08.11.1983
Sameinað þing: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

29. mál, stjórn á fiskveiðum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka þann stuðning sem hefur í rauninni komið fram hjá flestum ræðumanna við þær hugmyndir sem liggja að baki þessum tillöguflutningi, þó að það hafi hent þá inn á milli að skvetta úr klaufunum, eins og sagt er og fara út fyrir efnið og tileinka sér ýmiss konar orðatiltæki sem hafa í rauninni ekkert með málið að gera.

Menn segja gjarnan, eins og hv. seinasti þm. sagði áðan, að það fari mikið í taugarnar á þeim þegar ég eða ýmsir aðrir þm. tali um offjárfestingu í sjávarútvegi. það fari í taugarnar á þeim af því að sjávarútvegurinn sé undirstaðan. En það er einmitt af því að sjávarútvegurinn er undirstaðan og af því að afkoma okkar á þessu landi í heild sinni hyggist á því að sjávarútvegurinn sé sterkur sem t.d. till. eins og þessi,. sem hér er til umr., er flutt. Það er líka á sömu forsendu sem gagnrýnin á fjárfestinguna, þegar hún fer fram úr því sem eðlilegt er, kemur fram og þegar ég held því fram að ef sjávarútvegurinn er ekki sterkur sé allt þjóðlífið veikt. Það sem við verðum fyrst og fremst að vinna að er það, að sjávarútvegurinn sé sterkur.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hafi átt sér stað óskynsamleg og of mikil fjárfesting í þessari grein á undanförnum árum. Ég er ekki einn um þá skoðun. Ég hef meira að segja eignast mjög góðan stuðningsmann í því í núv, sjútvrh. Hann segir mjög skýrt í sinni ræðu á LÍÚ-þingi að stærð skipastólsins skipti greinilega máli og talar um að eitt af vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir sé of stór floti og efnahagsörðugleikar. Og hann segir, svo að ég vitni annars staðar í ræðuna, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskiskipaflotann verður að endurnýja, en það verður að gera með skynsamlegum hætti.

Það á ekki að endurnýja bátaflotann með því að smíða litla togara, svo að dæmi sé tekið. Flotinn er hér of stór og illa árar í sjávarútvegi.“

Það kemur víðar fram að hæstv. sjútvrh. hefur áhyggjur af þessu máli. — Og ef menn eru að gagnrýna það að ég hafi gagnrýnt fortíðina, þá hef ég líka eignast liðsmann í hæstv. núv. sjútvrh. því að hann segir:

„Flotinn er áreiðanlega ekki sá hagkvæmasti sem við hefðum getað eignast.“

Það er þetta sem er áhyggjuefni. Og eitt af þeim markmiðum sem ég hef lagt til grundvallar í umr. um þessi mál og stefnumörkun er það, að stærð fiskiskipastólsins væri í sem bestu samræmi við afrakstursgetu fiskstofnanna. Þetta tel ég að sé nákvæmlega það sama og hæstv. sjútvrh. er að segja þegar hann segir:

„Höfuðatriðið er að koma á sem mestu jafnvægi milli afrakstursgetu fiskstofna og afkastagetu fiskiskipastólsins.“

En nú höfum við staðið í því undanfarið að vera með alls konar skömmtun í gangi. Hvenær lenda menn í skömmtun? Menn lenda í skömmtun þegar það sem þeir hafa til úthlutunar er minna en það sem þeir gjarnan vildu fá, minna en það sem þeir gjarnan gætu tekið. Það er þess vegna sem við hötum lent í skömmtun og í þessari skömmtun höfum við verið ekki bara seinustu árin. Þó að það verkefni, sem fram undan er, sé mjög erfitt í þessum efnum á þessi skömmtun sér langtum lengri aðdraganda, a.m.k. 5–6 ára aðdraganda. Það er þetta sem er vandamálið. Ég held að það sé alveg óþarfi fyrir okkur að vera að deila um að þessari staðreynd stöndum við frammi fyrir. Það ætti líka að vera mjög augljóst, að þó að fiskiskipastóllinn væri ekki nema einu skipi stærri en skynsamlegt er er kostnaðurinn af því skipi óþarfur. Hann er aukalega. Hann er viðbótarbyrði.

