11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5781 í B-deild Alþingistíðinda. (5091)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. fjmrh. að það er enginn bilbugur á vandamálunum milli stjórnarflokkanna eins og hann sagði hér áðan. En erindi mitt í ræðustól var nú ekki að elta ólar við þessa síðustu ræðu, sem við hlýddum af hálfu hæstv. fjmrh., sem hefur „demonstrerað“ svo eftirminnilega hvernig menn fara að því að verða vinir litla mannsins með því að auka útgjöld við það að fara til læknis, við það að fá framkvæmda rannsókn, eða við það að fá notið tannlækninga. En hvað um það. Það er hans aðferð við að vera vinur litla mannsins.

Mitt erindi hingað núna var það, að ég bar fram fsp. varðandi 15. gr. þessa frv. um greiðslu á tannlækningum elli- og örorkulífeyrisþega, hér fyrr við umr. um þetta mál. Hæstv. forsrh. svaraði henni að hluta til og sagði að það væri ekki hugmyndin að skerða greiðslur til langlegusjúklinga ellegar til vangefinna. En eftir stendur að í gr. stendur að fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta a. m. k. hálfrar tekjutryggingar, skuli greiða 75%. Aðferðin hefur verið sú fram að þessu að ef menn hafa haft einhverja tekjutryggingu, hvort sem hún hefur náð þessum helmingi eða ekki, þá hafa menn notið þess að 75% væru greiddar. Ef þetta lagafrv. verður afgreitt með þeim hætti sem orðalagið er hér, þá er greinilega verið að skerða greiðslur til hluta þeirra sem njóta tekjutryggingar. Og það er ómögulegt, eftir þær upplýsingar sem við höfum hlustað hér á af hálfu ríkisstj. og hæstv. forsrh. um að það sé ekki hugmyndin, að láta þetta mál svona frá sér fara. Það er ekki nokkur lifandi vegur. Forsrh. segir að það sé hugmynd ríkisstj. að skerða þetta ekki. En ef þetta verður afgreitt með því orðalagi sem hér er erum við bundnir af því að það sé vilji Alþingis að einungis þeir sem njóta a. m. k. hálfrar tekjutryggingar fái 75%. Og þá er greinilega um skerðingu að ræða. Hér hlýtur að vera um handvamm í vinnubrögðum að ræða sem verður að leiðrétta. Ég geri afdráttarlausa kröfu til þess að þetta verði leiðrétt. Þingið getur ekki verið þekkt fyrir það að lýsa því yfir í öðru orðinu að það ætli sér enga skerðingu en afgreiða síðan lagafrv. sem er með skerðingu. Það þarf ekki meira en fella hér nokkur orð úr.

Þessu til viðbótar vil ég ítreka þá ósk, sem ég lagði fram hér fyrr, um að það misrétti verði leiðrétt sem viðgengst í þjóðfélaginu annars vegar milli þeirra sem njóta tekjutryggingar og hins vegar hinna, sem afla sér einhverra smáaura eða hafa greitt í lífeyrissjóð og eru þess vegna með tekjur sem eru jafnháar þeim sem njóta tekjutryggingar, að þeir njóti jafnréttis á við hina. Því þeir hafa nákvæmlega sama framfærslulífeyri. En þetta kemur aftur og aftur fyrir í lögum, sem eru hér til umfjöllunar, að mönnum er skipað í tvo bekki eftir því hvort þeir þiggja tekjutrygginguna eða hvort þeir fá hluta af sínum ellilífeyristekjum frá lífeyrissjóði vegna þess að þeir vinni smávegis. Ef þeir eru í seinni flokknum og vinna eitthvað smávegis eða hafa greitt í lífeyrissjóð og lagt það á sig, þá eru þeir settir á óæðri bekk og ríkið vill ekki taka þátt í kostnaðinum. Þetta hvort tveggja tel ég að við eigum að leiðrétta í þessari meðferð málsins.

Ég óska eftir því að fjh.- og viðskn. þessarar deildar, sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar, setjist á rökstóla milli umræðna til að taka afstöðu til þessara atriða. Þetta er það sem ég vildi gera að umræðuefni, herra forseti, og ég ítreka ósk mína um það að n. verði kölluð saman til að fjalla um þetta í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir.