14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5820 í B-deild Alþingistíðinda. (5146)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hliðra til í umr. hér í hv. Ed. svo taka mætti fyrir mál utan dagskrár. Eins vil ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að samþykkja að svara þeim fsp. sem ég hyggst hér beina til hans.

Í hádegisfréttum í útvarpinu í dag var skýrt frá því að maður, sem játað hefur að hafa nauðgað stúlku hér í bæ í fyrrinótt, sé nú laus úr haldi. Í fréttum kom fram að lögreglan hefði farið fram á 30 daga gæsluvarðhald yfir manninum en því verið synjað af fulltrúa sakadóms. Tvær ástæður voru gefnar fyrir synjuninni: Í fyrsta lagi að viðurlög við brotum af þessu tagi væru svo létt að ekki væri ástæða til gæsluvarðhalds þess vegna. Algengasta refsing við nauðgunarbroti mun vera nú fangelsi í 12 til 18 mánuði. Síðari ástæðan var sú að það truflaði á engan hátt rannsókn málsins þótt maðurinn væri látinn laus. Hann væri búinn að játa að hafa nauðgað konunni og því væri óhætt að sleppa honum. Lögreglan og fulltrúi sakadóms voru þó sammála um að maðurinn skyldi sæta geðrannsókn. Jafnframt kom fram að ásetningur hans til að fremja brotið hafi verið mikill þar sem hann hefði áður sama kvöld gert misheppnaða tilraun til sams konar brots.

Nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann telji að hér sé um eðlilega málsmeðferð að ræða, hvort hann telji það forsvaranlegt að maðurinn sé nú frjáls ferða sinna hér í bænum, og í framhaldi af því hvort hæstv. dómsmrh. hyggist beita sér fyrir endurskoðun á meðferð þessa máls svo og meðferð nauðgunarmála yfirleitt.