11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5781 í B-deild Alþingistíðinda. (5090)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. bar fram eina spurningu til mín, varðandi 1. gr. í I kafla, um skiptingu á 370 millj. til lækkunar ríkisútgjalda á milli ráðuneyta. Ég hef því miður ekki frekari skiptingu en kemur fram á bls. 9 í frv., í aths. við einstakar gr. frv., þar sem þessum 370 millj. er deilt niður á ráðuneytin. En að sjálfsögðu eru þetta tölur sem hafa verið mjög vel athugaðar af hverjum ráðherra, upphæðir sem hver og einn hefur treyst sér til að leggja út í að spara á sínu sviði. Ég vil nú meina að ekki sé bein ástæða til að sundurliða þetta frekar fyrr en vitað er hvort frv. nær fram að ganga. Þegar það hefur hlotið samþykkt verða þessar tötur endanlega unnar. Á þessu stigi get ég því ekki svarað þessu öðruvísi.

Það er ekki margt sem hefur komið fram í ræðum sem ég hef hlustað á í dag. Því miður var ég um tíma upptekinn í þingdeild vegna annarra mála. En eitt er það sem hefur ekki breyst frá því ég hlustaði síðast á hv. 3. þm. Reykv. og næst síðast og þar áður og þar áður, og svona gæti maður haldið áfram. Ræðan er alltaf sama platan. Það er áróðursplata gegn ríkisstj. Hún skal, hvernig sem hún stendur sterk, þá skal hún vera veik. Fólk skal trúa því að í ríkisstj. séu vondir menn sem vinni að því að knésetja verkalýðinn. Talsmaður verkalýðsins, sem sér bolann í ríkisstj., hann, horfðu vel, hann skal berja inn, eins og sagt var um frægan erlendan stjórnmálamann. Bara endurtaka nógu oft, þá endar það með því að fólkið fer að frúa því. (Gripið fram í.) En ég get hryggt hv. þm. með því að fullvissa hann um það, að það er ekki bilbugur til á ríkisstj. Og ég endurtek það sem ég hef sagt hér áður, að með öllum þeim áróðursbrögðum sem Alþb.-menn hafa lært víða um veröld tekst þeim ekki að koma fleyg í milli ráðherranna. Hvernig sem hann notar þá ræðu sem hann hefur vitnað hér í og haldin var rétt utan við borgarmörkin fyrir nokkrum dögum, það er allt annað mál. En Sjálfstfl. er jafneinhuga og samstæður og samstilltur og þegar hann kaus þessa menn í forustu. Það má hv. þm. vita. Það er enginn bilbugur á ríkisstj. né heldur Sjálfstfl. eða vandamálum milli flokkanna.

En annað skulum við líka vera ásáttir um: að Framsfl. og Sjálfstfl. í samstarfi í ríkisstj. verða aldrei einn og sami flokkur. Þeir hafa hvor um sig sínar hugsjónir, þeir eru frjálsir eins og hver einstaklingur innan flokksins og verða aldrei í þeim klafa sem Alþb. og þeirra hugsjónir setja á menn og hlekkja.