14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5806 í B-deild Alþingistíðinda. (5138)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. lagði áherslu á að hér væri ekki um óháð mat að ræða. Það má sjálfsagt teygja þó nokkuð úr þessu. Það mun eiga sér stað grundvallarbreyting á því mati sem við búum við í dag með frv. þessu, ef að lögum verður, þar sem ráðgjafarstofnun og allt að því stjórnarstofnun samanstendur af hagsmunaaðilum. Þetta er algerlega á öfugan veg við það sem aðrar fiskveiðaþjóðir gera. Noregur er með óháð tæknimat. Kanada er að reyna að leysa ákveðin vandamál í gæðamati, þeir stefna beint í óháð tæknilegt mat. Þá snúa Íslendingar við og láta hagsmunaaðila stjórna sínu mati eða hafa möguleika til að hafa áhrif á hvernig það er byggt upp.

Um hinn þáttinn, þ. e. þann áfanga sem hafinn var í vetur til að betrumbæta ferskfiskmatið, get ég aðeins bætt þessu við: Ég tel að þar hafi hent sig það sama og virðist stefnt að með þessari lagasetningu. Það er verið að byrja á öfugum enda. Það var byrjað á öfugum enda með pappírstilbúningi og punktakerfi vegna þess að punktakerfið og allar góðar leiðbeiningar í sambandi við mat eru gagnstaus ef prufan sem lögð er fyrir matsmanninn sýnir ekki hvernig aflinn er samsettur. Það er gersamlega gagnslaust. Á sama máta er gagnslaust fyrir okkur að tala um að breyta lögum, eins og hér er verið að leggja til, og vera að tala um að hægt sé að bæta fiskmat þegar um enga breytingu á þeim vettvangi er að ræða. Það er verið að byrja á öfugum enda á báðum stöðum.