14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5840 í B-deild Alþingistíðinda. (5222)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú mælt fyrir 305. máli þingsins. Það fylgir 306. máli, sem er frv. til l. um lækkun skatta á bönkunum í landinu. Frv., sem hæstv. ráðh. mælti fyrir áðan, var lagt fyrir þingið tiltölulega seint. Ríkisstj. fékk tvær tillögur frá bankamálanefnd. Önnur var um að lækka þetta gjald um 50%, eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir áðan, hin var um að fella þetta gjald niður í áföngum á tveimur eða þremur árum. Síðari leiðin þýðir auðvitað meira tap fyrir ríkissjóð í tekjum og auðvitað valdi hæstv. fjmrh. þá leið sem skerti meira tekjur ríkisjóðs. Það segir sig alveg sjálft að hann hlaut að velja þá leið og er í samræmi við yfirstjórn hans á ríkissjóði.

Vegna þess að hæstv. fjmrh. valdi þessa leið er staðan þannig, að hans mati, að á árinu 1984 tapar ríkissjóður 18 millj. kr., en á árinu 1985 68 millj. kr. Það er sem sagt verið að henda út úr ríkissjóði á þeim tíma sem gjaldið á að falla niður um 84 millj. kr. Er það að vonum að ríkisstj. skuli leggja alveg sérstaka áherslu á það núna, þegar hún er nýlega búin að keyra í gegn frv. um að skera niður félagsleg útgjöld skuli hún vera með sérstakar tillögur um að hlífa þeim sem einna besta hafa afkomuna í landinu, þar sem er bankakerfið. Það var eftir ríkisstj. að vernda þann „smælingjann“ sem heitir viðskiptabankar í þessu landi og henni líkt.

Þegar þessi tvö frv., sem hæstv. fjmrh. mun mæla fyrir hér, eru skoðuð, þá kemur í ljós að það er verið að lækka tekjur ríkissjóðs um mörg hundruð millj. kr. á þriggja ára bili, líklega milli 300 og 400 millj. kr. eða um 120 millj. kr. á ári. Ríkisstj. hefur áður keyrt hér í gegn frv. um að lækka skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hún hefur áður keyrt hér í gegn frv. um að lækka skatta á fyrirtækjum, þannig að jaðarskattur fyrirtækja verður nú lægri en jaðarskattur einstaklinga í fyrsta sinn í sögunni. Þessi ríkisstj. hefur keyrt það hér fram að það er fellt niður álag á ferðamannagjaldeyri. Og þessi ríkisstj. hefur lagt á sig einar 7 eða 8 umr. í þinginu til að kreista út 70–80 millj. kr: hækkun á skatti á einstaklinga. Þessi ríkisstj. er einnig nýlega búin að kvelja í gegnum Nd. frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það gerir ráð fyrir að skera niður framlög til félagslegrar þjónustu, lækka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, lækka sjúkradagpeninga húsmæðra, námsmanna og verkafólks sem hefur lítil réttindi. Nokkrum dögum seinna kemur hvað? Frv. til l. um að lækka skattana á bönkunum. Þetta kemur ekki þeim á óvart sem hafa fylgst með þessari ríkisstj. frá því að hún var mynduð. Þetta er í góðu samræmi við stefnu hennar yfirleitt — þá stefnu sem hefur ráðist gegn félagslegri þjónustu á öllum sviðum, en hossað og hampað fjármagninu.

Ríkisstj. er hér að fylgja þeim tillögum sem bankavaldið gerir. Þessi tillaga er þess vegna af sama toga spunnin og tillagan um að auka innlánsbindingu í bönkunum um 10%. Sú tillaga var samþykkt í Nd. fyrir síðustu helgi með báða stjórnarflokkana klofna. Hér er um að ræða tillögu af svipuðum toga — tillögu um að hlífa bankakerfinu vegna þess að ríkisstj. er svo illa á sig komin gagnvart bönkunum í landinu og alveg sérstaklega Seðlabankanum að hún verður að hlýða því sem bankakerfið krefst. Engin ríkisstj., sem hér hefur setið, hefur verið eins háð bankavaldinu og sérstaklega seðlabankavaldinu og núv. hæstv. ríkisstj. Má segja að það komi vel á vondan þar sem er hæstv. núv. fjmrh. sem hefur haldið löng erindi á liðnum árum um hætturnar sem þjóðinni stafa af seðlabankavaldinu.

