14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5871 í B-deild Alþingistíðinda. (5235)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ja, mikið lá nú á að slíta umr. um húsnæðismál, sem voru hér síðast á dagskrá hjá hæstv. forseta, og svo þegar bjallan var þeytt hér langtímum saman, þá komu ekki nægilega margir stjórnarliðar í salinn til þess að tryggt væri að það væri hægt að keyra í gegn till. Þorsteins Pálssonar svo að þá var atkvgr. frestað. Nær hefði verið að halda áfram þeirri umr. sem þarna var um að ræða. En mér.er tjáð að forseti hafi verið geysilega fljótur að slíta umr. þegar hv. 4. landsk. þm. lauk máli sínu og er ástæðan vafalaust sú, að hæstv. forseti hefur áttað sig á því að málið var komið í hinar mestu ógöngur fyrir flokk hans. Ég vil hins vegar gleðja hann með því að málið hlýtur að fá rækilega meðferð, a. m. k. af hálfu Alþb., þegar það kemur til Ed.

Það mál sem hér er á dagskrá er umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta, 305. mál. Þar er gert ráð fyrir því að lækka skatta á bönkunum um 300 millj. kr. samtals á tveimur — þremur árum. Það hefði t. d. mátt nota þessa peninga handa húsnæðissamvinnufélögunum til að byggja fyrir, hæstv. félmrh. Það hefði auðvitað verið alveg upplagt að veita þessu fé til húsnæðissamvinnufélaganna úr því að hæstv. ríkisstj. var aflögufær um þessa fjármuni upp á nokkur hundruð millj. kr.

Minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. tók þetta mál sérstaklega fyrir í ítarlegu nál. og ég ætla að leyfa mér að lesa það hér, með leyfi hæstv. forseta, en þar sagði:

„Frv. þetta er annað af tveimur sem ríkisstj. hefur lagt fram um lækkaðar skattgreiðslur banka og annarra innlánsstofnana. Í þessu frv. er greiðsla gjaldeyrisbanka í ríkissjóð af umboðsþóknun og gengismun lækkuð á árinu 1984 um þriðjung og veldur það tekjumissi fyrir ríkissjóð sem svarar um 30 millj. kr. á þessu ári, um 60 millj. kr. tekjumissi á næsta ári og um 90 millj. kr. tekjumissi á árinu 1986 þegar gjaldið verður fellt niður,“ eða samtals 180 millj. kr. sem hæstv. fjmrh. er hér að henda út úr ríkissjóði.

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í öðru frv. um hliðstætt efni (306. mál) er tekjuskattur banka og innlánsstofnana lækkaður um 18 millj. kr. á þessu ári og um 160 millj. kr. á næstu tveimur árum. Þessi einkennilega gjafmildi.fjmrh. og ríkisstj. í þágu banka er óneitanlega mjög í mótsögn við fjárhagserfiðleika ríkissjóðs um þessar mundir.

Minni hl. n. leggur til að frv. verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Í trausti þess að ríkisstj. láti endurskoða gildandi lög um skattskyldu innlánsstofnana þar sem frv. þetta er að ýmsu leyti vanhugsað og illa undirbúið og hefur í för með sér stórfellt tap fyrir ríkissjóð ályktar deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Stefán Benediktsson hefur setið fundi n. og er samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 10. maí 1984. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fundaskrifari, Ragnar Arnalds framsögumaður, Eiður Guðnason.“

Þannig hljóðar nái. stjórnarandstöðuflokkanna í hv. Ed. þar sem þeir lögðu til að þessum makalausu frv. um skattalækkun bankanna yrði vísað til ríkisstj. og þar með frá Alþingi.

