08.11.1983
Sameinað þing: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

29. mál, stjórn á fiskveiðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög stóru máli og má segja sem svo, að það er ekki um stefnumörkun í því að ræða á annan veg en þann að leggja til að kosin verði sjö manna nefnd sem fái það hlutverk að leita eftir samráði við sjómenn, útvegsmenn og fiskvinnsluaðila. Einhverra hluta vegna hefur það nú fallið niður að taka þar með verkafólk í landi, sem hlýtur náttúrlega að vera einn af þeim hagsmunahópum sem verður að ræða við ef þessi mál eru tekin fyrir. (Gripið fram í.) Það má vera að það sé þannig hugsað hjá flm. að það falli undir það hugtak. Hins vegar er ekki rétt að deila um það.

En ég vil vekja athygli á þeirri sérstæðu stöðu sem þessar umr. eru í. Það er búið að dreifa til einhverra þm., e.t.v. allra, mér er ekki kunnugt um það, skýrslu sem merkt er trúnaðarmál. Það er skýrsla um hafrannsóknir, um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og aflahorfur 1983. Nú hefur það gerst að hér í ræðustól hefur flm. þessarar þáltill. tekið niðurstöðu úr skýrslunni og flutt hana inn á Alþingi á sama tíma og okkur hefur ekki verið gerð grein fyrir því af þeim sem afhenti þessa skýrslu hvort það að hún sé trúnaðarmál sé niður fellt eða hvort heimilt sé að ræða efni skýrslunnar. (KJóh: Ég var að fá skýrsluna núna. Heimildirnar voru úr Morgunblaðinu.)

Spurningin er ekki sú hvaðan hv. flm. hefur fengið heimildirnar, heldur hitt, hvort mér sem þm. sé heimilt að taka hér fyrir til umr. efni úr þessari skýrslu meðan hún er merkt sem trúnaðarmál. (HÁ: Þér er það heimilt.) Mér er það heimilt, segir sjútvrh. Það var vel að málfrelsi á þessu sviði er tekið upp.

Það kemur nefnilega í ljós að Hafrannsóknastofnun setur mjög stóra fyrirvara fyrir sínum tillöguflutningi. Þar er fyrst til að taka að þeir gagnrýna þá aðferð sem þeir sjálfir hafa notað á undanförnum árum, svokallaða VP-greiningu, og telja að einn aðalgalli hennar sé sá að hún geri engan greinarmun á því hvort um þorsk frá Grænlandi sé að ræða eða þorsk af Íslandsmiðum. Þeir setja þetta fram sem galla á þessari greiningaraðferð þegar stofnmat á þorskstofninum við landið er tekið fyrir. Þeir tala aftur á móti um að það séu fyrst og fremst tvær aðferðir sem mælt sé með að séu notaðar. Önnur aðferðin eru svokallaðar bergmálsmælingar, sem ekki eru viðhafðar hér á landi, og stofnmælingar með botnvörpu, sem mér skilst að hafi verið reyndar í fyrsta skipti á þessu ári.

Það vekur fyrst spurningu hvort það séu eðlileg vinnubrögð, þegar skipt er um vísindalega rannsóknaraðferð, að skipta yfir án þess að fyrri aðferðin sé notuð til samanburðar visst árabil í leit að misvísun milli þessara tveggja aðferða. Ég vil til gamans geta þess, að þegar ég var vestur á fjörðum núna um helgina, þá spurði ég skipstjóra hvað hann teldi um veiðimöguleika á þorski á Halamiðum. Hann svaraði því til: Við vitum ekki í dag hvernig ástandið er vegna þess að veður hefur verið þannig að menn hafa ekki getað athafnað sig að neinu gagni á þessum miðum.

Þess vegna vekur það undrun mína og vildi ég gjarnan fá það upplýst, hvernig þeim sem tóku þessar stofnmælingar með botnvörpu gekk að athafna sig á þessum tíma, og hverjar voru þá veiðar íslenska togaraflotans sem var á veiðum á e.t.v. svipuðum slóðum.

Ég vil geta þess að í þessari skýrslu kemur það fram að á vetrarvertíð við Suðvesturland hafi göngur frá Græniandi yfirleitt haft mjög mikil áhrif á það hversu vel veiddist. Þegar verið er að tala um 200 þús. tonn, þá er gengið út frá því að það komi ekki ein einasta branda frá Græniandi. Nú veit ég ekki til að varnargarður hafi verið hlaðinn á milli landanna og vekur því undrun á hvaða forsendum þessu er slegið föstu. Jú, það kemur fram hjá þeim að þeir vilja fá að skoða það raunverulega á miðju ári, eftir vetrarvertíð, hvort þetta er rétt eða rangt, hvort það eigi að veiða meira eða minna.