Þegar fjmrh. er sestur í ráðherrastól flytur hann hverja till. á fætur annarri um að lækka stórkostlega skatta bankanna. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Gerðu þeir sér grein fyrir því áður en þeir afgreiddu þessi frv. í ríkisstj. að það væri hér verið að lækka skatta bankanna um 100–150 millj. kr. á ári á næstu þremur árum? Gerði t. d. hæstv. félmrh., með Byggingarsjóð á sig kominn eins og alþjóð veit, sér grein fyrir því að hann var að lækka skattana á bönkunum á sama tíma og hann er að láta taka erlend lán í húsnæðiskerfið fyrstur félmrh. í sögunni? Gerði hæstv. iðnrh. sér grein fyrir því að þannig er verið að leika fjárhag ríkissjóðs á sama tíma og hann ber ábyrgð á ýmsum sjóðum sem þurfa á fjármunum að halda? Gerði hæstv. landbrh. sér grein fyrir því að hann var að lækka skatta á bönkunum á sama tíma og hann er að fallast á stórkostlega lækkun fjármuna til niðurgreiðslna? Gerði hæstv. menntmrh. sér grein fyrir því að hún er að samþykkja lækkun skatta á bönkunum á sama tíma og hún er að skera niður framlög til skólamála í dreifbýli með því að auka heimildir menntayfirvalda til þess að færa bekki saman? Gerðu hæstv. ráðh. sér grein fyrir því að þeir eru hér að setja út úr ríkissjóði 100–150 millj. kr. á ári á sama tíma og þeir eru að taka erlend lán til að gera upp við opinberar stofnanir? Gerðu hæstv. ráðh. sér grein fyrir því að þeir eru að láta lausar 100–150 millj. kr. á sama tíma og þeir taka erlend lán til að gera upp meðlagsskuldir á milli Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga? Hafa menn áttað sig á því hvað hér er á ferðinni? Ég segi alveg eins og er: ég dreg stórlega í efa að hver einasti þm. stjórnarliðsins hafi áttað sig á því hvað hann var að samþykkja þegar þessar tillögur voru lagðar fyrir. Og ég dreg það í efa vegna þess að hæstv. fjmrh. vissi bersýnilega ekki nákvæmlega hvað undir bjó þegar hann var að gera grein fyrir málum í Ed. fyrir nokkrum dögum. 11. maí s. l. var þetta mál til meðferðar þar. Þá kemur fram í umr. um málið að þrátt fyrir ítrekaðar fsp. hv. þm. Ragnars Arnalds og Stefáns Benediktssonar hafði hæstv. fjmrh. engar upplýsingar um hvað kostaði í heild fyrir ríkissjóð sá niðurskurður á sköttum bankanna sem hér er verið að tala um.

