11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5779 í B-deild Alþingistíðinda. (5089)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með þessa umræðu málsins. Við nm. í fjh.- og viðskn. gengum eftir því að fá upplýsingar um mjög margar greinar þessa máls, t. d. 1. gr., þar sem lýst er heimild til sparnaðar, hvernig ætti að verja fé til nýsköpunar í atvinnumálum, hvernig ætti að veita 150 millj. í sambandi við skipasmíðaiðnað, um endurreisn skipasmíðastöðvanna. Um þetta hafa ekki komið neinar bitastæðar upplýsingar. Og manni er spurn hvað menn hafi verið að gera hér í allan vetur, að velta þessum ormi milli handanna, koma síðan hér og flagga tölum upp á hundruð milljóna, sem þeir eru að afla sér heimilda til að taka í erlendum lánum, og vita ekki neitt hvað þeir ætla að gera við það. Þetta minnir óneitanlega á síðustu umr. hér í þinginu um ábyrgar aðgerðir í efnahagsmálum sem voru, ef ég man rétt, lánsfjárlög. Þar var hampað fskj., lausum tölum upp á hundruð milljóna, og það er svona eina ferðina enn.

Það er augljóst að ríkisstj. hefur ekki neinar tillögur í atvinnumálum. Það er talað um einhverja óskilgreinda framtíðarsýn nýsköpunar og hátækniþróunar á sama tíma og verið er að skera niður menntakerfið í landinu. Og þessu eiga menn að trúa. Þetta er náttúrlega undirrótin að hinni frægu Seltjarnarnesyfirlýsingu varaformannsins þar sem lýst er gjaldþroti ríkisstj. Þetta er það sem aðstandendur hans kannske harma, að á því eina ári sem liðið er síðan Morgunblaðið birti fyrirsögnina um ágreiningsmálin, sem stjórnarmyndunarviðræðurnar fyrri slitnuðu út af, á þessu eina ári hefur nákvæmlega ekki neitt gerst í því að komast að einhverri niðurstöðu í kerfisbreytingum eða efnahagsmálum. Það þýðir lítið að koma hér í stól og flagga einhverjum viljayfirlýsingum. Við erum búin að heyra nóg af svona viljayfirlýsingum í vetur og heimildum til að spara og heimildum til að gera hitt og þetta.

Ég geri hér aðeins að umtalsefni hvað leyndist á bak við sakleysislegar greinar í þessu frv., t. d. í 12. gr., þar sem nokkrar skammstafanir og tölustafir og tilvísanir í lög þýða það að foreldrar barna, sem þurfa á tannréttingameðferð að halda, verða að greiða á tveggja ára tímabili, vegna minni hlutdeildar opinberra aðila, allt að 20 þús. kr. við eina tannréttingaaðgerð. Þetta jafngildir nokkurn veginn miðað við ráðstöfunarfé verkamanns einum mánaðarlaunum hvort árið, sem viðkomandi þarf að greiða bara í aukinn kostnað. Fyrir er 20 þús. kr. hlutdeild hans eins og nú er. Þetta þýðir aðrar tæpar 20 þús. kr. í viðbót. Svona sannleikur leynist á bak við þessar sakleysislegu greinar ýmsar. Maður veltir fyrir sér og það er kannske ástæða til að spyrja ríkisstj. hvort menn hafi gert sér grein fyrir þessum tölum þegar þeir sömdu þessar greinar. A. m. k. gekk okkur í n. mjög illa að fá þessar upplýsingar út úr hinni margfrægu meðaltalamaskínu sem stendur á bak við öll efnahagsmálin í þessu landi. Á endanum þurfti reyndar ekki nema eitt einfalt símtal til að hringja í sérfræðing í tannlækningum og spyrja hvað svona meðferð kostar.

Við erum að tala þarna um tæplega 20 þús. kr. hækkun, eða nánar tiltekið úr 17 500 kr. upp í 35 000 kr., til að rétta tanngarða í barni sem þarf þeirrar aðgerðar með af læknisfræðilegum ástæðum en ekki fegurðarlegum. Þetta er aðeins dæmi um það sjónarmið sem lýsir sér ágætlega þegar menn annaðhvort eru að tala um meðaltölin eða um heildarupphæðirnar. Ég man ekki nákvæmlega hvernig orð féllu hér áðan en hæstv. forsrh. var að tala um það sem sparaðist við þessar breytingar á tannréttingarreglum og sagði eitthvað á þá leið að það væri kannske ágætt að það breyttist ekki um nema 16 milljónir, áætlaður sparnaður lækkaði úr 50 milljónum eins og sagt var í grg. niður í 16 millj. Það væru þá greinilega ekki eins miklir peningar sem úr þessu væru teknir. 16 milljónir segja okkur ekki neitt. En 20 þús. kr. fyrir þann sem í þessu lendir segir okkur eitthvað.