Hæstv. fjmrh. lagði það til umræðunnar áðan að fyrrv. fjmrh. Ragnar Arnalds hefði farið með mjög rangt mál í þessu efni svo og ég í mínu máli hér þegar það var til umr. í dag. Ég kann satt að segja ekki við það að hæstv. fjmrh. noti aðstöðu sína hér í Nd. til þess að skamma Ed.-menn óbótaskömmum fyrir það að þeir fari með rangt mál. Mér finnst alveg lágmark að hæstv. fjmrh. noti þá aðstöðu sem hann hefur til að tala í Ed. til þess að lesa yfir hausamótunum á hv. þm. Ragnari Arnalds, en sé ekki að varpa á hann orði hér niðri í Nd., þar sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefur engin tök á að bera hönd fyrir höfuð sér eins og sakir standa. En hvað sagði hv. þm. Ragnar Arnalds um þessi mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta og skattalækkanir bankanna? Hann sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur lagt hér fram tvö frv. sem bæði stefna í þá átt að lækka skattgreiðslur banka og annarra innlánsstofnana. Í þessu frv. sem nú er til umr. eru lækkaðar greiðslur gjaldeyrisbanka í ríkissjóð af umboðsþóknun og gengismun og nemur lækkunin '/s á þessu ári og veldur tekjumissi fyrir ríkissjóð sem svarar um 30 millj. kr. á árinu. En aftur á móti verður tekjumissirinn 60 millj. kr. á næsta ári og 90 millj. kr. á árinu 1986 þegar gjaldið verður endanlega fellt niður. Samtals nemur því tekjuskerðing ríkissjóðs af þessari ástæðu 180 millj. kr. Það frv. sem verið er að afgreiða hér skerðir tekjur ríkissjóðs um hvorki meira né minna en 360 millj. kr.“

Þegar þetta mál var til meðferðar í hv. Ed. var engin grein gerð fyrir tekjutapi ríkissjóðs af samþykkt þessara frv. í framsöguræðu hæstv. fjmrh. Það var ekki fyrr en hv. fjh.- og viðskn. Ed. undir forustu Eyjólfs Konráðs Jónssonar settist á rökstóla að nokkrar upplýsingar komu fram um hvað þetta þýðir í lækkun á tekjum fyrir ríkissjóð. Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði að þetta frv., og byggði þá á upplýsingum sem fram hefðu komið í n., hefði í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð á sama tímabili upp á 178 millj. kr. eða hvorki meira né minna en 348 millj. kr. á þremur árum. Að meðaltali er hér verið að spila út úr ríkissjóði algerlega að óþörfu og án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu upphæð, sem nemur 120 millj. kr. á hverju þessara ára að meðaltali, eins og ég segi, eða samtals 360 millj. kr.

Við erum búnir að vera að rökræða og hafa áhyggjur af fjárhag ríkissjóðs á undanförnum vikum. Það hefur verið eitt mesta stórmálið sem hefur verið hér til meðferðar á síðustu vikum. Þar vantar stórar fjárhæðir inn í til að endar náist saman. Og eftir basl mikið tókst ekki ríkisstj. að leysa þann vanda heldur skildi eftir sig gat í rekstri ríkissjóðs sem verður að fylla með erlendum lántökum upp á rétt um 1 milljarð. En á sama tíma og þetta gerist ættar hæstv. fjmrh. að keyra í gegn tvö frv. um bankamál sem þýða tekjumissi fyrir ríkissjóð upp á 120 millj. að meðattali á hverju ári næstu þrjú árin. Er vit í þessu? Nei þetta er sannarlega glórulaust ævintýri.“

Síðan hélt hv. þm. áfram: „Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því í fullri hreinskilni og með fullri vinsemd hvort ekki hafi komið til greina að endurskoða áformin um lækkun skatta á banka eftir að í ljós kom hversu bágur fjárhagur ríkissjóðs er í raun og veru, því að við skulum gera okkur fyllilega grein fyrir því að fjárhagur ríkissjóðs verður ekki bara bágur á þessu ári. Úr því að ekki tókst með nýrri tekjuöflun eða niðurskurði á útgjöldum að ná endum saman á þessu ári, þá mun það sjálfsagt ekki heldur takast á næsta ári,“ sagði hv. þm. Ragnar Arnalds.

