14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5822 í B-deild Alþingistíðinda. (5150)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin þótt ég hefði kosið að þau væru ákveðnari en um var að ræða. Spurning mín til dómsmrh. hljóðaði upp á þá málsmeðferð sem ég tiltók hér áðan en ekki upp á hvað gerist á næsta stigi málsins, þar sem kemur til kasta Hæstaréttar.

Farbann það sem dómsmrh. minntist á mun þýða að manninum sé ekki heimilt að yfirgefa borgina en að öðru leyti er hann frjáls ferða sinna. Ég harma það að hæstv. dómsmrh. skuli sáttur við þessa málsmeðferð, því ef ég hef skilið hann rétt setur hann traust sitt á Hæstarétt og gerir ekki athugasemd við þá málsmeðferð sem ég ræddi hér um. Og ég vil aðeins segja það hér að ég tel að það geti ekki samrýmst anda neinna laga að þegar ofbeldismaður hefur játað á sig brot eigi umsvifalaust að sleppa honum. Og ég vil spyrja: Hver er ábyrgðarhluti þess sem ákveður að láta mann, sem greinilega er hættulegur umhverfi sínu, ganga lausan?

Ég veit ekki hvort hæstv. dómsmrh. er tilbúinn til að svara því, en ég vil í rauninni endurtaka síðustu spurningar mínar til hans aftur — ég veit að hann er búinn að biðja aftur um orðið — og spyrja í ljósi þess, sem hér hefur komið fram í tengslum við þetta mál, hvort hann telji að þörf sé á því að endurskoða meðferð nauðgunarmála yfirleitt.