14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5877 í B-deild Alþingistíðinda. (5241)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil vitna til þess að hér rétt áðan var felld brtt. á þskj. 691 og að þeirri till. felldri vil ég taka það fram að ég ber góðan hug til byggingarsamvinnufélaga og vil styðja þau og efla, en ég get ekki samþykkt að þau gangi í sjóði Byggingarsjóðs verkamanna, sjóði, sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir, sjóði sem hafa lög og reglur um ákveðnar hámarkstekjur og eignir. T. d. byggingarsamvinnufélagið Búseti hefur engin ákvæði um hámarkstekjur eða eignir. Þess vegna gætu allir ráðh. núverandi ríkisstj. verið félagsmenn og fengið íbúð hjá Búseta með 80% láni. Slíkt stríðir algjörlega á móti stefnuatriðum mínum og verkalýðsfélaganna og tilgangi Byggingarsjóðs verkamanna. Ég greiði því ekki atkv.