11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5785 í B-deild Alþingistíðinda. (5098)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég geri fyrirvara í þessu máli vegna forsögu þess. Það kom fram við könnun þessa máls í hv. fjh.- og viðskn. að sú upphæð sem hér er farið fram á ábyrgð fyrir á sér ákveðnar rætur í fortíðinni og það má leiða að því nokkuð gild rök að þennan hata hafi fyrirtækið dregið á eftir sér vegna viðskipta við fyrirtækið Iscargo og svokallaðs Iscargopakka sem Arnarflug keypti á sínum tíma. Mér virðast þau viðskipti hafa verið afar óhagkvæm og óeðlileg fyrir Arnarflug. Það lítur þannig út, að ef haft er í huga kaupverð fyrirtækisins Arnarflugs á svokallaðri Electravél, sem var hluti af Iscargopakkanum á sínum tíma, er þessi ábyrgð, 1.5 millj. dollara, nokkurn veginn það sem fyrirtækið hreinlega tapaði á þeim flugvélakaupum. Ég mun ekki fara lengra út í þessa forsögu, en ég gat ekki, samvisku minnar vegna, veitt þessu máli lið án þess að gera þennan fyrirvara. Ég tel að á þessum tíma hafi verið gerð mjög alvarleg mistök í sambandi við þessi mál og það hafi verið hlutast til um þau á rangan hátt. Fyrirvari minn er af þeim orsökum sprottinn.