14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5875 í B-deild Alþingistíðinda. (5236)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég er afskaplega þakklátur hv. 3. þm. Reykv. fyrir þá meðaumkun sem hann sýnir mér í starfi fjmrh. Ég skil vel hans tilfinningar. Hann var í síðustu ríkisstj. og skildi eftir þann vanda sem ég er nú að glíma við. En þrátt fyrir alla þessa gífurlegu skatta, sem ég hef að hans dómi fellt niður og verið að gera stöðu ríkissjóðs enn þá verri en nokkurn tímann áður, þá er ástandið samt sem áður ekki verra en það var og verðbólgan komin úr 130% niður í 10%. Það er margt samverkandi sem kemur þar til greina. Og ekki virðist efnahagslíf þjóðarinnar ganga verr þó tillit sé tekið til einstaklinga og fyrirtækja Í landinu og þetta bákn, sem við höfum allir öðru hverju kvartað um að væri óseðjandi, sem alltaf getur gleypt meira og meira frá einstaklingunum, fái þá allavega einhvern sem hefur kjark og þor til að reyna að beisla það.

Ég vil strax svara því til að ég var ekki að skamma hv. 3. þm. Norðurl. v. í dag. Það er mesti misskilningur. Það er svo oft sem hv. 3. þm. Reykv. grípur til þess sem hendinni er næst í sínum málflutningi og er þá ekki svo mjög vandur að heimildum. Ég las upp úr ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. hæstv. fjmrh., þar sem hann að minni ósk gat þess á hvern hátt ham mundi leggja niður gjaldeyrisskattinn á bankana og koma með nýjan skatt sem hann var þá að kynna. Ég las upp úr ræðu hans og þar segir hvernig átti að lækka skattinn á gjaldeyrisbönkunum í áföngum, en það var svikið. Í staðinn fyrir að lækka það í áföngum hækkaði hann aftur upp í sömu upphæð, 60%, strax næstu áramót eftir að skatturinn var lagður á. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið. Skatturinn hækkaði 1. janúar, eftir að hann var lagður á 1. jan. 1983, en átti skv. því sem þáv. hæstv. fjmrh. sagði að lækka niður í 40% það ár, í fyrra, og svo áfram. Og í staðinn fyrir að taka þennan gjaldeyrisskatt af gjaldeyrisbönkunum eingöngu, sem voru bara tveir ríkisbankar, átti að dreifa þessum skatti yfir á allar innlánsstofnanir. Það var líka svikið, þannig að þá voru komin tvö skattafrv. á ríkisbankana í staðinn fyrir eitt. Það er þetta sem ég er að leiðrétta núna. Sem sagt að standa við það loforð sem gefið var.

Annars eru þær breytingar sem um getur í því frv. sem ég lagði fram, og er óbreytt frá því sem það var lagt fram áður, komnar frá bankamálanefnd. Hv. fjh.- og viðskn. Ed. tók þær till. til greina og ég lagði blessun mína yfir þær till. Í þeirri n. eru m. a. Lúðvík Jósepsson, fyrrv. þm. og ráðh. Alþb.

Þá talaði virðulegur 3. þm. Reykv. um að fyrrverandi fjmrh. hefði látið tekjur og útgjöld standast á. Ja, þvílík útkoma. Hátt á annað þúsund milljónir yfirdregið í maí þegar þessi ríkisstj. tekur við og erlendar lántökur í sama hlutfalli og þær eru núna af þjóðarframleiðslu, um 60%.

Ég ætlaði að svara hér spurningum sem fram voru bornar þegar vitnað var í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. um kostnað við þessi frv. og tekjumissi ríkissjóðs. Og það er þá svohljóðandi: Miðað við að 1984 fari 60% í 40% munu heildartekjur lækka um 43.8%. Árið 1985, miðað við að 60% lækki í 20%, þá bætast þar við 43–44 millj. þannig að heildarniðurfellingin á sköttum í þessi tvö ár nemur 87.6 millj. Þegar gjaldið svo fellur alveg niður 1986, úr 60% niður í 0% — les það hægt svo að hv. þm. geti skrifað það niður — þá verða heildarskattar, sem hafa verið felldir niður í þessi þrjú ár, 131.5 millj. Ef ég má svo gefa hv. þm. og þingheimi upplýsingar um það hvað kemur á móti, þegar skattar eru lagðir á allar innlánsstofnanir, eins og stóð til þegar þetta gjaldeyrisfrv. yrði fellt niður, þá hefðu skv. gildandi lögum komið 137.3 millj. en skv. frv. sem ég lagði fram hefðu það orðið 127.2 millj., þ. e. mismunur er 10.1 millj. og þar af ca. 3.8 millj. vegna 1/2% afskriftarheimildar og ca. 6.3 millj. vegna víðtækra undanþága, en skv. brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. nú er reiknað með um 120 millj. Þannig að á þessum þremur árum, en þetta er allt reiknað á sama hátt og framreiknað, á þessum þremur árum yrði heildartapið eða mismunurinn á þessum nýja skatti, bankaskatti, sem á að dreifast á allar innlánsstofnanir og því sem fellt er niður af gjaldeyrisbönkunum um 20 millj. kr. Ég skal láta ljósrita þetta blað svo að virðulegur þm. geti fengið það með sér. Þetta er reiknað af fjmrn. og að hluta til af bankaeftirlitinu.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, virðulegi forseti, og ég þakka honum fyrir að hafa gefið mér orðið en mér skilst að hann hafi ætlað að fresta þessum umr. frekar.