Ég held að hér séu á ferðinni einhver ljótustu mál sem ríkisstj. er með á málalista sínum núna fyrir lok þingsins og er þá langt til jafnað. Á sama tíma og verið er að skera niður framlög til félagslegrar þjónustu, til húsnæðismála, er verið að lækka bankaskattana í landinu. Mér skilst að sú bankamálanefnd sem hv. 1. þm. Suðurl. var formaður fyrir hafi skilað tveimur tillögum: annars vegar tillögu um að lækka þetta gjald niður í 50% og hins vegar um að fella það niður í áföngum á nokkrum árum. Og hvaða gjald er það svo sem hæstv. fjmrh. velur? Velur hann þá tillögu sem er betri fyrir ríkissjóð eða velur hann gjaldið sem er verra og skilar minni tekjum fyrir ríkið? Auðvitað velur hann gjaldið sem skilar minni tekjum fyrir ríkið vegna þess að hér eru bankarnir á ferðinni, þeir „smælingjar“ sem ríkisstj. tetur nauðsynlegt að taka á hné sér og hampa.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég held að mjög nauðsynlegt sé að þingið fái nákvæmar upplýsingar um hvað hér er verið að ræða um og það verði aflað alveg sérstakra upplýsinga í þessum efnum. Ég held að það sé alveg útilokað fyrir þingið að hleypa þessu máli í gegn öðruvísi en að málið hafi fengið mjög ítarlega og rækilega umr. á hv. Alþingi og að aflað hafi verið nákvæmra upplýsinga fyrir fjh.- og viðskn. Nd. Mér er kunnugt um að hv. fjh.- og viðskn. Ed. aflaði ítarlegra upplýsinga um þetta mál. Á fundum þeirrar nefndar kom það m. a. í ljós að einstakir nm. voru undrandi, að ég segi ekki gáttaðir, á því hvað þetta þýðir mikið tekjutap fyrir ríkissjóð. Þar virtist að einstakir þm. stjórnarliðsins hefðu ekki hugmynd um hvað þetta þýddi. Ég held þess vegna að hæstv. fjmrh. eigi þann kost, með tilliti til þess að ástand ríkissjóðs er eins og allir vita, að láta þessi frv. liggja, vera ekki að afgreiða þau hér á þessu þingi og gefa þm., a. m. k. þm. stjórnarliðsins, möguleika á að átta sig betur á hlutunum núna yfir sumarið.

Ég skora á hæstv. fjmrh. að taka þessi frv. út og vera ekki að knýja á um afgreiðstu þeirra. Ég skora á hæstv. fjmrh. að gera það á þeim grundvelli að ég er sannfærður um að einstakir þm. stjórnarliðsins hafa ekki fengið nægilega skýrar upplýsingar um þessi mál. Ég teldi hæstv. fjmrh. verða mann að meiri ef hann viðurkenndi stöðuna og með tilliti til ástands ríkissjóðs léti hann þessi mál ekki fara í gegn. Það er ekki nokkur hæfa að vera að skera þannig niður tekjur ríkissjóðs um 100 millj. kr. á ári þegar staðan er eins og raun ber vitni um, á sama tíma og verið er að reka ríkissjóð með erlendum lántökum, á sama tíma og menn eru að taka erlend lán til að gera upp meðlagsskuldir, á sama tíma og menn eru að taka erlend lán til að endurlána úr Byggingarsjóði ríkisins, að þá skuli menn vera að lækka tekjur ríkissjóðs um 100 millj. kr.

Ég fullyrði að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert einstökum þm. stjórnarliðsins grein fyrir þessu máli, þannig að menn hafi áttað sig á hvað hér er á ferðinni. Ég skora á hæstv. fjmrh. að hinkra með afgreiðslu þessa máls. Það er engin hæfa að lækka skatta á bönkum við ríkjandi aðstæður. Vissi hæstv. landbrh. að hann var að samþykkja lækkun skatta á bönkum um 100–150 millj. kr. sömu daga og hann var að skera niður fjármagn til niðurgreiðslna um 170 millj. kr.? Ég segi: Ef hæstv. landbrh. hefur vitað um þetta er það athyglisverð forgangsröð hjá hæstv. landbrh. að hann skuli taka bankana í landinu fram yfir bændurna í landinu. En það segir kannske sína sögu um Framsfl. að hann skuli vera þannig heillum horfinn að hann skuli á sama tíma og verið er að lækka skattana á bönkunum fallast á lækkun niðurgreiðslna. Ég held að hæstv. landbrh. væri maður að meiri ef hann nú risi upp gegn bankavaldinu og segði: Lækkum ekki þessa skatta á bönkunum vegna þess að ríkissjóður hefur ekki efni á að missa þessar tekjur. Er það kannske svo með hæstv. landbrh. að hann hafi ekki vitað hvað hann var að gera, að hann hafi ekki fengið upplýsingar um hvað hann var að gera og að hæstv. félmrh. hafi ekki vitað það heldur né hæstv. menntmrh., allir þessir hæstv. ráðh. hafi ekki haft hugmynd um málið, hafi ekki fengið upplýsingar um hvað þeir eru að gera með þeirri stórfelldu lækkun bankaskattanna, sem hér liggur fyrir tillaga um?

