda lægi fyrir. Í gr. eins og hún hljóðar í till. meiri hl. fjh.- og viðskn. er gert ráð fyrir því að sameining bekkjardeilda eigi að gerast að höfðu samráði við skólayfirvöld á viðkomandi stöðum. Á þessu er auðvitað grundvallarmunur, hvort um er að ræða samráð eða samþykki í þessu efni, og það var bersýnilegt að hæstv. ráðh. treysti sér ekki til að gefa það svar sem ég óskaði eftir. Það hlýtur að benda til þess að menntmrn. ætli sér að knýja þessa breytingu fram með góðu eða illu þegar hausta tekur og farið verður að undirbúa skólana fyrir árið 1984–1985.

Ég ætla ekki að eyða orðum að umr. hæstv. menntmrh. um það að námsmenn ættu að lifa á því hvað ríkisstj. væri góð í landinu. Ég er þeirrar skoðunar reyndar að ríkisstj. sé ákaflega hættuleg bæði fyrir námsmenn og aðra landsmenn. Ég held því að það sé útilokað fyrir hæstv. menntmrh. að ætla sér að smyrja á lág námslán með því að gefa yfirlýsingar um það hvað sú ríkisstj. sé góð sem hún sjálf situr í.

Það atriði sem ég vildi ræða við hæstv. forsrh. snertir sjúkradagpeninga. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir að það mætti gjarnan standa þannig að þessu að lækkun sjúkradagpeninga kæmi aðeins fram gagnvart atvinnurekendum en ekki ungu verkafólki, námsmönnum og húsmæðrum. Þá vil ég rifja það upp að hér fyrr í dag benti ég á að þessa grein má framkvæma þannig, ef heilbr.- og trmrh. ákveður það, að hún snertir ekki þessa þrjá hópa láglaunafólks einfaldlega með því að hæstv. heilbr.- og trmrh. gefi út reglugerð í þessu efni og hæstv. fjmrh. samþykki að veita fé til framkvæmdar á henni. Þess vegna er út af fyrir sig ekki nauðsynlegt að lögunum verði breytt til að hlífa þessum láglaunahópum, ef svona yfirlýsing frá ráðherrum eða ríkisstj. liggur fyrir. Ég vil beina því til hæstv. forsrh. að hann beiti sér fyrir því að þessum hópum, húsmæðrum, námsfólki og ungu verkafólki, verði hlíft við þessari skerðingu á sjúkradagpeningum og að hann lýsi því yfir hér áður en 2. eða 3. umr. lýkur að svo verði gert.

Hæstv. forsrh. fór hér nokkrum orðum um landbúnaðarmál og vék þar tali sínu aðeins að mér en einnig hv. 3. þm. Reykn. Ég vil aðeins rifja það upp sem ég sagði um landbúnaðarmál hér áðan. Það var einfaldlega þetta: Bændur hafa á undanförnum árum tekið á sig tekjuskerðingu, samdrátt í sinni framleiðslu, til þess að laga framleiðsluna að innanlandsmarkaðinum og draga úr útflutningsbótaþörf. Þegar það hefur verið gert, þá er komin í landinu ríkisstj. sem hefur skorið kaupmáttinn svo mikið niður að birgðavandinn í landbúnaðinum er jafnmikill eða meiri en hann var þegar bændur í landinu lögðu af stað við að skera niður sínar tekjur. Það er þetta sem ég var hér að segja. Það er þetta grundvallaratriði sem ríkisstj. virðist ekki hafa áttað sig á, að það er bein fylgni á milli launa almenns verkafólks í landinu annars vegar og hins vegar kjara bænda. Ríkisstj. Framsfl. hélt að það væri hægt að rústa kaupmáttinn í landinu án þess að það kæmi nokkurs staðar niður. Hvað er að gerast? Birgðir í landbúnaðinum hlaðast upp meiri en nokkru sinni fyrr, halli á ríkissjóði er meiri en nokkru sinni fyrr. Af hverju er þetta? M. a. vegna þess að ríkisstj. hefur skorið kaupgetu almennings niður. Það er auðvitað ekki hægt að skera kaupgetuna niður öðruvísi en það komi einhvers staðar við. Niðurskurður kaupgetunnar og árás á verkalýðshreyfinguna er núna að koma niður á bændastéttinni í landinu. Það er það sem Framsfl. verður að skilja, að það er ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur. En það skilur hann bersýnilega ekki og heldur ekki hæstv. forsrh.

