14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5825 í B-deild Alþingistíðinda. (5158)

261. mál, lyfjalög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég tel eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, að þetta frv. sé í heild til bóta. Og ég fagna samkomulaginu sem varð um brtt., sér í lagi varðandi 8. gr., þannig að ótvírætt sé að einungis sé átt við Keldur varðandi þá undanþágu sem þar er gefin, og svo aftur varðandi samráðið, sem hann gat um, í 12. gr. varðandi lyfjanefndina. En ég get ekki annað en látið í ljós efasemdir um það fyrirkomulag, og á þá við það almennt, sem ætlað er að gildi um skipun lyfjanefndar, en skv. frv. hljóðar greinin um það svo, með leyfi virðulegs forseta: „Ráðh. skipar formann. Aðra nefndarmenn, auk fimm varamanna, skipar ráðh. í samráði við formann.“

Nú heyri ég að hæstv. fjmrh. segir að þetta sé gott og ég efast ekki um að svona vildi hann hafa þetta. En mér þykir þetta nú svona varðandi mál í heild sinni ekki alveg nógu gott. (Gripið fram í: Þetta mál heyrir ekki undir mig.) Jafnvel þó það heyri undir hv. vin litla mannsins, þá segi ég það engu að síður.

Og skýringar formanns nefndarinnar, sem voru fengnar í gegnum annan hæstv. ráðh. að vísu, hæstv. heilbrmrh., eru fólgnar í því að það sé mjög erfitt að fá menn til starfa í þessari lyfjanefnd. Ég þori að vísu ekki alfarið að dæma um það, en ég hef í rauninni með undirskrift minni beygt mig fyrir þessari túlkun og skýringu hæstv. ráðh., enda er tillitssemi mín við þennan hæstv. ráðh. og hv. nefndarformann Davíð Aðalsteinsson alkunn. (Gripið fram í: Þetta er með algjörum ólíkindum.) Já, með algjörum ólíkindum og undratraust á báðum í raun í sambandi við þetta, og þó alveg sérstaklega hæstv. ráðh. með það vald sem hann fer þarna. En þó að þessa skipan verði að taka upp e. t. v. í þessu tilfelli vegna erfiðleika á því að manna nefndina, þó það kunni nú að reynast rétt, sem ég dreg ekkert í efa, þá hlýt ég að vara við slíkri skipan við þessi mál almennt og tel að nefndaskipan geti yfirleitt ekki farið fram á þann hátt að ráðh., eins og hér segir, skipi formann og aðra nefndarmenn skipi ráðh. í samráði við formann. Ég hygg að fæstir ráðh. vildu hafa þetta vald. Fordæmið er sem sagt ekki gott, ef eftir því skyldi farið í veigameiri atriðum, en ég hlýt að hlíta skýringum í þessu efni. Ég vil aðeins að þetta komi fram vegna þess að ef við ætlum að fara eftir þessu í fleiri greinum, hvað sem hæstv. fjmrh. vill nú segja um það, þá held ég að illa væri nú komið okkar stjórnkerfi.