En hvað um það. Menn hafa rætt hér annars vegar um mat fiskifræðinga og hins vegar um að taka hæfilegt aflamagn. Hér verða menn að gæta að því að þetta eru tveir mismunandi hlutir. Mat fiskifræðinga er hið líffræðilega mat. Það getur verið rétt eða rangt. Það eru að vísu skástu upplýsingar sem við höfum. En markmiðið með fiskveiðistjórnuninni sjálfri hlýtur að vera að taka hæfilegt magn með sem lægstum tilkostnaði og að ná sem mestum gæðum, sem er reyndar nákvæmlega það sama og hæstv. sjútvrh. sagði á LÍÚ-þingi. Það er það verkefni sem við stöndum frammi fyrir ef við ætlum að hafa sterkan sjávarútveg.

Ég held að það sé ákaflega ófrjó umræða að velta því fyrir sér hvort hæfileg stærð skipastólsins sé þetta og þetta margir togarar eða þetta og þetta margir bátar. Ég held að aðalatriðið sé að skapa það stjórnkerfi sem stefni að hæfilegu magni. Við stöndum greinilega frammi fyrir því núna að við erum með of stóran skipastól og þess vegna þurfum við að gera takmarkandi aðgerðir.

Menn velta því líka fyrir sér, og það kom fram í máli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, hvers konar kvóti á að vera. Það er ekki nema von að menn spyrji sig þess. Það kemur fram í grg. með þáltill. að þetta geti ekki verið einfalt mál. Það er líka af þeim sökum sem við flm. till. töldum nauðsynlegt að það væri unnið í þessu máli og yrði settur á fót starfshópur eða nefnd til að vinna í málinu. Sjávarútvegsráðherrar standa frammi fyrir því annað veifið að móta fiskveiðistefnu. Þeir fá í hausinn skýrslur eins og frá Hafrannsóknastofnun núna og síðan reyna þeir að móta fiskveiðistefnu út frá því. En það veitir ekkert af að hafa samfellda vinnu í því að skoða þetta stjórnkerfi, vegna þess að málið er í rauninni aldrei rætt til hlítar.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði líka: Erum við að tala um aðrar fisktegundir en þorsk? Þessi till. er gjörsamlega opin að því er varðar allar fisktegundir. (StG: Ég sagði: Við verðum það.) Gott og vel. Við verðum það. Við verðum að vera opin fyrir stjórnkerfinu sem heild og auðvitað þá líka að því er varðar vetrarvertíð. Þetta tekur til allra veiða. Þetta er spurningin um hvernig við ætlum að hafa stjórn á veiðunum hjá okkur.

