14.05.1984
Neðri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5835 í B-deild Alþingistíðinda. (5193)

284. mál, söluskattur

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 834 um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 10 frá 22. mars 1960 um söluskatt með síðari breytingum. Þetta frv. er þingmannafrv. og flm. þess eru hv. þm. Helgi Seljan, Egill Jónsson, Karl Steinar Guðnason og Davíð Aðalsteinsson. Frv. fjallar um það að heimila fjmrh. að ákveða með reglugerð að frá heildsöluverði verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa, barnaheimila, leikskóla, félags- og safnaðarheimila og atvinnuhúsnæðis megi framleiðandi draga við söluskattsuppgjör tiltekinn hundraðshluta verðsins. Skal frádráttarhlutfallið ákveðið sérstaklega fyrir hvert afhendingarstig þeirra húsa sem um ræðir í 3. málslið og taka mið af því að sú verksmiðjuvinna verði undanskilin söluskatti sem unnin hefði verið söluskattsfrjáls á byggingarstað við smíði húsa á hefðbundinn hátt.

Þetta frv. hefur fjh.- og viðskn. athugað og mætir með samþykkt þess. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, sem sat fundi n., er einnig samþykk afgreiðslu málsins. Undir þetta nál. rita allir nm. í fjh.- og viðskn. deildarinnar.