„Hér er greinilega verið að stækka gatið enn frekar, það er vísvitandi stefnt í það að halli á ríkissjóði verði enn meiri en orðið er. Og það eru engar smá upphæðir sem hér eru á ferðinni. Hæstv. fjmrh. beitti sér í upphafi fyrir því að ákveðnir tekjustofnar ríkissjóðs yrðu felldir niður og það er auðvitað ein aðalástæðan til þess að endar náðu ekki saman á s. l. ári og á þessu ári. En hér er enn haldið áfram á sömu braut og þessi einkennilega gjafmildi hæstv. fjmrh. og ríkisstj. hlýtur að vekja verulega athygli í ljósi fjárhagserfiðleika ríkissjóðs um þessar mundir. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er ekki hugsanlegt, bæði vegna fjárhags ríkissjóðs á þessu ári og þeirra vandræða sem hæstv. fjmrh. er í og vegna þeirra fjmrh. sem við taka vegna þeirra ára sem fram undan eru, að þessi ákvörðun sem nú er verið að taka í sambandi við bankaskattana verði endurskoðuð? Þetta er algerlega ábyrgðarlaus ákvörðun sem hér er tekin og ég trúi ekki öðru en hæstv. fjmrh. sé reiðubúinn til þess að endurskoða þetta mál og það verði að flokkast undir óaðgætni að verið er að keyra þetta mál nú fram á síðustu dögum þingsins þrátt fyrir það hvernig ástatt er.“

Þetta vildi ég að kæmi hér fram úr máli hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, vegna ummæla sem hæstv. fjmrh. hafði um hann hér í Nd. í dag. Ég taldi nauðsynlegt að afstaða og orð þm. kæmu hér greinilega fram svo að ekkert færi á milli mála hver hans skoðun væri á þessu furðulega frv., sem hér er nú á dagskrá, um umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta og um skattalækkun bankanna upp á mörg hundruð milljónir króna.

Hæstv. fjmrh. hefur reynt að verja sig með því að þetta mál hafi í raun og veru að einhverju leyti verið undirbúið í tíð fráfarandi ríkisstj. Mér er ekki grunlaust um að hann hafi komið málinu þannig í gegn til dæmis í öðrum stjórnarflokknum, sem man það stundum að hann hafi verið í síðustu ríkisstj. en sjaldan, og þannig hafi Framsfl. fallist á að þetta frv. var lagt fram án þess að þeir þm. Framsfl. hafi gert sér grein fyrir því hvað þeir voru í raun og veru að samþykkja.

Auðvitað er það rétt, sem hér hefur komið fram og rætt var m. a. í hv. Ed., að þessi mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta, voru rædd í tíð síðustu ríkisstj. eins og margt fleira. M. a. var rætt um það hvort rétt væri að breyta eitthvað þessum sérstöku gjöldum en að vinna þau þá upp með annarri skattlagningu á bankana. Þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar sumarið 1982 voru gerðar ákveðnar samþykktir um útgjöld úr ríkissjóði, m. a. tvöföldun á framlagi til Byggingarsjóðs ríkisins, um auknar niðurgreiðslur og fleiri þætti. Og þá voru líka teknar ákvarðanir um tekjur á móti handa ríkissjóði. Það er nefnilega það sem er ólíkt með búskaparlagi núv. fjmrh. og fyrrv., að fyrrv. fjmrh. reyndi einatt að láta það standast á sem efnt var til af útgjöldum og það sem hann hafði inni í ríkissjóði af tekjum. Þá gerðist það á árinu 1982 að rætt var um að þessi bankaskattur yrði lagður á til þess að standa undir tilteknum útgjöldum ríkissjóðs. Og þegar þessi bankaskattur var lagður á komu upp kvartanir og kveinstafir frá bönkunum eins og venjulega og sagt: Við höfum ekki efni á því að borga þetta.

Í framhaldi af því var svo rætt um það hvernig fara ætti með opinber gjöld bankanna yfirleitt, m. a. var þá nokkuð talað um þetta sérstaka gjald sem hér er til meðferðar, 305. mál þingsins, og niðurstaðan varð sú að lækka það í einhverjum áföngum. En það er auðvitað víðs fjarri að nokkrum manni í fráfarandi ríkisstj. hafi dottið í huga að fella þetta gjald niður eins og hæstv. fjmrh. hefur núna lagt til. Það er í rauninni fráleitt, sérstaklega þegar þess er líka gætt að bankamálanefndin lagði til að gjaldið yrði bara lækkað um helming. En þegar fjmrh. átti möguleika á tveimur kostum í þessu efni, þá tók hann auðvitað þann sem var verri fyrir ríkissjóð. Það gerir hann yfirleitt alltaf þegar um skattlagningu er að ræða á fyrirtækin í landinu.

