11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5787 í B-deild Alþingistíðinda. (5105)

276. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. í 276. máli eins og það birtist á þskj. 816. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Minni hl. n. telur að þær upplýsingar, sem fram hafa komið varðandi 1. og 2. gr. frv., sýni nauðsyn þess að móta skýrar vinnureglur til að velja þá embættismenn sem kjaradómur ákveður laun.

Minni hl. leggur því til að 1. og 2. gr. ásamt ákvæði til bráðabirgða I verði felld niður, en telur að ríkisstj. eigi að beita sér fyrir því að mótuð verði vinnuregla í þessu efni.

Minni hl. leggur til að 3., 4. og 5. gr. ásamt ákvæði til bráðabirgða II verði samþykkt. Þessi lagabreyting er gerð til að fullnægja samkomulagi fjmrh. og launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM.

Minni hl. flytur brtt. á sérstöku þskj.

Kristín Halldórsdóttir, þm. Kvennalista, var viðstödd fundi n. um þetta mál og er þessu áliti samþykk.

Alþingi, 10. maí 1984.

Guðmundur Einarsson, Kjartan Jóhannsson, Svavar Gestsson.“

Brtt. eru á þskj. 817 og þær hljóða í stuttu máli þannig, að það er lagt til að 1. og 2. gr. og ákvæði til bráðabirgða I falli niður.

Þessar greinar og bráðabirgðaákvæðið eiga við þessi kjaradómsmál. Við teljum að umræður í n. og þær umsóknir sem n. bárust sýni greinilega að þörf sé á að móta þarna ákveðnar skýrar reglur vegna þess að þessi klúbbur, sem talinn er upp í frv., er ekki samkv. einsleitum reglum að okkar mati. Við teljum að það verði fyrst að móta reglurnar og þá gerist það af sjálfu sér að embættismennirnir ákvarðist.

Seinni hluti frv., þ. e. 3., 4. og 5. gr. er af allt öðrum toga. Þar er verið að uppfylla samkomulag sem launamálaráð ríkisstarfsmanna innan BHM og fjmrh. gerðu í sumar og við leggjum til að það verði samþykkt.