14.05.1984
Neðri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5830 í B-deild Alþingistíðinda. (5172)

265. mál, Iðnlánasjóður

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég er aðili að þessu nál., sem hér hefur verið mælt fyrir, með fyrirvara og flyt á þskj. 856 auk þess brtt. við þetta frv. Ég vil gera hér í stuttu máli grein fyrir mínum fyrirvara við þetta frv. Athugasemdir komu raunar fram þegar málið var hér til 1. umr. þar sem ég benti á að ýmislegt væri í þessu frv. sem ekki gæti talist til bóta og rökin fyrir því að taka nú upp breytta skipan frá því sem var með sameiningu Iðnrekstrarsjóðs við Iðnlánasjóð væru ekki sterk. Hins vegar lýsti ég ánægju minni með það að samtök iðnaðarins fallast með frv. þessu og eftir því sem fram kom í tengslum við það á að leggja nokkurt fjármagn til verkefna sem voru á verksviði Iðnrekstrarsjóðs, en nú eru lögð til vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs með þessu frv.

Það atriði, sem ég tel lakast í þessu frv. og fyrirvari minn varðar einkum, er að með þeirri skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, er fækkað þeim aðilum sem koma að mati á fjárveitingum til rannsókna og þróunarstarfsemi í iðnaði frá því sem verið hefur. Í stjórn Iðnrekstrarsjóðs voru sjö menn, sex skipaðir skv. tilnefningu og formaður skv. till. iðnrh. En skv. till. n. gerir frv. ráð fyrir því að það verði stjórn Iðnlánasjóðs ein sem fjallar um styrki og önnur framlög og lánveitingar úr vöruþróunar- og markaðsdeild en aðrir komi ekki að því máli.

Um frv. fékk n. umsögn m. a. frá Alþýðusambandi Íslands, dags. 25. apríl s. l. Ég tel rétt að lesa umsögn Alþýðusambandsins og Landssambands iðnverkafólks, en þessir aðilar gefa sameiginlega umsögn. Hún er svofelld, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands og Landssamband iðnverkafólks hafa fengið til umsagnar frv. til breytinga á lögum um Iðnlánasjóð. Megintilgangur frv. virðist vera tvíþættur, annars vegar að færa á eina hendi þau verkefni sem verið hafa á borðum Iðnlánasjóðs og Iðnrekstrarsjóðs, hins vegar að útiloka verkalýðssamtökin frá aðild að meðferð þeirra mála sem fjallað hefur verið um á vettvangi Iðnrekstrarsjóðs. Rök gefa hnigið að því að rétt sé að færa verkefni þessara tveggja sjóða á einn stað. Það gengur hins vegar illilega í berhögg við yfirlýsta stefnu ríkisstj., um samráð og samskipti við verkalýðssamtökin um atvinnumál, að útiloka þau frá áhrifum á þeim eina stað sem þau eiga nú aðild að ákvörðunum um ráðstöfun fjár til iðnaðarins. Það væri eðlilegra og betur í samhengi við yfirlýsingar stjórnvalda og atvinnurekenda um samstarf hagsmunaaðila að öflugri atvinnuuppbyggingu ef verkalýðssamtökin fengju fulltrúa í stjórn Iðnlánasjóðs og öðrum stofnunum atvinnulífsins. Miðstjórn Alþýðusambandsins og stjórn Landssambands iðnverkafólks mótmæla því að starfsemi Iðnrekstrarsjóðs verði felld undir Iðnlánasjóð nema samtökunum verði jafnhliða tryggð aðild að stjórn Iðnlánasjóðs. Alþýðusambandið og Landssamband iðnverkafólks benda á að verði samtökin útilokuð frá áhrifum með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, hlýtur það að hafa óheillavænleg áhrif á samstarf aðila um atvinnumál.

Virðingarfyllst, f. h. Landsambands iðnverkafólks,

Guðmundur Þ. Jónsson.

F. h. Alþýðusambands Íslands

Ásmundur Stefánsson.“

Þetta var umsögn þessara tveggja samtaka um frv. sem hér er til umr.

Ég leitaði eftir því í n. að stuðningur fengist við þetta viðhorf og einnig að þeir aðilar aðrir, sem átt hafa fulltrúa í stjórn Iðnrekstrarsjóðs, fengju aðild að ráðstöfun þessa fjármagns vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs skv. frv. En það eru fyrir utan Landssamband iðnverkafólks og Alþýðusamband Íslands, Samband ísl. samvinnufélaga og Iðnþróunarsjóður. Rökin fyrir því að síðast taldi aðilinn eigi þarna fulltrúa eru þau að Iðnþróunarsjóður hefur með hendi ekki óskyld verkefni, þ. e. hann hefur heimild til þess að ráðstafa fjármagni, bæði með framlögum og lánsfé til rannsókna- og þróunarstarfsemi í iðnaði, stuðning við nýiðnað.

Ég hef í samræmi við þetta, þar eð ekki fékkst stuðningur við það hjá n. í heild að standa að þannig breytingu á frv., flutt sérstaklega á þskj. 856 svofellda brtt. við 3. gr., að á eftir a-lið væntanlegrar 7. gr. laga um Iðnlánasjóð komi nýr stafliður er verði b-liður og þá 8. gr. og orðist svo:

„Til að annast með stjórn Iðnlánasjóðs um fjárreiður vöruþróunar- og markaðsdeildar skipar iðnrh. fjóra menn til fjögurra ára í senn skv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Landssambands iðnverkafólks, Sambands ísl. samvinnufélaga og Iðnþróunarsjóðs. Skulu þeir saman með stjórn Iðnlánasjóðs taka ákvarðanir um lánveitingar, framlög, ábyrgðir og kaup og sölu á hlutabréfum skv. 8. og 10. gr.

Að þessari brtt. samþykktri tel ég að náðst hafi þau hagræðingarmarkmið sem færð hafa verið fram sem rök fyrir sameiningu þessara sjóða, þ. e. að þeir verði gerðir að einum sjóði—það má með vissum hætti segja að í því geti fatist nokkur einföldun — en jafnframt að þeir aðilar, sem eðlilegt er að hafi hönd í bagga um ráðstöfun þessa fjármagns sem varðar stefnumarkandi mál í iðnaði og iðnþróun, komi þar að málum eftir sem áður.