Hæstv. fjmrh. var svo að rugla með það hér áðan að það væri nú einhver munur málflutningur minn hér í dag eða þegar við beittum okkur fyrir því í fráfarandi ríkisstj. að Útvegsbankanum var bjargað upp á sker. Staðreyndin var auðvitað sú að staða Útvegsbankans var orðin stórkostlega alvarleg, m. a. fyrir viðskiptamenn Útvegsbankans. Það er ríkið sem átti þennan banka og á hann enn. Þess vegna hlaut það að vera eðlilegt að eigandi þessa fyrirtækis tryggði að það gæti staðið við allar sínar skuldbindingar. Þess vegna kom auðvitað ekkert annað til greina en að gera ráðstafanir til þess að draga Útvegsbankann á flot. Ég verð hins vegar að segja alveg eins og er að það var miklu verri kostur en sá sem ég hefði viljað grípa til. Ég var ekki hrifinn af þessari leið. En í þeirri ríkisstj. eins og fleiri stjórnum var engin samstaða um það að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann sem var auðvitað eðlilegasta leiðin gagnvart þeim mikla vanda sem Útvegsbankinn átti við að glíma. Þessi samstaða var þá ekki til staðar og þess vegna var það sem þáverandi ríkisstj. fór í það að styrkja fjárhagslega stöðu Útvegsbankans sem var fullkomlega eðlilegur hlutur. Sem eignaraðili bankans hlaut ríkisstj. að gera það. Og það er auðvitað alveg út í hött af hæstv. fjmrh. að vera að rugla hér saman annars vegar umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta og hins vegar sköttum á bankana almennt eins og hann hefur gert í dag í ræðu sem hann flutti hér fyrr. Ég hef hvergi séð ítarlegri upplýsingar og greinarbetri um tekjutap ríkissjóðs af þessari skattalækkun heldur en í nál. minni hl. í Ed. og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. nákvæmlega einnar spurningar, sem sé þeirrar: Eru þær tölur sem fram koma í nál. minni hl. í Ed. réttar eða eru þær rangar? Ef þær eru rangar vill hann þá vera svo vinsamlegur að greina frá því í smáatriðum í hverju sú skekkja er fólgin. Hæstv. ráðh. á og hlýtur að hafa lýsingar á því hvaða göt það eru sem hann er þarna að bora á ríkissjóð og hverrar stærðar þau eru. Þarna flæðir út úr ríkissjóði eitthvað af peningum í gegnum þessi göt, sem hæstv. ráðh. er þarna að opna, og það er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hvað það er sem flýtur út af í hverju gati sem ráðh. er að bora á ríkissjóð með þessum frv.

Eins og ég tók fram áðan, herra forseti, tel ég algjörlega óhjákvæmilegt að þessi frv. fái ítarlega meðferð hér á hv. Alþingi. Og ég endurtek áskorun mína frá í dag, ég skora á hæstv. ráðh. að fresta meðferð þessa máls og taka það til meðferðar og umr. í sumar, þannig að lagt verði fyrir þingið heillegt frv. til l. um skatta af bönkunum, en það sé ekki verið að keyra í gegn hérna hundraða milljóna króna skattalækkun af bönkunum á síðustu dögum þingsins. Ég tel það með endemum að þessi stjórn, sem er að verja sig fyrir því að húsnæðissamvinnufélög fái inni í húsnæðislánakerfinu, ég tel það með endemum að þessi stjórn skuli akkúrat sama daginn vera að lækka skattana á bönkunum. Það er með endemum. Það er með ólíkindum hvað þessi ríkisstj. gengur langt í þjónustusemi sinni við fyrirtækin í landinu, þ. á m. bankana og aðrar slíkar stofnanir. Það er með ólíkindum og ég skora á hæstv. fjmrh. að draga þessi frv. til baka þannig að þau verði ekki afgreidd núna á vorþinginu. Honum veitir ekki af þeim peningum sem þessir skattar gefa í ríkissjóð. Svo aumlega hefur hann borið sig að undanförnu að jafnvel ég hef fundið til með honum og er þá langt gengið.