14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5865 í B-deild Alþingistíðinda. (5231)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég á sæti í félmn. og hef af þeim ástæðum dálítið fjallað um þetta frv. þó að ég væri ekki viðstaddur þegar það var á lokastigi og skrifaði þar af leiðandi ekki undir nál. Ég vildi ekki við 2. umr. blanda mér hér í umr. vegna þess að ég trúði því í lengstu lög að stjórnarflokkarnir næðu saman í þessu máli og það þjónaði engum tilgangi að ræða þetta eins og þá stóð á. Í þessu sambandi vil ég minna á að einn þeirra sem sömdu þetta frv. var frsm. félmn., hv. þm. Halldór Blöndal. En það voru fleiri sjálfstæðismenn sem sömdu þetta frv., t. d. Gunnar Björnsson, sem ég hef mikið rætt um þetta mál við og ég gat ekki skilið annað á hans máli en að hann liti þessar greinar, sem hér hafa verið gerðar fyrst og fremst að umtalsefni, nokkuð öðrum augum en kom fram í framsöguræðu hv. þm. Halldórs Blöndals.

Það má raunar segja að sá ágreiningur sem upp kom á milli stjórnarflokkanna um þetta frv. hafi verið út af túlkun frsm. meiri hl., þar sem hann taldi sig vera að tala fyrir hönd meiri hl. félmn. En auðvitað kom strax í ljós og þarf ekki að benda á það, að það gat ekki verið rétt, þar sem hæstv. félmrh. gaf þá yfirlýsingu á samri stundu um þetta mál.

Ég harma það hvernig þetta mál hefur þróast hér og hvernig það er komið. Ég vil benda á í því sambandi að c-liður 33. gr. er alveg nýr liður í þeirri grein, það er alveg nýtt ákvæði. Þeir sem sömdu frv. hlutu þar af leiðandi að vera að opna fyrir þetta nýja form. Í 37. gr. gildandi laga segir, með leyfi forseta:

„Stjórnum verkamannabústaða er skylt að hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf láglaunafólks í hlutaðeigandi sveitarfélagi.

Í því skyni að kanna þörf fyrir nýjar íbúðir láglaunafólks í sveitarfélaginu lætur stjórnin fara fram skipulega könnun meðal þeirra sem ákvæði IV. kafla laga þessara taka til eftir því sem þörf er á að mati stjórnarinnar.“

Og það er einmitt sagt í skýringum við þessa gr. hér í frv., með leyfi forseta: „Skv. gildandi lögum eiga stjórnir verkamannabústaða á hverjum stað skilyrðislaust að gangast fyrir könnun í upphafi kjörtímabilsins á byggingarþörf fyrir verkamannabústaði í sveitarfélaginu“, þ. e. byggingar fyrir þetta láglaunafólk.

Ég varð dálítið hissa á ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, 3. þm. Reykv., áðan. Það mætti ætla að hv. þm. hefði ekki sest í ráðherrastól og alls ekki verið í sæti félmrh. Hann talaði eins og það væri alveg upplagt mál að samþykkja till. hér á þingi með stjórnarandstöðunni í stjórnarsamstarfi. Ég man ekki betur en að upp kæmu ýmislegar deilur á meðan við vorum t. d. í stjórnarsamstarfi og hann liti þær öðrum augum en hann virðist gera nú. Sannleikurinn er náttúrlega sá að lausn á þessum málum á þennan veg er óhugsandi í stjórnarsamstarfi og það veit hv. þm. náttúrlega vel þó hann tali svona. Svo að það má segja að það sé blettur á alþm. að þegar þeir eru í stjórnarandstöðu þá tala þeir allt öðruvísi en meðan þeir eru í stjórnarsamstarfi. Þetta gera margir og allt of margir. Þetta vil ég átelja.

Sannast sagna lít ég þannig á að sú deila sem hér hefur komið upp verði ekki leyst öðruvísi en á þann veg sem hér hefur komið fram, að um það sé að velja að breyta frv. á þennan hátt eða stoppa frv., að það nái alls ekki fram að ganga. Þetta eru þeir kostir sem eru fyrir hendi. Og það veit hv. þm. Svavar Gestsson að ef hann hefði verið félmrh. nú hefði hann einnig litið þetta sömu augum og ég geri nú. Ég met það þannig, þó að mér þyki þetta mjög mikið miður og er raunar undrandi á afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli, ekki síst miðað við þær umr. sem fram fóru um málið hér í fyrra. En ég tek þó þann kostinn frekar að leysa þetta svona og standa að því að þetta frv. verði að lögum með þessari breytingu en að það stöðvist nú. Og ég treysti því að þær skoðanir sem komu fram á síðasta þingi hjá Sjálfstfl. ráði gjörðum þeirra í sumar svo að unnt verði að semja frv. að lögum sem tryggi þessu nýja formi grundvöll í framtíðinni.