En í skýrslunni kemur fram að hér við land var stofninn frá 1976 mikil uppistaða á seinustu vetrarvertíð. Það kemur einnig fram að árgangurinn frá 1977 er talinn mjög öflugur við Grænland og fiskifræðingar telja að annaðhvort komi hann á Íslandsmið á vertíðinni í vetur eða næsta vetur. Ég hygg þess vegna að það sé ákaflega hæpið að slita úr samhengi umræðuna á þann veg sem fjölmiðlar hafa gert. Þeir hafa aðeins varpað fram hugmyndinni: 200 þús. tonn æskilegur afli, en ekki gert neina grein fyrir þeim fyrirvörum sem eru í skýrslunni. Og ég vil leyfa mér með leyfi forseta að lesa hér upp ákveðin atriði, þar sem beinlínis er minnst á þessa hluti á bls. 8. Annars má segja að þetta sé tekið mjög víða úr skýrslunni:

„Þær niðurstöður sem nú liggja fyrir um ástand stofnsins benda til þess að þessu markmiði verði ekki náð nema með því að takmarka þorskafla á næsta ári við um 200 þús. tonn.“ þ.e. markmiðinu að auka afrakstur þorskstofnsins í náinni framtíð. Svo kemur hér strax á eftir: „Það skal tekið fram að tölur um stærð hrygningarstofns og afla hrygningarfisks á vetrarvertíð suðvestanlands eru háðar göngum frá Grænlandi. Í þessum dæmum er ekki gert ráð fyrir neinum göngum þaðan. Hins vegar er vitað að við Vestur-Grænland er nú að verða kynþroska stór árgangur, sem e.t.v. mun leita að hluta til á Íslandsmið, jafnvel á næstu vetrarvertíð. Þetta er árgangurinn 1977. Sýndu seiðarannsóknir á sínum tíma að brot af klakinu hér við land það ár barst yfir til Grænlands. Með tilliti til þessa og niðurstaðna úr rannsóknarleiðangri stofnunarinnar í mars og apríl á næsta ári, svo og gangi veiðanna á næstu vetrarvertíð, mun Hafrannsóknastofnunin gera nýja úttekt á stofninum í vertíðarlok og taka tillöguna um aflahámark 1984 til endurskoðunar þá“, sem sagt á miðju ári.

Ég vil vissulega að við hlustum og virðum öll sjónarmið sem frá fiskifræðingum koma sem vísindalegar tillögur af þeirra hálfu. Hitt hlýtur að vera ákaflega vafasamt, hvort það sé réttlætanlegt að koma hér upp í ræðustól og halda því fram að við megum veiða 200 þús. tonn af þorski á næsta ári, skipta því svo jafnt á milli togara og báta og segja að afkastageta hvers togara, veiðigetan sé um 4 þús. tonn og ef við reiknum svo dæmið áfram, þá þýðir það að 25 togarar ættu að klára sig af því að veiða þessi 100. Ef við höldum svo áfram með kenninguna, þá blasir það við að við hljótum að spyrja: Er þá verið að leggja til að það eigi að binda þessa 75 sem eru þá eftir? Og spurningin, ef við höldum áfram: Á hagnaðurinn af veiðileyfunum að vera nægilegur til að borga kostnaðinn af því að geyma þá bundna við bryggju? En þetta er út af fyrir sig ekki það sem hlýtur að vera hin eðlilega umfjöllun um þessa hluti.

Ég tel að í allri umr. um fiskveiðar á Íslandi hljótum við að horfa á það mjög ákveðið, hvort aflinn berst á land svo jafnt yfir alla mánuði ársins að verkafólk í landi geti unnið aflann eðlilega og atvinnuöryggi þess sé tryggt. Það verður því eins gert, ef menn hugleiða að setja upp einhvern vísi að kvótakerfi, að slíkt sé bundið við ákveðin byggðarlög, aflamagnið sé bundið við ákveðið byggðarlag, að þessi staður eigi rétt til hafsins hringinn í kringum landið til að fá ákveðið magn af þessum fiski á land til vinnslu. Allar hugmyndir um að hægt sé eftir öðrum leiðum að tryggja atvinnuöryggi í landinu, eigi að taka upp kvótakerfi, fá ekki staðist að mínu viti.

Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður þess, að kvótakerfi leysi vanda okkar á sviði sjávarútvegs. Mér sýnist aftur á móti að gera þurfi mjög mikið átak til að bæta gæði þess afla sem kemur á land. Og mér er til efs að það verði gert nema því eins að með veiðileyfum sé hægt að stíga það örlagaskref að svipta menn rétti til veiða dálítinn tíma, ef þeir gerast brotlegir, margbrotlegir á því sviði að koma með óhæfan fisk að landi. Og það verður að segjast eins og er, að því eins er einhver vitræn stjórn á veiðum hér við land að við náum því markmiði, sem óneitanlega var höfuðtilgangurinn með því að auka togaraflota landsmanna, að atvinnuöryggi fólksins í landi, sem vinnur í þessari grein, sé hliðstætt og hjá öðrum þegnum þessa lands.