Ég endurtek, herra forseti, að ég tel að hér sé um að ræða eitt versta málið sem ríkisstj. er að reyna að keyra í gegn síðustu daga þingsins og er þá langt til jafnað. Og ég verð að segja, og ég endurtek það líka, að umr. um þessi mál hlýtur að verða ítarleg og það hlýtur að verða farið fram á það að rækilegar upplýsingar verði lagðar fyrir lið fyrir lið til að sanna að nauðsynlegt sé að skera niður samneysluna í landinu í þágu bankanna. Eru bankarnir svo illa á sig komnir að nauðsynlegt sé að lækka þessa skatta á þeim? Hvaða kveinstafir eru það sem hafa borist frá bönkunum og hafa náð eyrum hæstv. fjmrh. í þessu efni? Grundvallardeilan í þessu efni stendur auðvitað um hversu mikla eða litla peninga ríkisstj. og þingmeirihlutinn ætla að leggja inn í samneysluna í landinu. Það er grundvallardeilan sem allt snýst um. Hæstv. talsmenn íhaldsins hafa haldið því fram að auðvitað muni viðskiptamenn bankanna verða látnir endurgreiða þessa skatta. Það var það sem talsmenn Sjálfstfl. og sumir talsmenn Framsfl. héldu fram þegar var verið að leggja bankaskattana á í fyrsta sinn í tíð síðustu ríkisstj. Auðvitað kann að vera að bankarnir sæki þessa fjármuni með þeim hætti að hækka sínar gjaldskrár. Það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að spurningin er um hvort þessar ríku og sterku peningastofnanir eiga að taka þátt í samneyslunni í landinu. Eiga þær að borga tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki? Af hverju á að vera að undanþiggja þessar stofnanir því að greiða tekjuskatt?

Ég tók eftir því að einn hv. þm. varð mjög undrandi á því, þegar hann leit í grg. frv. um bankaskattana sem er einnig hér á dagskrá, að þar kom fram að þeir skattar voru lagðir á bankana í fyrsta sinn 1982. Bankakerfið í landinu var skattlaust til 1982. Skattar eru lagðir á það samkv. lögum 1982, 1983 og 1984. Svo kemur ríkisstj. með vini hins litla manns innbyrðis og segir: Þarna er litli maðurinn. Þarna er hann sem þarf að hjálpa. Þarna er sá smælingi sem þarf að rífa upp úr svellinu í þeim vanda sem nú er um að ræða. Bankarnir, viðskiptabankarnir, það eru þeir og sérstaklega þarf að leggja lykkju á leið sína til að vorkenna þeim í þeirri óskaplegu stöðu sem nú er uppi. Ja, þvílíkt! Og ekkert lýsir ríkisstj. betur en þetta. Hún lækkar framlög til sjúkradagpeninga húsmæðra og námsfólks og lækkar skatta á bönkunum. Þetta eru áherslurnar sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur.

Ég skora á hæstv. fjmrh. að draga bæði þessi frv. til baka. Þetta eru vittaus frv. miðað við þær aðstæður sem nú eru í ríkisfjármálunum. Hæstv. fjmrh. glímir við enn þá meiri vanda í ríkissjóði ef hann fer að keyra þessa endileysu í gegn. Ég skora á hæstv. fjmrh. að athuga sinn gang mjög vel og stöðva þessa endileysu því að ríkissjóður á auðvitað að hafa tekjur af bönkunum eins og öðrum fyrirtækjum í landinu. Annað er algjörlega óeðlilegt.