11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5782 í B-deild Alþingistíðinda. (5092)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nú komið fram á þann tíma þegar menn taka sér venjulega kvöldskatt og ég skal ekki ganga um of á hann. En vegna hjartnæmrar ræðu sem hæstv. menntmrh. flutti hér áðan um námslán og námsstyrki vil ég bæta við örlitlu.

Ég er alveg sammála hæstv. menntmrh. þjóðarinnar um það, að námsmenn hafa fullan skilning á því hvað ríkisstj. er að gera þessa dagana. Ég er alveg sannfærður um það. Hann er ofurlítið misjafn. Ég veit það að Vökudrengirnir uppi í Háskóla skilja þessar ráðstafanir ofurlítið öðruvísi en hinn almenni námsmaður, en hann er ekki í nokkrum vafa hinn almenni námsmaður sem hæstv. menntmrh. vitnaði hér í. Hann getur ekki misskilið það þegar kjör hans eru skert á einu bretti um ein 35%, eða svo getur a. m. k. farið. Það mun ekki misskiljast. Þetta gáfaða og glæsta fólk þjóðarinnar, sem er nú í námi vítt og breitt um heiminn og á að taka við hinum háþróaða iðnaði og hvers hugvit á að virkja af hæstv. forsrh., það hlýtur að skilja svona einfaldan hlut. Ég dreg það ekki í efa. Ég vil minna á það að spár Lánasjóðsins um aukningu, þ. e. hinn aukna fjölda lántaka sem verða mun á næsta ári, eru í mikilli óvissu nú vegna þess að almennt efnahagsástand í landinu mun auðvitað endurspeglast í lánsþörfinni á næsta hausti og það verður ekki fyrr að fullu komin fram sú mikla lífskjaraskerðing sem gengið hefur yfir þjóðina. Það er mín spá að hún verði ekki að fullu komin fram að þessu leyti fyrr en einmitt næsta haust, þegar ég óttast að stóraukinn hluti námsmanna muni þurfa á þessari aðstoð að halda og það sárlega. Þess vegna held ég að fagrar vonir hæstv. menntmrh. um að þetta kunni nú ekki að verða svo alvarlegt séu því miður ekki á rökum reistar, því miður ekki.

Ef menn vilja tryggja þetta, þá er einfaldasta ráðstöfunin sú að binda sig við ákveðið hlutfall af framfærslunni, eins og þetta hefur verið undanfarin ár. Ég verð að segja hér sem mína skoðun að ég hefði talið það skárra ef hæstv. ríkisstj. hefði komið hreint til dyranna og lækkað lánshlutfallið nú. Hún hefði bara gefið það út að hún treysti sér ekki til þess að útvega meira fjármagn en sem svaraði, já, segjum 80%. Ég hefði talið það heppilegri ráðstöfun og heiðarlegri að hún hefði gert það og gert hreint fyrir sínum dyrum, heldur en að fara svona að þessu, að skilja menn eftir í algerri óvissu um það hvernig kjörum þeirra verður háttað á næsta hausti. Það sem er kannske siðferðilega verst við þessa ráðstöfun er að gera þetta svona á miðju ári, vegna þess að þá bitnar þetta af fullum þunga á síðasta hluta ársins. Það er þegar að verða búið að lána allt það sem lánað verður á þessu vori. Þeir peningar eru þegar farnir út úr Lánasjóði ísl. námsmanna þannig að svigrúmið, sem hæstv. menntmrh. talar um til að breyta úthlutunarreglum, er auðvitað einungis fyrir hendi hjá þeim hluta sem fær lán næsta haust. Það verður engu um það breytt sem þegar er búið að gera í þessum efnum.

Ég vil að lokum, herra forseti, vegna þess að ég minnist einbeittrar afstöðu hæstv. forseta á sumri er leið, þegar líka var gerð aðför að Lánasjóði ísl. námsmanna, ég vildi gjarnan fá að heyra álit hæstv. forseta, ef hann gæti fengið aðstoðarmenn sína til að leysa sig af smástund, á þessum ráðstöfunum. Ég minnist með ánægju eindreginnar framgöngu hæstv. forseta í hliðstæðum málum á sumri er leið, þar sem hæstv. núv. forseti kom fram sem góður talsmaður þeirra sjónarmiða sem liggja að baki Lánasjóði ísl. námsmanna, þeirra sjónarmiða að tryggja öllum námsmönnum jafnrétti til náms. Einhvern veginn segir mér svo hugur um að það verði ekki með mikilli ánægju sem hæstv. forseti réttir upp höndina til að samþykkja þetta frv. sem hér um ræðir.