11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5779 í B-deild Alþingistíðinda. (5088)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt til að svara spurningu hv. þm. Ég ætla ekki að deila við hann um þessi mál. Ég sé ekki ástæðu til þess. Við getum gert það á öðrum vettvangi, þegar tími er betri, t. d. um fullyrðingar hans um að ríkisstj. hafi skert kjörin o. s. frv., náttúrlega hrein endileysa.

En út af þessu með 150 milljónirnar vil ég upplýsa að því verður öllu ráðstafað í gegnum sjóði að sjálfsögðu. Mér datt satt að segja ekki í hug að hv. þm. héldi að við hefðum einhvern þann hátt á sem hann kann að hafa haft í sínum ráðuneytum. Því verður ráðstafað í gegnum þá sjóði sem hafa með viðkomandi málefni að gera. Stofnlánadeildin hefur t. d. með fiskeldi að gera en gera þarf vissar breytingar á reglum Stofnlánadeildar áður en það kemur að fullum notum að úthluta fénu þar í gegn. Í Iðnlánasjóðnum fer að sjálfsögðu það fé sem fer til iðnaðar eins og reglur um hann gera ráð fyrir.

Ég vil því fullvissa hv. þm. um það, að ríkisstj. mun ekki sjálf úthluta þessu fé heldur setja reglur um það að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, eins og ég lýsti hér áðan.