Það kom ekkert fram, því miður í ræðu hæstv. forsrh. sem svar við spurningum mínum um 680 millj. kr. erlenda lántöku til Framkvæmdastofnunar ríkisins annað en almenn orð, sem í rauninni höfðu áður legið fyrir og ekki áttu við um þær sérstöku 150 millj. til nýsköpunar í atvinnulífinu, hvernig þær ætti að nota. Ég tel að í þessum efnum þyrfti eftirfarandi að liggja fyrir áður en málið fer út úr þinginu: Fara þessir peningar t. d. í gegnum Iðnlánasjóð? Eða er meiningin að þeir fari kannske í gegnum hendurnar á ríkisstj.? Eða er meiningin að þeir fari í gegnum Byggðasjóð? Hvar eiga þessir peningar að fara út í þjóðfélagið? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að ríkisstj. geri glögga grein fyrir því hvernig hún ætlar sér að láta fara með þessa fjármuni til þeirra verka sem hún hefur lýst yfir að þeirra eigi að njóta.

Ég ætla ekki að endurtaka það fyrir hæstv. forsrh., nýkominn manninn, sem ég sagði um bindiskylduna og afurðalánin. Ég held þó að vert sé að ítreka þær setningar að um árabil hafa legið á borðum ráðh. tillögur frá Seðlabankanum um að lækka afurðalán atvinnuveganna. Og jafnmargar ríkisstjórnir hafa í jafnmörg ár verið staðráðnar í að hafa þær tillögur seðlabankans að engu. Þangað til þessi stjórn kemur. Hún er svo háð Seðlabankanum vegna sukks síns í ríkisfjármálum að hún þorir ekki annað en gera það sem Seðlabankinn heimtar af henni, m. a. það að skera niður afurðalánin til atvinnuveganna og afhenda atvinnufyrirtækin, m. a. í dreifbýtinu, geðþóttavaldi bankastjóra viðskiptabankanna í stórauknum mæli. Ég undrast það að þessi ríkisstj. skuli hugsa sér að framkvæma þessar tillögur sem alltaf hefur verið hent á dyr í ríkisstjórnum undanfarinna ára. Ég undrast það. Það sýnir kannske betur en allt annað hvað þessi ríkisstj. er háð markaðslögmálunum. Hún ætlar sér að láta markaðslögmálin ráða þarna í einu og öllu. Það er það sem verið er að gera. Og á sama tíma og þessum skyldum er létt af Seðlabankanum á að auka bindinguna um 10% Hvers konar ráðslag er þetta eiginlega? Hvað segja þeir hv. þm. sem tengjast viðskiptabönkunum, hv. þm. Friðjón Þórðarson, Stefán Valgeirsson og fleiri og fleiri, sem hér sitja í þingsalnum? Ætla menn að láta rúlla þarna yfir sig eða ætla menn að rísa upp og neita að samþykkja Þessa endileysu eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson munu gera? Það er algjörlega ástæðulaust fyrir þm. að láta bjóða sér svona vinnubrögð af hálfu Seðlabankans, að menn sitji hér eins og sjálfvirk vélmenni við færiband Seðlabankans að afgreiða hvað eina sem honum dettur í hug. Það hefur engin ríkisstj. eða þingmeirihluti fyrr látið bjóða sér önnur eins ósköp og þessa endileysu í peninga- og lánsfjármálum sem boðið er upp á í þessu frv.

Ég ætla ekki að eyða hér lengri tíma, herra forseti, enda hafði verið um það talað að við reyndum að tala stutt og gera í sem gleggstu máli grein fyrir okkar skoðunum. Ég vona að við þá samninga verði staðið sem þingflokkarnir hafa gert um meðferð mála og læt máli mínu lokið. Ég vænti þess að svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram og óskir um gögn sem ég hef borið fram verði teknar til greina og þær komi fram annaðhvort hér við 2. eða 3. umr. ellegar þá við lokameðferð málsins í Ed. Auk þess hafði ég borið fram nokkrar fsp. til hæstv. fjmrh. sem mér þætti vænt um að hann svaraði hér. Síðan bar ég fram eina fsp. til hv. 1. þm. Suðurl. Hann er hlaupinn út, hann hefur verið á flótta í þessu máli öllu. Kannske hann sé farinn út á Seltjarnarnes eins og varaformaðurinn. Ég er ekkert að telja hér upp frekar. Það er bersýnilegt að hann vill ekki gangast við neinu, situr hér eins og handaruppréttingarvél á eftir fyrir ríkisstj. þegar málið verður tekið til meðferðar. Það er mikil reisn yfir því leiðtogahlutverki.