14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5822 í B-deild Alþingistíðinda. (5149)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Umr. um fjármálaáhyggjur ríkisstj. verða að frekar léttvægum hlutum við hliðina á jafnalvarlegum atriðum og hér um ræðir. Í tilefni af þessari mjög þörfu umr. utan dagskrár langaði mig til að beina nokkrum spurningum til hæstv. dómsmrh. Það var í fyrsta lagi: Voru ekki lagalegar heimildir fyrir gæsluvarðhaldsúrskurði í þessu máli? Ef svo var ekki telur dómsmrh. þá ekki nauðsyn að endurskoða lög og vinnubrögð við ákvörðun gæsluvarðhalds með tilliti til eðlis afbrota eða brots? Í þriðja lagi: Ef þessi heimild er í raun og veru til, og var fyrir í lögum, er þá ekki nauðsyn að reyna að hafa áhrif á það með einhverju móti að vinnubrögð og hugsunarháttur manna eða afstaða til þessara brota breytist? Í fjórða lagi: Er hugsanlegt að hér hefði mátt beita ákvæði frv. til lögræðislaga, ef orðið væri að lögum, þ. e. sjálfræðissviptingu með úrskurði geðlæknis og bendir ekki jafnhjákátlegur úrskurður eins og farbannsúrskurðurinn til þess að eitthvað mikið sé að í íslensku réttarkerfi? Eða hvers eiga reykvískar unglingsstúlkur að gjalda umfram þær sem búa fyrir utan borgarmörkin? Hversu oft enn eigum við að verða vitni að jafnóskiljanlegum viðbrögðum íslensks réttarkerfis áður en við teljum ástæðu til að endurskoða það með hagsmuni þolendanna fyrir augum?