Ég hef stundum velt því fyrir mér, að ef stjórn fjárfestingarinnar hefði tekist betur hjá okkur hefðum við síður þurft að grípa til alls konar skömmtunaraðgerða eins og við höfum þurft að gera, þannig að eftir að menn hafa lent í þeim sporum sem þeir eru í núna þá verða slíkar skömmtunaraðgerðir eiginlega óumflýjanlegar. En sú till. sem hér er flutt er opin að þessu leytinu, að menn setji í gang raunverulega vinnu, fyrst og fremst með það að augnamiði að ná góðri stjórn á þessari atvinnugrein þannig að hún geti verið sterk.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði hér nokkuð að umtalsefni innflutning skipa á undanförnum árum og vildi reikna fjölda skipa á ráðherradaga mismunandi ráðh. Ég er þeirrar skoðunar, að innflutningur á togurum og stórefling fiskiskipastólsins, t.d. í ráðherratíð Lúðvíks Jósepssonar og framan af í tíð Matthíasar Bjarnasonar, hafi verið nauðsynleg og rétt stefna. Ég held að síðan höfum við gjörsamlega misst tök á þessu. (Gripið fram í: Hvenær töpuðust tökin? Í ráðherratíð hvers?) Ég held að allar götur frá því á seinni hluta ráðherratíðar Matthíasar Bjarnasonar hafi menn ekki haft nægilega góð tök á þessu. (Gripið fram í: Þá er það í ráðherratíð Kjartans Jóhannssonar.) Hún er meðtalin að þessu leytinu, vegna þess að á fyrstu mánuðum í ráðherratíð minni leyfði ég innflutning á tveimur skipum sem gerir þetta fína hlutfall sem Stefán er að tala um. Þau voru bara tvö. (Gripið fram í: Hvert fóru þau?) Það fór annað á Suðurland, ef ég man rétt, og hitt á Reykjanes. Síðan komst ég að því að þetta gæti ekki gengið svona, þetta væri ótækt og, þegar maður kynntist því hvernig væri að stjórna þessari grein og stjórna þessum veiðum, þetta mundi leiða í ógöngur ef það yrði ekki sett stopp. Þess vegna var numið staðar. Og ég er alveg sannfærður um að við stæðum langtum betur nú ef því hefði verið haldið áfram.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem hafði í rauninni margt ágætt til málanna að leggja, hefði getað haldið langtum betri ræðu ef hann hefði ekki verið með óþarfar upphrópanir. Það var mikið atriði hjá honum að það stæði hér í grg. að þær ógöngur sem sjávarútvegurinn væri kominn í og þeir erfiðleikar sem við ættum við að stríða væri sjálfskapað. Ég tel að þetta sé alveg rétt. En við getum lesið áfram: Þeir eru sjálfskapaðir vegna þess að fiskimiðin eru fullnýtt eða ofnýtt. Það höfum við ákveðið sjálfir. Útgerðarkostnaður er of hár, ekki síst vegna óhóflegrar stækkunar fiskiskipastólsins í seinni tíð. Í aflahrotum hafa mikil verðmæti farið í súginn. Það höfum við öll haft fyrir augunum. Gæðum sjávarafurða hefur hrakað, eins og nýleg dæmi sanna. Þetta er úr grg. frá því í fyrra, þegar við fengum sendar til baka sendingar af saltfiski, af frystum fiski og m.a.s. komu fyrir slys í skreið. Þannig er ekki út í hött að tala um að gæðin hafi ekki tekist nægilega vel og að gæðum hafi hrakað þegar við stöndum frammi fyrir því að fá sendingarnar til baka. Það hefur þó ekki verið það sem við höfum yfirleitt þurft að búa við hér á Íslandi. Þessi grg. stendur því að öllu leyti fyrir sínu að því er þessi atriði varðar.

Menn greinir á um það, ef það eigi að taka upp veiðileyfastjórn, hvort veiðileyfin eigi að vera til sölu eða ekki. Jón Baldvin Hannibalsson gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem geta legið til grundvallar því. Dr. Gylfi Þ. Gíslason hefur líka gert það og ýmsir hagfræðingar hafa gert það. En það er einungis ein leiðanna. Og með flutningi þessarar þáltill. er ekki tekin afstaða til hennar, vegna þess að meginatriðið í þessari þáltill. er að málin séu skoðuð ofan í kjölinn vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.

Við þurfum að finna stjórnkerfi sem stuðlar að því að við tökum hæfilegt magn af fiski með sem lægstum tilkostnaði. Okkur er ljóst að það er ekki auðvelt verk að finna slíkt stjórnkerfi. Á sama hátt er okkur vitaskuld ljóst að ekki hefur verið auðvelt verk að hafa hemil á stærð fiskiskipastólsins. Hver einstakur útgerðaraðili hlýtur að sækjast eftir að gera út sem best skip og hver einstakur staður vill gjarnan fá sem mest í sinn hlut. Og það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt. Það er ekki heldur auðvelt verk að ætla sér að úthluta afla. En staðreyndin er einu sinni sú, að við verðum að fara í þetta verkefni vegna þess að það liggur í eðli greinarinnar, sem býr við takmarkaða auðlind sem á að endurnýja sig sjálf, að það verður að hafa heildarstjórn á veiðinni og menn geta ekki vikið sér undan því ef menn ætla að hafa hér góða lífsafkomu sem byggist á því að vera með sterkan sjávarútveg.